Þegar Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði til kosninga árið 2015 hafði hann á orði að Danmörk væri besta land í heimi. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar gerði engan ágreining um það. Danmörk væri svo sannarlega besta land í heimi - en bætti við af varúð stjórnarandstöðunnar, að það gæti orðið enn betra.
Samanburður milli ólíkra samfélaga verður alltaf erfiður og er reyndar eitt helsta aðferðarfræðilegt vandamál margra alþjóðlegra stofnanna, að finna og meðhöndla gögn þannig að þau gefi marktækan samanburð. Þetta er öllum nauðsynlegt að hafa í huga, hvort sem menn ætla að upphefja Ísland eða draga það niður.
En að því sögðu! Á þessum vettvangi hefur í gegnum tíðina verið fjallað um samburð og reynt að draga saman margvíslega mælikvarða, síðast í ágúst á síðasta ári. Hér verður gerð enn ein tilraun til að uppfæra þessa upptalninguna og rakin þau tilvik, sem hafa annað hvort bæst við eða önnur þau sem hafa endurnýjast á einhvern hátt. Samantektinni er ætlað að útlista röðun Íslands eins og hún er í dag og er hér sem áður að mestu stuðst við upplýsingar sem hafa birst í íslenskum fjölmiðlum undanfarin misseri.
Gott heilbrigðiskerfi og lægstur ungbarnadauði
Í nýrri grein í Lancet-tímaritinu, einu virtasta og elsta læknatímariti heims, er dregin upp nokkuð björt mynd af stöðu íslenska heilbrigðiskerfisins gagnvart öðrum en Ísland er þar í öðru sæti, næst á eftir örríkinu Andorra. Um er að ræða útreikning á heilbrigðisvísitölu sem er reiknuð út frá aðgengi og gæðum heilbrigðisþjónustu með tilliti til dánartíðni af viðráðanlegum sjúkdómum. Ísland situr í öðru sæti í niðurstöðum rannsóknarinnar með heilbrigðisvísitöluna 94 af 100 mögulegum. Gildin eru reiknuð fyrir tímabilið 1990 til 2015 en á tímabilinu fer nánast öllum löndum heimsins fram.
Þetta kemur ágætlega heim og saman við nýjar tölur Hagstofunnar sem upplýsti að lífslíkur Íslendinga eru með þeim hæstu í Evrópu og ungbarnadauði í Evrópu er lægstur á Íslandi. Árið 2016 var meðalævilengd karla 80,7 ár og meðalævilengd kvenna 83,7 ár á Íslandi.
Þá reyndust Íslendingar vera í 2. sæti yfir heilbrigðustu þjóðir heims samkvæmt lista Bloomberg Global Health Index sem birtist í mars síðastliðnum.
Sömuleiðis er freistandi að geta hér rannsóknar sem sagt var frá í British Journal of Sports Medicine í september á síðasta ári. Kanadamaðurinn Justin Lang og samstarfsmenn hans greindu hvernig börn á aldrinum níu til sautján ára frá fimmtíu löndum stóðu sig í svokölluðu píp-testi, þar sem hlaupin er tuttugu metra leið, eins oft og mögulegt er og þar sem tíminn sem gefst til að hlaupa hverja ferð styttist reglulega þegar líður á prófið. Niðurstöður alls 1,1 milljón barna voru rannsakaðar. Börn frá Tansaníu, Íslandi, Eistlandi, Noregi og Japan komu best út í rannsókninni, en börn frá Mexíkó, Perú, Lettlandi og Bandaríkjunum verst. Aðeins börn í Tansaníu komu betur út í píp-testinu en þau íslensku.
Lífsgæði að aukast og hamingjan mikil
Þá virðast almennt lífsgæði vera að aukast og kemur sjálfsagt ýmsum á óvart. Ísland er í níunda sæti á lífsgæðalista Sameinuðu þjóðanna og hækkar um sjö sæti á lista yfir þau ríki þar sem lífsgæði eru best í heiminum að því er fram kemur í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar birtu í mars síðastliðnum. Síðast var Ísland númer 16. Tiltölulega óvenjulegt er að ríki stökkvi upp um jafnmörg sæti og raunin er með Ísland að þessu sinni.
Norðmenn eru hamingjusamastir allra í heimi samkvæmt nýrri hamingjuvísitölu Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar skipa þriðja sæti listans en Danir eru í öðru sæti. Norðmenn skipuðu fjórða sætið á listanum í fyrra en Svisslendingar eru í því sæti í ár. Meðal atriða sem horft er til eru frelsi, heilsa, tekjur og góð stjórnsýsla. Finnar eru í fimmta sæti listans í ár.
Ísland hækkar mest þegar kemur að jöfnuði
Ísland er í fjórða sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) yfir lönd með mestan jöfnuð. Ísland er jafnframt það land sem hefur hækkað mest á listanum undanfarin fimm ár samkvæmt samantekt ráðsins, ásamt Ísrael og Nýja-Sjálandi.
Norðurlöndin eru að venju áberandi á listanum en Noregur trónir á toppnum með sín „háu lífsgæði, árangursríkt velferðarkerfi og lágan ójöfnuð,“ eins og segir í samantektinni. Þá er talað um sterkan félagslegan hreyfanleika, lítil atvinnuleysi og hátt hlutfall kvenna á vinnumarkaðinum.
Lúxemborg og Sviss eru í öðru og þriðja sæti en Ísland því fjórða eins og fyrr segir. Þar á eftir koma Danmörk, Svíþjóð og Holland og svo eru Nýja-Sjáland og Ástralía í áttunda og níunda sæti. Austurríki er síðan í því tíunda.
Þegar að skýrslan er skoðuð nánar má sjá að á Íslandi er atvinnuleysi minnst hjá löndunum 30 sem fjallað er um í skýrslunni og þá er sömuleiðis fátækt minnst hér á landi. Þegar kemur að aðgengi að menntun er Ísland í 17. sæti en því sjöunda þegar litið er að gæði menntunarinnar. Þá eru Íslendingar í 23. sæti þegar litið er á framleiðni.
Öruggt land og ferðaþjónustan blómstrar
Ísland er öruggasta land í heimi samkvæmt úttekt Global Peace Index. Danir eru í 2. sæti, þá Austurríki, Nýja Sjáland og Portúgal. Finnar eru í 11. sæti, Svíar í 14. sæti og Norðmenn í 17. sæti.
Ísland hafnaði í öðru sæti yfir þau Evrópulönd sem lesendur breska blaðsins The Telegraph njóta helst að sækja heim. 75.000 lesendur tóku þátt í því að velja uppáhaldslandið sitt á síðasta ári. „Þetta er góð frammistaða miðað við land sem fyrir stuttu var varla á „ferðakortinu,““ segir meðal annars í umfjöllun um Ísland.
Ísland er í 25. sæti af 136 löndum í ár yfir samkeppnishæfustu lönd heims m.t.t. ferðaþjónustu. Eru þetta niðurstöður World Economic Forum (WEF) í skýrslu sem birt var í apríl. Lækkar landið um 7. sæti á listanum frá 2015 þegar stofnunin birti síðast niðurstöður viðlíka könnunar. Líkt og á árinu 2015 eru Spánn, Frakkland og Þýskaland í þrem efstu sætum listans.
Ísland er í fimmta sæti yfir þau lönd sem háðust eru ferðaþjónustunni samkvæmt úttekt How Much. Malta er í fyrsta sæti, Króatía í öðru, Taíland í þriðja og Jamaíka í fjórða. Í úttektinni segir að fátækt eða lítið efnahagskerfi einkenni helst löndin sem efst eru á blaði. Í úttekt How Much er litið til ferðaþjónustu sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu og tekið er mið af árinu 2015 þar sem hluturinn nam um 8,2% á Íslandi. Þetta hlutfall hefur vaxið hratt á liðnum árum og var það um 10% í fyrra. Að því gefnu að ferðaþjónustan hafi ekki vaxið eins hratt í öðrum löndum á sama lista ætti Ísland því að vera ofar á blaði.
En það er ekki bara að Ísland sé vinsælt ferðamannaland. Ísland er vinsælasti áfangastaður þeirra sem vilja flytja sig um set vegna stjórnmálaskoðana sinna eða samfélagsviðhorfs.
Vefurinn Movehub, sem aðstoðar fólk við að flytja á milli landa, hefur merkt mikla aukningu, sér í lagi frá Bretum og Bandaríkjamönnum sem voru tilbúnir að hugsa sér til hreyfings og var óvæntum kosningaúrslitum kennt um að því er sagði í frétt RÚV um málið. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og kosningasigur Donalds Trump voru talin hafa ýtt við mörgum sem eru ósáttir við úrslitin og samsama sig ekki með samborgurum sínum. Norðurlöndin þykja ákjósanlegustu áfangastaðirnir þegar fólk leitast eftir auknu frelsi og framsæknum stjórnmálaskoðunum. Þar er Ísland efst en Finnland, Svíþjóð, Noregur og Nýja-Sjáland eru í sætunum þar fyrir neðan.
Annað mesta upplýsingasamfélagið
Ísland er í næst efsta sæti á lista Alþjóðafjarskiptasambandsins um stöðu og þróun upplýsingasamfélagsins. Suður-Kórea trónir á toppnum en Ísland skýtur sér upp fyrir Danmörku. Á meðal þess sem litið er til er fjöldi netnotenda, farsímaáskrifta og menntunarstigs.
Alþjóðafjarskiptasambandið fylgist með stöðu og þróun fjarskipta í ríkjum heims. Frá 2009 hefur verið gefin út árleg skýrsla þar sem metin er staða upplýsingasamfélagsins í ríkjum heims. Nýjasta skýrslan, Measuring the Information Society Report, kom út þann 22. nóvember sl. Þar er ríkjum raðað á lista eftir einkunum og niðurstöðum samkvæmt mælikvörðum sem notaðir eru til að mæla stöðu og þróun upplýsingasamfélagsins, að því er kemur fram í frétt á vef Póst- og fjarskiptastofnunar.
Einnig er birtur listi með heildareinkunnum ríkja, svokallaður IDI-listi (ICT Development Index). Þar er 175 ríkjum um allan heim raðað í einkunnaröð og borið er saman við niðurstöður frá síðasta ári. Gefnar eru einkunnir fyrir fjölda netnotenda, heimila með tölvur, menntun, net- og farsímaáskriftir svo eitthvað sé nefnt. Ísland er nú næst efst á þessum heildareinkunnalista, hefur skotist upp fyrir Danmörku sem nú er komin úr öðru í þriðja sætið. Efst á listanum er Suður-Kórea eins og áður sagði. Heildarniðurstöðurnar sýna stöðuga þróun upplýsingasamfélagsins í öllum löndunum á listanum, en mikill munur er þó bæði milli ríkja og svæða í heiminum. Öll Norðurlöndin eru á lista tuttugu efstu ríkjanna
Lakari á regnbogakortinu en hærri á fjölmiðlafrelsinu
Fyrir skömmu var upplýst að Ísland uppfyllir eingöngu 47% skilyrða Regnbogakorts baráttusamtakanna ILGA-Europe, samanborið við 59% árið 2016. Kortið gefur til kynna stöðu ríkja hvað varðar réttindi hinsegin fólks. Þetta byggði á tilkynningu frá Samtökunum '78 en það sem dregur Ísland helst niður á þessum lista er skortur á víðtækri jafnréttislöggjöf sem bannar mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna. Einnig er löggjöf um réttindi trans fólks ábótavant enda er enn krafist sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðar til þess að þeir einstaklingar geti fengið nafni sínu og kyni breytt í þjóðskrá. Þá er ekki búið að banna ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna og líkamleg friðhelgi þeirra er því ekki tryggð, segir í frétt á vef Samtakanna '78. Malta er á toppi Regnbogakortsins með 88% uppfylltra skilyrða.
Ísland fer upp um níu sæti frá því í fyrra samkvæmt World Press Freedom vísitölu samtakanna Fjölmiðlar án landamæra og er eitt af þeim tíu ríkjum í heiminum sem mest fjölmiðlafrelsi ríkir. Fjögur Norðurlandanna eru í efstu sætu listans. Norður-Kórea er það ríki þar sem fjölmiðlar búa við minnst frelsi en Bandaríkin eru í 43. sæti listans og Bretland er í fertugasta sæti. Bæði löndin lækka á milli ára en alls eru 180 ríki á listanum.
Á vef samtakanna kemur fram að vísitalan endurspegli heiminn eins og hann er í dag þar sem árásir á fjölmiðla verða sífellt algengari og eftir á skýringar (post-truth), áróður og tilraunir til að þagga frelsið til þess að segja satt verða sífellt algengari í lýðræðisríkjum. Ísland lækkaði talsvert á listanum á síðasta ári sem virðist fyrst og fremst rakið til orða Vigdísar Hauksdóttur, þáverandi formanns fjárlaganefndar, um starfsemi RÚV.
Þriðja mesta bókmenntaþjóðin
Ísland er þriðja mesta bókmenntaþjóð heims en Norðurlandaþjóðirnar raða sér í fimm efstu sætin. Finnar eru í efsta sæti, Norðmenn í öðru, Íslendingar í því þriðja, Danir í fjórða sæti og Svíar í fimmta.
Þetta er niðurstaða rannsóknar á bókmenntaáhuga og lestrar- og skriftarkunnáttu meðal rúmlega sextíu þjóða. Rektor Central Connecticut háskólans í New Britain stýrði rannsókninni og kynnti hana, að því er kom fram í Washington Post í september á síðasta ári. Fram er tekið í fréttinni að þjóðir í Vesturheimi hafi ekki komið vel út í könnuninni. Bandaríkin ná þó sjöunda sæti og Kanada er í því ellefta.
Ísland er annað mesta rafbílaland Evrópu en efst í sjálfbærri þróun
Ísland er annað mesta rafbílaland Evrópu á eftir Noregi. Þetta kemur fram í tölum sem teknar hafa verið saman af EAFO, en það er stofnun á vegum Evrópuráðsins sem hefur eftirlit með þróun og útbreiðslu nýrra orkugjafa. Tölurnar birtust í upphafi árs. Noregur ber höfuð og herðar yfir alla aðra en þar var hlutdeild rafbíla í hópi nýrra bifreiða hvorki meira né minna en 29%. Þau lönd sem raða sér á listann á eftir Noregi og Íslandi eru Svíþjóð með 3,6% hlutdeild, Holland með 3,4% og Sviss með 1,8%. Að meðaltali var hlutdeild nýskráðra rafbíla í Evrópu hins vegar aðeins rúmt 1,2% á árinu 2016.
Könnun sem gerð var af vegum Sameinuðu þjóðanna í 188 löndum heims setur Ísland í efsta sæti yfir lönd sem standa best þegar kemur að sjálfbæri þróun. Samkvæmt því, eru íbúar Íslands best í stakk búnir til þess að viðhalda sjálfum sér og komast af í lífsbaráttunni sé miðað við önnur lönd. Upplýsingar um þetta birtust í september á síðasta ári.
Hinir ýmsu þættir eru mældir hvað varðar málefni tengd heilsu, útbreiðslu sjúkdóma, aðgangur að hreinu vatni, baráttu gegn fátækt og menntun. Einnig er mælt fyrir glæpatíðni, dánartölur vegna striðs, offitu barna, atvinnuöryggi og margt fleira. Miðað er við svokallað SDG stuðul (Sustainable Development Goals) sem er reiknaður út frá þáttum sem koma fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá því í fyrra (Global Burden of Disease, Injuries, and Risk Factors Study 2015, GBD 2015).
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.