Skógrækt á það sameiginleg með tónlist að fara fram
í tíma sem líður.
Hljómur, sproti. Ekkert nema von sem á að þróast.
Vonandi vex þetta.
Ljósmynd af skógi: dásamleg þversögn.
Ljósmynd: dauðakyrrt augnablik, kyrrsetning mikillar
hreyfingar sem glöggt má finna fyrir.
Skógur, tónlist: hvílík starfsemi!
Alltaf að, alltaf að ...
Kannski þess vegna sem ljósmyndir af hljóðfæra-
leikurum að spila eru svona gróskumiklar, formin öll
eitthvað svo dásamlega kvenkyns, jafnvel skeggjaðir
náungar verða eins og venusarleg tímaglös.
Alltaf að.
Þannig hljómar ljóðið Ljósmyndir eftir Sigurð Pálsson (Úr „Ljóðtímavagn”, 2003). Alltaf að, alltaf að … segir skáldið. Hvað á betur við um skógrækt? Það er mannbætandi að rækta skóg og það er alltaf sérstök tilfinning að ganga um í skóglendi. Tilfinning sem við Íslendingar þekkjum kannski ekki allt of vel en þó er það svo, að á því hefur orðið nokkur breyting undanfarna áratugi.
En skógrækt hefur einnig annað og veigameira gildi. Hún getur dugað til þess að skapa nýtt jafnvægi í náttúrunni nú þegar maðurinn glímir við loftslagsbreytingar sem hann hefur komið sjálfur af stað. Um það þarf varla að deila lengur, vandinn er að finna hvaða leiðir eru heppilegastar til að takast á við þessar breytingar og skapa nýtt jafnvægi. Nú er það reyndar svo að í gegnum árþúsundin hafa orðið miklar og róttækar breytingar á jörðinni og allt leitar jafnvægis um síðir.
En nú þarf að skapa nýtt jafnvægi í kolefnisbúskapi jarðarinnar. Til þess verðum við meðal annars að ná koltvísýringi úr lofthjúpnum og binda. Einfaldasta leiðin er að rækta nýjan skóg en einnig má fara aðrar leiðir. Viðkunnalegast og líklega árangursríkast er að verja kröftunum í skógrækt og uppgræðslu örfoka land.
Svikin loforð um aukna skógrækt
Undanfarið hafa margir ágætir skógræktarmenn komið fram og minnt á þessa leið og áður hefur verið tekið undir það í pistlum hér. Þetta var sérstaklega áberandi umræða þegar greint var frá því í byrjun desember að ákveðið hefði verið að loka gróðrarstöð Barra á Fljótsdalshéraði. Um leið og greint var frá því upplýsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins að aðstandendur þess hafi gefist upp á sviknum loforðum um aukna skógrækt og kolefnisbindingu. Barri er fullkomnasta skógarplöntustöð landsins en nú eru plöntur aðeins ræktaðar í öðru gróðurhúsinu.
Árið 2003 var samþykkt þingsályktun um aukna skógrækt en gekk ekki eftir. Plöntuframleiðsla dróst verulega saman eftir hrun, jókst lítillega 2015 og 2016 en nú er útlit fyrir enn frekari samdrátt sé litið til síðustu útboða. Nú eru helmingi færri tré gróðursett hér á landi en fyrir tíu árum. Hvernig má það vera?
Ísland í einstakri stöðu
Margir sjá að Ísland er í einstakri stöðu til að binda kolefni þar sem skógrækt er mjög lítil en einungis um 2% landsins er skógi vaxið. Í Finnlandi er þetta hlutfall 76% og er að aukast. Um leið eru veruleg tækifæri í endurheimt gróðurlendis hér á landi. Þarna eru tækifæri sem Íslendingar geta ekki látið framhjá sér fara. Lokun gróðrarstöðvar eins og Barra er slys.
Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, hefur verið óþreytandi við að benda á þessa möguleika. Hann segir Ísland vera í algerri sérstöðu hvað þetta varðar því hér séu miklir möguleikar á stórfelldu niðurhali kolefnis. Í fyrsta lagi með einfaldri skógrækt sem virkar þannig að tré eru sett niður þar sem engin voru áður. Tréð einfaldlega dregur niður kolefni og geymir í viði og rótum til lengri tíma. En þetta verður að vera nýskógrækt því gamall skógur sem er hættur að vaxa bindur lítið. „Sérstaða Íslands er hreinlega sú að við höfum miklu meira pláss fyrir stórtæka skógrækt en flestar aðrar þjóðir. Kolefni er þannig ekki bara safnað og geymt, heldur verður það að verðmætum við síðar meir,” segir Sigurður í nýlegri grein.
Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar, og Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, skrifuðu nýlega grein þar sem þeir bentu á að skógar hér á landi bindi kolefni bæði hraðar og í meira magni en áður var talið. Ekki sé rétt sú skoðun margra að áhrif bindingar í skógi komi fram á löngum tíma og dugi skammt í því tímahraki sem fram undan er. Í lokaorðum greinar þeirra er þörf brýning:
„Staðreyndin er sú að Ísland er eitt þeirra landa sem hafa hvað mest tækifæri til þess að auka sína bindingu. Skógræktarskilyrði eru góð, næg þekking og vinnuafl er til staðar, landrými og áhugi. Því er ekkert annað að gera enn að hefjast handa!” Undir það er tekið hér.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.