Það ætti að vera íslenskri þjóð sérstakt fagnaðarefni um hver áramót ef ekki hefur orði sjóslys sem kostar mannslíf. Saga þjóðarinnar er mörkuð alvarlegum sjóslysum sem hafa kostað mörg mannslíf í gegnum aldirnar. En það hefur breyst sem betur fer, þökk sé breyttum atvinnuháttum, kvótakerfinu og þó ekki síst þrotlausu starfi við að bæta öryggi sjómanna.
Þetta veldur því að nú stöndum við þegar nálgast áramót og horfum til þess að til þessa hefur hvorki orðið banaslys í íslenska fiskiskipaflotanum né á íslenskum flutningaskipum það sem af er ári. Ef svo heldur fram sem horfir þá verður þetta fjórða árið, hugsanlega alveg frá landnámi, sem ekkert banaslys verður meðal íslenskra sjómanna. Um þetta hefur verið áður rætt á þessum vettvangi enda undrast greinarhöfundur stundum tómlætið fjölmiðla um þessa áhrifamiklu breytingu.
Allar íslenskar fjölskyldur eiga minningu eða sögu um ættingja sem hefur farist í sjóslysi. Í minni fjölskyldu minnumst við þess þegar afi minn Kristján Stefánsson fórst með Súlunni frá Akureyri 10. apríl 1963 en með henni fórust fimm menn. Sex mönnum af áhöfninni var bjargað af Sigurkarfa frá Njarðvík. Til viðbótar fórust 11 sjómenn í ofviðri fyrir Norðurlandi á sama tíma, fimm með Hafþóri frá Dalvík, tveir með Val frá sama stað, tveir með Magna frá Þórshöfn og tvo tók út af Hring frá Siglufirði. Auk þess fórust tveir bátar aðrir frá Dalvík en mannbjörgvarð af þeim. Þarna fórust 16 íslenskir sjómenn á aðeins tveimur dögum og nokkrir til viðbótar björguðust við illan leik. Þetta var veruleiki þeirra tíma og hér fylgir með klippa úr sjómannablaðinu Ægi frá 1953 en þar var sérstakur dálkur um þá sem fórust við Íslandsstrendur mánuðinn á undan. Slík upplýsingagjöf þótti sjálfsögð á þeim tíma.
2008 fyrsta árið án banaslysa
Fyrsta árið sem var án banaslysa meðal íslenskra sjómanna var árið 2008 en það var rifjað upp í frétt í Morgunblaðinu fyrir stuttu. Árin 2011 og 2014 urðu heldur ekki mannskaðar á sjó. Í fyrra fórust tveir íslenskir sjómenn og einn árið 2015. Á síðasta áratug, að þessu ári meðtöldu, hafa 11 sjómenn farist, en árið 2007 var versta ár aldarinnar í þessu samhengi, en þá fórust fimm sjómenn.
Ef litið er tæplega 50 ár til baka kemur í ljós að árið 1971 fórst 31 sjómaður í íslenska flotanum, 19 ári síðar og 34 árið 1973. 49 fórust veturinn 1970/1971 eins og sést í meðfylgjandi blaðaúrklippu. Oft fórust fleiri en tíu sjómenn á ári og árið 1986 fórust til dæmis 23. Við sem erum komin yfir miðjan aldur munum forsíður blaða um vetrarvertíð þegar passamyndir birtust af heilu áhöfnunum sem höfðu farist. Það er í raun ótrúlegt að lifa þessa breytingu hjá þjóð sem á jafn mikið undir sjósókn.
Slysavarnaskóli sjómanna settur á laggirnar
Slysavarnaskóli sjómanna var settur á laggirnar árið 1985 og hefur þar verið unnið mikið starf að öryggis- og fræðslumálum. Ný ákvæði í siglingalögum um rannsóknir sjóslysa tóku gildi 1986 og 2001 voru sett ný lög og reglugerð í kjölfarið um málaflokkinn. Í áðurnefndri grein í Morgunblaðinu fyrir stuttu var sagt frá því að það sem af er ári hafa alls 134 atvik, stór og smá, verið skráð hjá sjóslysasviði Rannsóknanefndar samgönguslysa. Alls urðu þau 104 í fyrra, en meðaltal mála á tímabilinu frá 2006 til 2015 er 152 á ári. Reyndar var eitt banaslys skráð hjá nefndinni, en það var þegar kajakræðari fórst í ósum Þjórsár í lok apríl. Lögregla hefur hins vegar farið með rannsókn þess máls.farist
Er jólahátíðin gengur í garð dregur úr sjósókn og mörg skip eru bundin við bryggju fram yfir áramót. Skipulag kvótakerfisins hefur auðveldað að stýra sjósókn og það ásamt bættum skipum og betri Það á þó ekki við um öll skip og sókn minni dagróðrarbáta stjórnast ekki síst af veðurfari. Við vonum það besta um leið og sjómönnum landsins er send ósk um farsælt nýtt ár án sjóslysa.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.