c

Pistlar:

27. desember 2017 kl. 16:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýr leiðtogi Evrópu?

Því er haldið fram að allt frá tímum stjórnarbyltingarinnar hafi Frakkar haft þá trú að að réttindi safnist upp og verði bara betri og betri og lífið um leið. Undanfarna áratugi hafa færri og færri lagt trúnað á þetta. Staðreyndin er sú að miklir erfiðleikar steðja að Frakklandi og svo mjög að efasemdir eru um að sjálf þjóðfélagsgerðin haldi. Þetta eru ekki bara alvarleg tíðindi fyrir Frakka heldur alla Evrópu enda Frakkland annað tveggja forysturíkja Evrópusambandsins og í reynd lykilríki í pólitískri þróun Evrópu.

Á sama tíma er komin til valda í Frakklandi nýr stjórnmálaleiðtogi sem margir telja að boði nýja tíma. Það er ekki með öllu út í hött þar sem innkoma Emmanuels Macron á hið pólitíska svið er einstök. Óhætt er að segja að hann hafi tekið frönsk stjórnmál með áhlaupi og er í dag í lykilstöðu sem forseti landsins og leiðtogi stærsta stjórnmálaflokksins.

Tímaritið The Economist veltir fyrir sér hvort í Frakklandi hafi merkustu tíðindi ársins átt sér stað á hinu pólitíska sviði en blaðið á erfitt með að dylja aðdáun sína á Macron. Tímaritið Time var með langt viðtal við Macron fyrir stuttu og setti hann á forsíðu tímaritsins undir fyrirsögninni; Næsti leiðtogi Evrópu. Þar sem Angela Merkel, kanslari Þýskaland, býr nú við óvenju mikla óvissu þá er sjálfsagt nokkuð mikið til í þessu. Og þar sem Donald Trump hefur átt erfitt með að fóta sig í leiðtogasætinu og virðist reyndar hafna því að leiða heiminn þá er ekki nema von að athyglin beinist að hinum unga forseta Frakklands. 12. desember síðastliðin tók Macron á móti helstu leiðtogum heims þegar tveggja ára afmæli loftslagsráðstefnunnar í París var notað til að styrkja þau heit sem gefin hafa verið í loftslagsmálum. Sviðið er tekið frá fyrir hinn 39 ára gamla forseta Frakklands sem baðaði sig í sviðsljósinu. En eðlilega velta margir því fyrir sér hvort hann muni standa undir þessu?macron-cover-final

Franskur efnahagur á tímamótum

De Gaulle sagði einhverju sinni, þegar hann var dauðuppgefinn á allri sérviskunni í löndum sínum: Hvernig haldið þið að sé að stýra þjóð sem borðar 246 tegundir af ostum? Frakkar hafa af mörgum verið talin heldur tilgerðarleg gáfumenni og helst þurfa menn að skilja og skrifa frönsku til að átta sig á frönskum heimspekingum, sérstaklega þá sem hafa séð um að sundra viðtekinni veröld þeirra sem trúa á engilssaxneska 

rökgreiningarheimsspeki.

En undanfarna áratugi hefur kreppt að efnahagnum í Frakklandi og fyrir því eru margar ástæður, um sumt ekki ólíkar því sem við sjáum í Bretlandi og Bandaríkjunum en einnig eru fyrir því aðrar staðbundnar ástæður. Frakkland er gríðarlegt innflytjendasamfélag en hefur um leið rekið velferðar- og bótakerfi sem er að mörgu leyti sérstakt. Frakkar trúa á ríkið og innan OECD er það aðeins Danmörk sem tekur hærra hlutfall landsframleiðslu til sín í formi skatttekna. Franska ríkið tekur um 45,3% en meðaltal OECD er 34,3%. Opinber útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu eru of há, segir Macron. Efnahagsstefna hans gengur út á að breyta þessu.

En það er margt sem getur torveldað það. Vinnuvikan í Frakklandi er 35 tímar og sækir stuðning um það í stjórnarskránna. Lögmaður og kennari eru með samtals um 6000 pund í mánaðarlaun eða um 75 þúsund pund í árslaun eða rúmar tíu milljónir króna. Ofan á þetta bætir ríkið 1000 pundum á ári í barnabætur á meðan Bretland gerir ekkert slíkt. Að mörgu leyti ánægjulegt, sérstaklega ef landið telur sig hafa efni á þessu. En nú er um það deilt en það er ekki deilt um það að vinnulöggjöf Frakklands er samkeppnishamlandi og er farin að bíta í núna. Macron er ætlað að breyta þessu og rétt eins og á við um Donald Trump virðist honum alvara með það sem hann sagði fyrir kosningar.

Stefnuskrá Macron

Ef við lítum á stefnuskrá Macron þá er hún í stuttu máli svona:

  • Skera niður 120.000 störf í opinbera geiranum.
  • Skera niður opinber útgjöld um 60 milljarða evra
  • Auka framlög til varnarmála
  • Lækka skatt á fyrirtæki úr 33% í 25%
  • Vinna á fjárlagahalla sem er nú 3% af VLF
  • Auka frjálsræði á vinnumarkaði
  • Hækka atvinnuleysisbætur til þeirra sem hafa staðið í eigin rekstri
  • Gera fjárfestingar frádráttarbærar frá auðlegðarskatti.

En svona einfaldir eru hlutirnir ekki þó óumdeilanlega séu þetta stærstu áhersluatriðin. Ef við lítum fyrst til starfa í opinbera geiranum þá verður fækkun samt ekki i formi uppsagna, eins og François Fillon hafði boðað, heldur verður einfaldlega ekki ráðið aftur í 70.000 stöður í grunnstofnunum, en það er fjöldi þeirra sem mun fara á eftirlaun á næstu 5 árum. Sama uppi á teningnum með þá 50.000 starfsmenn sem eru hjá ríkinu. Þá er Macron með áform uppi um að auka fjölda lögreglumanna og kennara á mest krefjandi svæðum, eða um samtals 22.000 manns. Þannig hyggst hann takast á við harða gagnrýni um að stórir hlutar franskra stórborga séu löglaus svæði.
Sömuleiðis er ætlunin að hækka atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi er mjög stórt skref þar sem að þær eru í raun ekki til í dag - sama á við um fæðingar- og veikindaorlof. Ofan á þetta mun einnig stór hópur ekki borga lengur þann skatt sem er ígildi útsvars á Íslandi, það er að segja útsvar verður tekjutengt en ekki tengt fjölda íbúa og þjónustu á ákveðnu svæði eins og er í dag.

Þá þykir mörgum mikilsvert að taka á húsnæðisvanda ungs fólks og stúdenta. Í dag eru um 60.000 stúdentaíbúðir sem dreifast yfir landið. Til viðbótar eru 20.000 íbúðir fyrir ungt fólk á vinnumarkaði/starfsnámi en margir geta ekki eins og kerfið er í dag fengið leigusamning nema með bankaábyrgð. Já, og þetta verða semsagt leigusamningar upp á 3-12 mánuði sem eru endurnýjanlegir einungis einu sinni.

Franska heimsveldið

Bretland er heimsveldi, Þýskaland land og þjóð, en Frakkland lífvera, sagði franski sagnfræðingurinn Jules Michelet (1798-1874). Frakkar líta alltaf á sig sem stórveldi enda eitt af kjarnorkuveldunum og eiga fastafulltrúa í Öryggisráði SÞ. Þá eru þeir í þriðja sæti þjóða sem verja mestu til geimferða og rannsókna þeim tengdar. Frönsk áhrif eru víða, meðal annars í gegnum gamlar nýlendur þeirra. Macron er því líklegur til að ætla sér hlutverk á stóra sviðinu. En ýmislegt þarf að leysa í næsta nágreni.

Macron sýndi strax þegar hann tók við að hann ætlaði ekki að leysa flóttamannavanda Evrópu einn og sér. Á fundi með Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítala, 12 júlí í sumar hafnaði Macron beiðni Gentiloni um að koma að lausn flóttamannavanda Ítala en þá voru um 200.000 hælisleitendur fastir á Ítalíu vegna stefnu ESB og þeirrar ákvörðunar Frakka frá því í lok árs 2015 að loka syðri landamærum sínum fyrir flóttamönnum og hælisleitendum. Nokkrum dögum seinna olli Macron enn meiri reiði á Ítalíu þegar hann var farinn að skipta sér af innanlandsmálum Líbýu en Ítalir hafa löngum litið á Líbýu sem sitt yfirráðasvæði. Hann kórónaði þessa stuttu samskiptasögu með því að hafna því að ítalska skipasmíðafélagið Fincantieri keypti franskt félag í líkum rekstri með því að bera fyrir sig öryggishagsmuni.

Í öllum þessum málum var ljóst að Macron var að spila á hinum alþjóðlega vettvangi með heimavöllinn í huga. Innflytjendamál eru og verða áfram eins og heit kartafla í Frakklandi á meðan Þjóðfylking Marine Le Pen er virk á hinu pólitíska leiksviði. Framundan eru áhugaverðir tímar í Frakklandi eins og verður vikið að í fleiri pistlum hér.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.