Hvernig getur maður skilið þjóðfélag eins og það Norður-Kóreska? Landið er eitt lokaðasta ríki jarðar og þaðan berast heldur stopular fréttir, flestar af brjálæðislegu hernaðarkapphlaupi einræðisstjórnarinnar og inn á milli eru síðan sorgarfrásagnir eins og af Otto Warmbier, bandaríska háskólanemanum, sem dæmdur var til fimmtán ára erfiðisvinnu í Norður-Kóreu á síðasta ári fyrir sáralitlar sakir. Otto hlaut alvarlegan heilaskaða í fangelsi og var fluttur heim í dái og er nú látinn. Hvernig getur slíkt gerst?
Þegar yfirvöld í Norður-Kóreu héldu upp að 105 ár eru frá fæðingu Kim Il Sung, stofnanda ríkisins, í apríl síðastliðnum, var boðið upp á tónlistarsýningu sem endaði með myndbandi sem sýndi flugskeytaárás á Bandaríkin. Samkvæmt fréttum vakti sýningin mikinn fögnuð hjá áhorfendum og fékk bros að launum frá Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, en hann er sem kunnugt er barnabarn stofnanda ríkisins. Firringin í efstu lögum stjórnkerfis Norður-Kóreu virðist alger. Mbl.is birti áhugaverða frásögn af því fyrir stuttu hvernig lúxuslifnaður er í kringum Kim Jong-un.
Lýðræðislega Alþýðulýðveldið Kórea!
En hvernig er stjórnarfari háttað í Norður-Kóreu? Ráðamenn tala gjarnan um sína tegund af sósíalisma og vissulega er opinbert heiti ríkisins Lýðræðislega Alþýðulýðveldið Kórea. Wikipedia er ekki margorð um þetta ríki en bendir á að í Norður-Kórea er flokksræði undir stjórn kóreska verkamannaflokksins. Hugmyndafræði flokksins er sögð mótuð af fyrsta forseta landsins, Kim Il-sung, og leggur áherslu á pólitískt sjálfstæði, sjálfræði og sjálfsþurft. Ríkið einkennist af persónudýrkun leiðtoga þjóðarinnar, gengdarlausri innrætingu og áróðri. Upplýsingahömlurnar virka í báðar áttir: ríkisstjórnin reynir ekki aðeins að koma í veg fyrir að erlendir fjölmiðlar komist í tæri við íbúana, hún kemur einnig í veg fyrir að útlendingar komist að sannleikanum um Norður-Kóreu.
Einhverjir gætu hrokkið við þegar orðið sjálfsþurft er nefnd en margir muna án efa óhugnanlegar lýsingar sem var að finna í bókinni Engan þarf að öfunda eftir Barböru Demick sem kom út 2011. Þar var lýst skelfilegum hungursneyðarinnar sem dundi yfir þegar samtryggingakerfi sósíalismans hrundi með falli Sovétríkjanna. Hungrið náði til stórs hluta þjóðarinnar og er talið að hafi kostað að minnsta kosti eina milljón manna lífið. Nær allir sem létust voru þó í lægstu stétt þjóðfélagsins, en stjórnvöld stýrðu því af algjöru miskunnarleysi hvert hinni takmarkörkuðu fæðu sem til var í landinu var dreift. Öll orka samfélagsins virðist fara í uppbyggingu hersins og fylgt er efnahagslegri einangrunarstefnu sem sviptir þjóðina öllum nútímaþægindum og heldur henni við hungurmörk. Spilling, mútur og jafnvel vísir að markaðskapítalisma hóf að skjóta rótum í Norður-Kóreu í takt við hrun miðstýrða hagkerfisins upp úr miðjum tíunda áratug síðustu aldar þegar hungursneyðin dundi yfir. Hið eina sem breyttist ekki þegar kreppan fór að lina tökin var grimmileg harðstjórn stjórnvalda.
Að svona þjóðfélagstilraunir séu stundaðar nú í upphafi 21. aldar er í raun óskiljanlegt en alþjóðasamfélagið virðist hafa fá úrræði til að bregðast við.
Persónudýrkun sósíalismans
En það þarf kannski ekki að koma á óvart að sósíalisminn kalli slíkar hörmungar yfir fólk. Samkvæmt Svartbók Kommúnismans er talið að 100 milljónir manna hafi látið lífið af völdum kommúnismans á 20. öld. Sovétríkin voru byggð á hugmyndafræði sem gaf af sér persónudýrkun Leníns og Stalíns og síðar klíkuræði í kringum ráðamenn. Kína undir stjórn Maós er talið hafa kostað tugi milljóna manna lífið. Tító var maðurinn sem öllu réð í Júgóslavíu og átti hallir um allt land. Í sósíalíska lýðveldinu Rúmeníu drottnuðu þau Nicolae og Elena Ceausescu og lifðu við fráleitan lúxus. Í Albaníu, lokaðasta landi Evrópu, ríkti Enver Hoxha og afrekaði það helst að reisa 750 þúsund loftvarnabyrgi. Á Kúbu lifði Fidel Castro í vellystingum og þar hefur Raoul bróðir hans nú erft veldið. Á 40 mánaða valdatíma Rauðu Kmeranna í Kambódíu tókst Pol Pot og félögum að myrða fjórðung þjóðarinnar. Í Venesúela er samfélagið að hrynja undan arfleifð Hugo Chávez. En þrátt fyrir þessa sögu tekst Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, að gera mann undrandi. Nú, síðast í kjölfar nýrrar og afar áhugaverðar bókar eftir unga stúlku.
Með lífið að veði
Fyrir stuttu kom út bókin Með lífið að veði eftir Yeonmi Park sem fæddist í Hyesan, Norður-Kóreu, árið 1993. Hún býr nú í New York-borg þar sem hún stundar hagfræðinám við Columbia-háskóla. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Yeonmi Park upplifað miklar mannraunir. Árið 2007, þá 13 ára, flýði hún grimmilegar aðstæður heima fyrir ásamt móður sinni til Kína. Þar lentu þær í klóm mansalshrings sem hneppti þær í þrældóm. Um síðir tókst þeim á æsilegan hátt að flýja til Suður-Kóreu.
Sagan er þannig þrískipt. Fyrst er rakin uppvöxtur Yeonmi Park í Norður-Kóreu en síðan er sagt frá flótta hennar til Kína og að lokun aðlögun og endurnýjun í Suður-Kóreu. Lífið í Norður-Kóreu er engu líkt, þjóðin lifir við hungur og vosbúð og ekkert má út af bregða til þess að fólki sé ekki hent í fangelsi eða það útskúfað á annan hátt. Frásögn Yeonmi Park er upplýsandi, nákvæm og einlæg en hún lýsir æsku í landi þar sem fátæktin, hungrið og óttinn hafa svipt fólk allri mennsku. Þannig virðast flestir hugsa um það eitt að komast af og það er ekki sjálfsagt að ættingjar eða vinir hjálpist að. Allir eru hræddir, ýmist við að tapa stöðu sinni, sem getur leitt til útskúfunar, eða hreinlega að lenda í fangelsi. Úr hörðustu fangelsisvistinni á engin afturkvæmt.
Yeonmi Park lýsir ástandinu með eftirfarandi hætti í inngangi bókar sinnar:
„Eins og tugþúsundir annarra Norður-Kóreubúa flýði ég föðurland mitt og settist að í Suður-Kóreu þar sem við erum enn taldir ríkisborgarar, eins og lokuð landamæri og sjötíu ára ágreiningur og togstreita hafi aldrei skilið okkur að. Norður- og Suður-Kóreubúar eru runnir af sömu rótum og við tölum sama tungumál – fyrir utan að í norðri eru ekki til orð yfir hugtök á borð við „verslunarmiðstöðvar“, „frjálsræði“ og jafnvel „ást“, alltént ekki eins og annað fólk í heiminum skilur þau. Eina sanna „ástin“ sem við megum tjá er dýrkun á Kim-unum, ætt harðstjóra sem hafa stjórnað Norður-Kóreu í þrjár kynslóðir. Stjórnvöld banna upplýsingar erlendis frá, allar kvikmyndir og vídeóupptökur og trufla útvarpsbylgjur. Við höfum ekkert internet og enga Wikipediu. Einu bækurnar sem við megum lesa eru áróðursrit sem segja okkur að við búum í besta landi í heimi þrátt fyrir að helmingur landsmanna hið minnsta búi við sára örbirgð og margir séu viðvarandi vannærðir. Fyrrverandi heimaland mitt kallar sig ekki Norður-Kóreu – það telur sig vera Chosun, hina sönnu Kóreu, fullkomna sósíalíska paradís þar sem 25 milljónir manna lifa aðeins til að þjóna Leiðtoganum mikla, Kim Jong Un. Mörg okkar, sem höfum flúið, köllum okkur „svikara“ vegna þess að með því að neita að sætta okkur við örlög okkar og fórna lífinu fyrir Leiðtogann höfum við svikið málstaðinn og brugðist skyldum okkar. Ríkisstjórnin kallar okkur landráðamenn. Ég yrði líflátin ef ég reyndi að snúa aftur.” (Bls.3)
Fjölskyldutengsl og flokkshollusta skipta öllu
Það er sérkennilegt að lesa frásagnir Yeonmi Park á daglegu lífi í Norður-Kóreu. Almenningur virðist ekki hafa að miklu að stefna, helst er reynt að hugsa fyrir næstu máltíð. Alger skortur á markaðshagkerfi og neytendahugsun gerir það að verkum að erfitt er að sjá sér farborða nema fólk beinlínis sé hluti af valdastétt sósíalismans. Valdapíramídanum lýsir Yeonmi Park svona:
„Efst er „kjarna“-stéttin sem samanstendur af virtum byltingarmönnum – smábændum, fyrrverandi hermönnum eða ættingjum þeirra sem börðust og létu lífið fyrir Norðrið – og þeim sem hafa sýnt Kim-fjölskyldunni mikla hollustu og eru hluti af flokksvélinni sem heldur henni við völd. Næst kemur „grunn“- eða „vafa“-stéttin en í henni eru þeir sem eitt sinn bjuggu í suðurhluta landsins eða áttu fjölskyldur þar, fyrrverandi kaupmenn, menntamenn og venjulegir borgarar sem ekki eru taldir tilhlýðilega hollir nýju skipaninni. Á botninum er, að lokum, „óvinveitta“ stéttin en til hennar teljast fyrrverandi landeigendur og afkomendur þeirra, kapítalistar, fyrrverandi suður-kóreskir hermenn, fólk sem er kristið eða aðhyllist önnur trúarbrögð, fjölskyldur stjórnmálafanga og allir sem taldir eru óvinir ríkisins.” (bls.21)
Faðir Yeonmi Park var úrræðagóður og reyndi að sjá sér og sínum farboða með smygli og farandsölu. Hún gefur honum þessa lýsingu:
„Ég held að faðir minn hefði orðið milljónamæringur hefði hann alist upp í Suður-Kóreu eða Bandaríkjunum. Hann fæddist hins vegar í Norður-Kóreu þar sem fjölskyldutengsl og flokkshollusta skipta öllu og eljusemi og dugnaður tryggja ekkert annað en meira strit og látlausa baráttu við að hafa í sig og á.” Þrátt fyrir að hafa verið duglegur við að beita mútum er föður Yeonmi Park, Park Jin Sik, að lokum var varpað í fangelsi og voru þá öll sund lokuð. Átakanlegt er að lesa lýsingu af því þegar hann kemur til baka, þar sem lífsvilji og heilsa eru horfin. Allt er undir eftirliti. Njósnanet nágranna leggur til upplýsingar og eftirlit lögreglu tryggir að ekkert sem fjölskyldan gerir fari framhjá stjórnvöldum. Ættingjarnir snúa við þeim baki enda óttast þau að dragast með niður í ógæfuna. Öllu er haldið til haga:
„Allt sem varðar einstaklinga er skráð og geymt á skrifstofum hins opinbera og hjá stórum stofnunum en upplýsingarnar eru notaðar til að ákveða hvar fólk megi búa, ganga í skóla og síðar vinna. Þeir sem standa hátt í songbun-kerfinu mega ganga í Verkamannaflokkinn og fá þannig aðgang að pólitísku valdi. Þeir geta farið í háskóla og fengið gott starf. Hinir sem standa neðar í songbun-kerfinu geta endað á samyrkjubúi og unnið við hrísgrjónarækt alla ævi og soltið til dauða þegar hungursneyð brestur á.” (Bls. 26)
Mansal í Kína
Að lokum er ekkert eftir annað en að reyna að flýja til Kína þó að það væri alger óvissuför. Í þessu umhverfi nýta allir sér neyð fólksins frá Norður-Kóreu. Það er réttlausast allra þegar yfir landamærin er komið og lifir í stöðugum ótta um að vera sent til baka þar sem ekkert bíður annað en fangelsisvist við verstu aðstæður eða dauði. Fjölskyldan sundrast og aðrir ættingjar óttast það helst að vera dregnir inn í málið og þannig látnir gjalda fyrir svikin sem felast í flóttanum. En samt ákveða Yeonmi Park og móðir hennar að flýja. Tekur betra við - því er erfitt að svara en Yeonmi Park lýsir stöðunni með eftirfarandi hætti:
„Næstum allt flóttafólk í Kína býr við viðvarandi öryggisleysi. Karlar sem komast yfir landamærin ráða sig oft í vinnu hjá bændum fyrir lúsarlaun. Þeir þora ekki að kvarta vegna þess að bóndinn getur bara sagt lögreglunni til þeirra og þá verða þeir handteknir og sendir aftur heim. Kínverska ríkisstjórnin kærir sig hvorki um flóð af innflytjendum né ágreining við leiðtogana í Pyongyang. Norður-Kórea er ekki aðeins viðskiptaaðili heldur einnig kjarnorkuveldi rétt við landamærin og auk þess mikilvægur stuðpúði á milli Kína og nærveru Bandaríkjamanna í Suður-Kóreu. Stjórnvöld í Peking neita að veita fólki frá Norður-Kóreu stöðu flóttamanna og líta á það sem ólöglega „efnahagsinnflytjendur“ sem senda á aftur heim. Við vissum vitaskuld ekkert um þetta áður en við flýðum. Við héldum að okkur yrði fagnað. Og sums staðar var það raunin – en ekki af hálfu yfirvalda.” (Bls. 131)
Mikil eftirspurn var eftir norðurkóreskum konum í sveitum Kína vegna þess að sökum eins barns stefnunnar í Kína voru miklu fleiri karlar en konur þar. Þær mæðgur sýna mikla þrautseigju við þessar erfiðu aðstæður og þrátt fyrir allt reynist auðveldara að eiga við kínverska glæpamenn en norður-kóreanska embættismenn. En Yeonmi Park er með hugann við það eitt að komast til Suður-Kóreu. Það er fyrirheitna landið. Og að lokum tekst annar ævintýralegur flótti, nú yfir Góbí-eyðimörkina í Mongólíu.
Fyrirheitna landið - Suður-Kórea
Lokakaflinn fjallar um aðlögun að nýju lífi í Suður-Kóreu og eins og oftast er þá reynist margt erfitt í fyrirheitna landinu. Yeonmi Park fer í skóla en móðir hennar heldur áfram að leita að systur hennar sem þær urðu viðskilja við í Norður-Kóreu. Lýðveldið Kórea (Suður-Kórea) hefur í meira en sex áratugi þróast óháð lokaða ríkinu í norðri og jafnvel tungumálið er orðið öðruvísi. Yeonmi Park líkir þessu réttilega við tímaferðalag að fara á milli landanna og líklega þyrfti að meðhöndla flóttafólkið með áfallastreituröskun, slík var breytingin. Aðlögunin er því erfið og kannski ekki síst að læra að hugsa sjálfstætt, en öll slík hugsun er kerfisbundin barin úr íbúum Norður-Kóreu. Það var því ekki nema vona að svona hugsanir leituðu á Yeonmi Park:
„Aldrei hafði hvarflað að mér að frelsi væri svona erfitt og grimmt. Hingað til hafði ég alltaf haldið að frelsi þýddi að maður gæti gengið í gallabuxum og horft á þær kvikmyndir sem maður vildi sjá án þess að hafa áhyggjur af því að verða handtekinn. Nú áttaði ég mig á því að maður þurfti alltaf að vera að hugsa og það var feikilega þreytandi. Stundum velti ég fyrir mér hvort ég væri ekki betur sett í Norður- Kóreu ef ekki væri fyrir eilífa hungrið. Þar hugsuðu aðrir fyrir mig og völdu á milli kosta.”
Yeonmi Park naut aðstoðar Maryanne Vollers, bandarísks rithöfundar og blaðamanns, við ritun bókarinnar sem er fróðleg og vel rituð. Frásögnin er lifandi og upplýsandi og aldrei eins og það sé verið að selja eina hugmyndafræði frekar en aðra. Það er skilið eftir fyrir lesandann að draga sínar ályktanir en staðreyndirnar tala vissulega sínu máli. Bókin lýsir ótrúlegri lífsreynslu þar sem venjulegt fólk þarf að berjast við ómanneskjulegt kerfi. Með lífið að veði situr í lesandanum lengi eftir lesturinn og er óhætt að mæla sterklega með henni. Það er lofsvert að bók sem þessi komi út á íslensku svo skömmu eftir alþjóðlega birtingu hennar. Þýðing Elínar Guðmundsdóttur er lipur og hnökralaus.
Með lífið að veði
Almenna bókafélagið 2017
Bókin heitir á frummálinu In Order to Live og kom fyrst út á ensku hjá Penguin Books í Bretlandi árið 2015.
Þýðing: Elín Guðmundsdóttir
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.