Óhætt er að segja að skákheimurinn sé dolfallinn þessa stundina eftir að tvö skákforrit leiddu saman hesta sína á miðvikudaginn. Annars vegar var það skákforritið Stockfish og hins vegar AlphaZero sem kemur frá DeepMind, því dótturfyrirtæki Google sem fæst við gervigreind. Nú er það svo að það er ekkert nýtt að tölvur tefli og allt síðan tölvan Djúpblá sigraði ríkjandi heimsmeistara, Garry Kasparov, í einvígi árið 1997 hafa tölvurnar verið taldar manninum fremri í reiknigetu við taflborði. Skákheimurinn hefur smám saman jafnað sig á þeim tímamótum. Í dag eru tölvur ekki lengur keppinautar (nema þá í smáforritum) en skákmenn nota þær mikið sem hjálpartæki.
En AlphaZero byggir á alveg nýjum grunni, búið algóriþma sem gerir forritinu fært að þjálfaði sig frá grunni án utanaðkomandi afskipta. Þannig kunni forritið ekkert annað en mannganginn og skákreglurnar áður en sest var að tafli við Stockfish. Það hafði til dæmis ekki verið forritað á neinn hátt með einhverju sem kalla mætti stöðumat og kunni engar byrjanir. Eftir að hafa fengið að þjálfa sig sjálft (sic!) í fjóra klukkutíma var AlphaZero fært um að rúlla Stockfish upp með taflmennsku sem er engri lík. Fyrir þá sem ekki vita er Stockfish, núverandi heimsmeistari tölvuforrita, kallað „ógeðið” af sumum íslenskum skákmönnum! Reiknigeta AlphaZero er með ólíkindum og ekki er langt síðan það setti upp svipaða sýningu með kínverska borðleikinn Go sem löngum hefur reynst tölvum erfiðari en skákin.
Heillandi skákstíll hjá tölvu!
Eins og áður segir eru menn þrumulostnir yfir taflmennsku AlphaZero. Einn skákskýrandi sagði að það að horfa á AlphaZero væri eins og að horfa á fléttusnillinginn Mikhail Tal tefla nema AlphaZero tefldi tíu sinnum betur! Stockfish er talið vera með styrkleika á bilinu 3230 til 3400 ELO-stig en til samanburðar má nefna að heimsmeistarinn Magnús Carlsen er með 2830 stig og er stigahæstur allra skákmanna. Engin leið er að meta styrkleika AlphaZero en skákir forritsins eru magnaðar og skákmenn vita varla hvar á þá stendur veðrið. Svo virðist sem forritið hafa einstakan skákskilning og í einvíginu tókst því oftar en ekki að negla niður stöðu Stockfish þannig að það gat sig hvergi hreyft. Mörkin milli stöðubaráttu og taktískra aðgerða virðast horfin og fegurðin ein ríkir!
Annar skákskýrandi sagði að ekki væri annað hægt en að dáðst að því hve fallegar skákir AlphaZero væru en um leið væri það pínulítið ógnvekjandi. AlphaZero vann helming skákanna með hvítu og tapaði ekki skák í einvíginu. Það einkennilegt að segja það, en það er að erfitt að segja að Stockfish hafi nokkru sinni leikið af sér. AlphaZero sóttist eftir rými og fórnaði á báðar hendur ef því var að skipta. Efnishyggja virðist því ekki vera AlphaZero meðfædd!
Lokaorrusta mannsins?
Þegar Kasparov tefldi við Djúpbláa 1997 var viðureignum stillt upp með hádramatískum hætti og spurt hvort væri máttugra, mannsheilinn eða tölvan. „Lokaorrusta heilans,“ sagði í fyrirsögn í tímaritinu Newsweek á sínum tíma. Tólf árum áður hafði Kasparov teflt fjöltefli við 32 tölvur og unnið allar. IBM tölvurisinn taldi skák heppilega til að sýna getu fyrirtækisins og var búið að margfalda reiknigetu Djúpblárrar árið 1997 þegar teflt var til úrslita. „Úrslitin vöktu furðu og sorg þeirra, sem töldu að þau væru tákn um undirgefni mannsins gagnvart hinni almáttugu tölvu,“ skrifaði Kasparov síðar. Stórmeistarar veltu fyrir sér möguleikunum, sem í því voru fólgnir að til væru vélar, sem gætu, að minnsta kosti ef ákveðnar stöður kæmu upp, spilað af næstum guðlegri fullkomnum. Þetta er einmitt það sem við sjáum hjá AlphaZero, ótrúlega fullkomnun og eðlilegt að fleiri en skákmenn velti því fyrir sér hvort mannkynið sé að upplifa tímamót.
En hvað þýðir þetta fyrir þróun gervigreindar? Jú, hugsanlega ætti mannkynið að senda frá sér afkomuviðvörun! Geta forritsins sýnir gríðarlegt stökk á þessu sviði. Eðlilega spyrja menn sig hvort þarna sé komið forrit sem geti leyst ýmis erfiðustu viðfangsefni mannsins á stuttum tíma. Getur AlphaZero til dæmis fengið upplýsingar um alvarlegan sjúkdóm og hannað lækningu (lyf) á augabragði? Nú eða aðrir möguleikar, slíkt forrit virðist geta gert óteljandi hluti. Hér skulu þó endurtekin viðvörunarorð sem sett voru fram í pistli ekki fyrir löngu: „Sá vandi fylgir hins vegar gervigreind að við vitum ekki nákvæmlega hvaða hættur geta fylgt því að kenna vélum að kenna sér sjálfar og um leið veita tölvuforriti einhverskonar sjálfsvitund eins undarlega og það hljómar.” Þegar horft er á skákstíl AlphaZero gæti maður freistast til að halda að þarna sé einhver skilningur eða jafnvel sjálfsvitund sem við höfum ekki séð áður.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.