Það er harla ólíklegt að margir Íslendingar leggi leið sína til Bangladess við Bengalflóa og samskipti við þetta fjarlæga land í Asíu eru sem gefur að skilja heldur lítil. Við Íslendingar munum sjálfsagt helst eftir landinu vegna tíðra frásagna í eina tíð um hungur og flóð. Það má þó rifja upp þá dapurlegu sögu að þrír íslenskir flugmenn og einn Luxemborgarmaður létu lífíð, þegar Rolls Royce vél þeirra TF-LLG frá Cargolux Airlines International, sem var í eigu Loftleiða og sænsks skipafélags, fórst um 10 km norðvestur af flugvellinum í Dacca í þáverandi Austur-Pakistan en núverandi höfuðborg Bangladess. Atvik sem snerti okkar litla samfélag verulega á sínum tíma.
Þegar Bangladess öðlaðist sjálfstæði frá Pakistan árið 1971 var landið mun fátækara en landið sem það yfirgaf eins og rakið var í nýlegri grein í The Economist. Iðnaður stóð undir um það bil 6-7% af landsframleiðslu en samsvarandi hlutfall var um 20% í Pakistan sem þá státaði af mun kröftugra efnahagslífi. Á milli landanna voru 1.500 km. í beinni loftlínu yfir Indland sem studdi sjálfstæðisbaráttu Bangladess.
Sjálfstæðibaráttan kostaði miklar fórnir fyrir íbúa Bangladess en milljónir manna annað hvort dóu eða lentu á hrakningi. Þeir fátæklegu innviðir sem fyrir voru eyðilögðust eða skemmdust í níu mánaða vopnuðum átökum við Pakistan. Þá varð ekki til að auðvelda aðskilnaðinn að Pakistanar höfðu átt og stýrt helstu fyrirtækjum í Bangladess og þannig ráðið mestu. Rétt áður en sjálfstæðið fékkst hafði fellibylur og meðfylgjandi flóð leitt til dauða hundruða þúsunda íbúa. Viðskilnaðurinn við Pakistan kostaði mikil átök og mörg mannslíf. En Bangladess fékk sitt sjálfstæði og hefur síðan reynt að fikra sig til aukinnar hagsældar, meðal annars með því að bjóða fram helstu auðlind sína, mikið og ódýrt vinnuafl.
Nýjar mannfjöldatölur
Í síðasta mánuði urðu þau tímamót að Bangladess fór framúr sínu gamla herraveldi mælt í þjóðartekjum á mann. Í Bandaríkjadölum talið voru þjóðartekjur í Bangladess komnar uppí 1.538 dali en voru 1.470 dalir í Pakistan. Þessi samanburður miðar við 30. júní síðastliðin. Reyndar ber að setja smá fyrirvara við þessar tölur. Tvær þættir hafa áhrif. Í fyrsta lagi upplýstist fyrir skömmu að íbúar Pakistans höfðu verið vantaldir en þá kom í ljós að 207,8 milljón manns búa í landinu, 9 milljónum fleiri en áður var haldið! Þar með er Pakistan orðið fjölmennara en Brasilía. En fjölgunin lækkar landsframleiðslu á mann um sem nemur 4 til 5%. Í öðru lagi kom í ljós fyrir stuttu að íbúar Bangladess voru oftaldir en landsframleiðsla þar hækkar sem því nemur. Landsmenn eru nú taldir vera 165 milljónir sem gerir landið að áttunda fjölmennasta ríki heims. Frá því sjálfstæðið fékkst hefur íbúum því fjölgað um hvorki meira né minna en 100 milljónir sem samsvarar nánast sameiginlegum mannfjölda Þýskalands og Hollands! Bangladess er 140 þúsund ferkílómetrar og því gríðarlega þéttbýlt. Tæplega 40% landsmanna búa í borgum.
Langvinnur hagvöxtur en erfiðar vinnuaðstæður
Eigi að síður eru hér merk tímamót fyrir íbúa Bangladess. Landsframleiðsla hefur vaxið um ríflega 6% á ári síðustu 10 ár og yfir 7% síðustu tvö ár. Iðnaður stendur nú undir 29% landsframleiðslunnar. Land sem einu sinni gat varla klætt íbúa sína flytur nú út meiri fatnað en Indland og Pakistan samanlagt. Vitaskuld eru vinnuaðstæður víða í mesta ólestri en Economist bendir á að þær séu þrátt fyrir allt betri en áður. Einstaka sinnum berast hingað fréttir af óviðunandi aðbúnaði fólks í verksmiðjum í Bangladess. Vonandi er að bætur efnahagur leiði einnig til bættra vinnuskilyrða og batnandi lífsgæða. Við höfum séð það gerast í öðrum löndum og ekki er óeðlilegt að vænta þess að það gerist einnig í Bangladess.
Þrátt fyrir mikla fátækt í Bangladess hefur menntun og heilbrigði batnað og lífslíkur aukist. Þeir sem fæðast núna geta vænst þess að lifa til sjötugs. Síðan 1990 hefur starfað lýðræðisleg stjórn í landinu en þjóðin hefur frá gamalli tíð verið þokkalega umburðalynd í hugsun. Allt síðan lýðræði komst á hafa tvær konur skipst á að halda um valdataumanna. Annars vegar er það Sheikh Hasina sem er núverandi forsætisráðherra og styðst við Awami bandalagið. Hún hóf sitt þriðja kjörtímabil í janúar 2014. Hins vegar er það Khaleda Zia hjá Þjóðarflokki Bangladess (Bangladesh Nationalist Party). Faðir Hasinu og eiginmaður Zia gegndu mikilvægu hlutverki í sjálfstæðisbaráttunni.
Undanfarið hefur hins vegar borið meira á harðlínu-íslamistum og óttast margir að þeir nái auknum áhrifum sem gæti slegið til baka þær umbætur sem hafa orðið á lýðréttindum einstakra stétta og hópa. Þá er ljóst að flóttamannavandi vegna Rohingya frá Myanmar er að hellast yfir landið og gæti aukið á pólitíska óvissu í Bangladess.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.