Þær atvinnugreinar sem vaxið hafa hægt og bítandi upp í tengslum við útgerð og fiskvinnslu hérlendis hafa ekki fengið mikla athygli. Þetta á meðal annars við um tæknifyrirtæki sem þjóna sjávarútvegi. Nú, þegar umræða um brottkast hefur blossað upp er ekki óeðlilegt að setja það í samhengi við þá tækni sem sjávarútvegurinn hefur yfir að ráða eða stendur til boða. Sjávarútvegurinn íslenski er tæknivæddur og getur og hefur leitað þangað eftir lausnum á vandamálum sem komið hafa upp. Umgengni við auðlindina er mikilvæg og skynsamlegt að menn finni heilbrigðar leiðir til að bæta nýtingu og eyða um leið tortryggni. Mætti til dæmis ekki skoða þann möguleika að þau skip sem setja upp myndatökubúnað fái umbun í formi aukins kvóta?
Íslenski sjávarklasinn hefur staðið fyrir áhugaverðum úttektum á sjávarútveginum eins og áður hefur verið vitnað til hér. Með árlegum greiningum er rýnt í stöðu og horfur tæknifyrirtækja tengdum sjávarútveginum, meðal annar til að vekja athygli á þessum vaxandi iðnaði sem hefur fjölmarga möguleika til enn frekari vaxtar. Fyrir skömmu birtu sérfræðingar Sjávarklasans sína sjöttu greiningu á stöðu tæknifyrirtækja í Sjávarklasanum hér á landi en hana má finna hér.
Meiri tækni - færri störf
Umræða um tæknibreytingar er reyndar fyrirferðamikil á vegum sjávarútvegsins og miklar fjárfestingar undanfarinna ára sýna vilja greinarinnar til að auka fjárfestingu á þessu sviði. Í maí síðastliðnum héldu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi ráðstefnu og birtu skýrslu um tækniframfarir í sjávarútvegi í ljósi þess að með framförum í tækni verða til ný störf og önnur hverfa. Vinnumarkaðurinn stefnir hraðbyri í tímabil þar sem sjálfvirkni skipar stærri sess en áður hefur þekkst. Slík þróun kallar á breytta samsetningu vinnuafls og nýjar áherslur í menntakerfi. Stjórnvöld víða um heim vinna að því að kortleggja vinnumarkaðinn með tilliti til aukinnar sjálfvirkni. Í skýrslunni kom fram að íslenskur sjávarútvegur ber nú þegar glöggleg merki þessarar þróunar. Fullkomnari skip og vinnslur hafa fjölda jákvæðra þátta í för með sér svo sem minni losun gróðurhúsalofttegunda, öruggara vinnuumhverfi, bætta nýtingu afla og aukin afköst. Þróunin felur samt í sér áskoranir því hún fækkar hefðbundnum störfum en kallar þess í stað á fjölgun annarsstaðar og aukna þekkingu í iðnaði, vísindum og hugbúnaðargerð.
Í fiskvinnslunum hér á landi störfuðu um 8.100 manns árið 1997, en aðeins 3.800 manns árið 2016. Fækkunin er ríflega 50% og sýnir glögglega þá breytingu sem er að eiga sér stað. . Sjálfvirkar vélar vinna í dag mörg erfiðustu verkin og þökk sé tækninni hefur vinnslugeta á hverja vinnustund starfsmanns farið úr 12 kílóum á klukkustund árið 1996 upp í 190 kíló í fullkomnustu fiskvinnslum árið 2017. Um leið blasir við að störfin eru orðin annars eðlis en áður og snúast meira um að staðsetja flökin rétt fyrir vélarnar og að hafa eftirlit með gæðunum.
Minni vöxtur tæknifyrirtækjanna
Sem fyrr er áhugavert að rýna í skýrslu Sjávarklasans. Þar kemur fram að tæknifyrirtæki innan sjávarklasans halda áfram að eflast og á árinu 2016 er áætlað að meðalvöxtur þeirra hafi verið á bilinu 5-10%. Það er minni vöxtur en undanfarin ár. Skýringuna má aðallega rekja til styrkingar krónunnar. Þarna er þó verulegur munur á milli fyrirtækja. Sum stór eða meðalstór fyrirtæki
auka veltu sína um 30-40% á meðan minni fyrirtæki standa mörg hver í stað eða velta dregst saman. Þannig virðist enn meiri munur á vexti og afkomu lítilla og stórra fyrirtækja en áður. Mörg þeirra litlu fyrirtækja sem rætt var við í tengslum við þessa úttekt hafa í mesta lagi haldið í horfinu á meðan stóru fyrirtækin hafa sum hver, eins og áður segir, vaxið gríðarlega. Skýrsluhöfundar telja að þarna komi yfirburðir stærðarinnar glögglega í ljós; stóru fyrirtækin geta boðið heildarlausnir og öflugt þjónustunet.
Stærstu fyrirtækin í góðum vexti
Gott gengi margra tæknifyrirtækjanna á árinu 2016 má rekja til aukinna fjárfestinga íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna bæði í útgerð og vinnslu. Fjárfestingar í skipum hafa verið miklar og endurnýjun í fiskvinnslu á landi einnig. Stærstu fyrirtækin Marel, Hampiðjan og Skaginn3X áttu öll góðu gengi að fagna á árinu 2016. Rekstur Hampiðjunnar gekk vel og velta fyrirtækisins jókst umtalsvert með kaupum á Voninni í Færeyjum, velta Marels jókst einnig umtalsvert og Skaginn3X heldur áfram að vaxa langt umfram meðaltal. Heildstæðar lausnir stóru tæknifyrirtækjanna fyrir laxeldi, fiskvinnslu (bæði um borð í skipum og í landi) og verksmiðjur fyrir uppsjávarvinnslu hafa styrkt enn stöðu þeirra.
Skýrsluhöfundar benda á að áhugavert sé að sjá að um leið og stærstu fyrirtækin eflast þá hafa þau lagt meiri áherslu á markaðs- og ímyndarmál. Flest tæknifyrirtækin hafa hingað til aðallega kynnt sig á sölusýningum og síðan með heimsóknum í fyrirtæki. En eftir því sem fyrirtækin hafa stækkað þá hafa þau farið meira í markvissa auglýsingastarfsemi af ýmsu tagi. Þó sterk króna sé að valda erfiðleikum er ljóst að styrkur þessara fyrirtækja er mikill.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.