Ein af forvitnilegri bókum síðustu bókavertíðar var bók Kristínar Jóhannsdóttur, Ekki gleyma mér. Kristín hélt til náms austur fyrir járntjald 1987, tveimur árum áður en múrinn féll. Hún kallar sögu sína minningasögu en í bókinni rifjar hún upp þann tíma sem hún bjó í Austur-Þýskalandi eða Þýska alþýðulýðveldinu eins og heimamenn kölluðu það. Ástarsamband hennar við austur-þýskan blaðamann er í forgrunni en forvitnilegt er að lesa lýsingar hennar á hinu sósíalíska samfélagi sem rekið var í Austur-Þýskalandi. Allt lýtur lögmálum sósíalismans. Þegar Kristín skráir sig í háskólann í Leipzig verður hún þess áskynja að gert er ráð fyrir að háskólanemendur eyði fyrstu tveimur árum námsins í að temja sér fræði þeirra Marx og Lenín. Það er talin nauðsynlegur undirbúningur að frekara námi, svona eins og ýkt útgáfa af forspjallsvísindum sem námsmenn á vesturlöndum þekkja. Kristín rifjar upp að það hafi verið Lenín sem lagði grunn að eftirlitsþjóðfélagi sósíalismans en honum er eignuð eftirfarandi speki: „Traust er ágætt, en eftirlit betra.”
Stasi skuggi yfir öllu
Það var ekki þannig að hver sem var fengi að stunda háskólanám í Austur-Þýskalandi eins og var rakið rækilega í áhrifamikil bók Önnu Funder, Stasiland, sem bókafélagið Ugla gaf út 2012. Stasiland afhjúpaði rækilega grimm örlög þeirra sem komust upp á kannt við kerfið en leyniþjónustan Stasi var öflugasta og njósna- og gagnnjósnastofnun heims. Ekki endilega vegna þess hve skilvirk hún var heldur tryggði umfang Stasi stofnuninni ótrúlega yfirsýn yfir það sem gerðist í Austur-Þýskalandi og reyndar í Vestur-Þýskalandi líka. Með tímanum óx Stasi upp í gríðarlegt skrifræðisbákn sem stöðugt bætti á sig verkefnum. Stasi sá þannig landsfeðrunum fyrir lífvörðum og hafði húsbóndavald á flokksskrifstofunum. Stasi réði meira og minna öllu landamæraeftirliti og vegabréfaskoðun og fylgdist nákvæmlega með öllum flutningum á fólki og vörum inn og út úr Austur-Þýskalandi. Stasi stundaði víðtæk vopnaviðskipti og seldi tækni og þekkingu þar sem hagsmunir flokksræðisins kölluðu á. Stasi átti meira að segja sigursælasta íþróttafélag landsins, FC Dynamo Berlín, sem varð austur-þýskur meistari oftast allra. Þar sem annar staðar var lyfjanotkun grundvöllur íþróttaafreka í alþýðulýðveldinu og skipti heilsa og velferð íþróttamanna engu. Af því eru átakanlegar sögur.
Undirróðursstarfsemi í Vestur-Þýskalandi var stór þáttur í starfsemi Stasi og fengu til að mynda liðsmenn Rauðu herdeildarinnar (RAF) þjálfun, vopn og stuðning hjá Stasi. Tengslin við RAF hafa ekki verið fullrannsökuð en síðustu handtökur á hendur liðsmönnum RAF voru framkvæmdar í austurhluta Þýskalands í júní 1990. Þá voru 10 liðsmenn samtakanna handteknir en þeir höfðu á sínum tíma flúið til Austur-Þýskalands. Margt bendir til þess að samstarf Stasi og RAF hafi verið umtalsvert og er hugsanlegt að starfsmenn Stasi hafi komið sjálfir að aðgerðum sem talið var að RAF hafi framkvæmt í Vestur-Þýskalandi.
Bók Kristínar bætir rækilega við þessa sögu. „Tortryggni Stasí voru engin takmörk sett, kerfið var svo margslungið að njósnarar njósnuðu um njósnara, sem aftur njósnuðu um þá njósnara. Fólk var hvorki öruggt í hópi bestu vina sinna né í eigin fjölskyldu.” (bls. 15)
„Þetta land er eins og fangelsi”
Einn daginn ákvað Kristín að hringja til Vestur-Þýskalands þar sem bróðir hennar bjó. Til þess þurfti hún að fara á símstöðina, fara í biðröð, panta símtal og bíða eftir því að röðin kæmi að henni. Stór hluti dagsins fór í þetta en á símstöðinni átti hún athyglisvert samtal við austur-þýska konu sem sagði í frásögn Kristínar:
„Þetta land er eins og fangelsi. Þú heldur þó varla að hér sé ekki til nóg af símalínum? Þegar hér eru kaupstefnur og allt fullt af gestum frá Vestur-Þýskalandi og víðar, þá er allt í einu nóg af símalínum, við Austur-Þjóðverjarnir getum þá hringt til ættingjanna fyrir vestan og biðin er aldrei meiri en fimmtán til tuttugu mínútur. Ástæðan fyrir því að við erum annars látin bíða svona lengi er sú að það er ekki nóg af hundrað prósent tryggu Stasifólki til að hlera símtölin. Hér eru öll símtöl hleruð. Alveg sama hvort það er hér á símstöðinni eða heimasíminn. Ef þú eða sá sem þú ert að tala við segir eitthvað sem stjórnvöldum líkar ekki, þá er símtalinu tafarlaust slitið og næst þegar þú reynir að fá samband við sama númer, þá er ekki ósennilegt að það náist ekki í númerið.” (Bls.158)
Uppgjör Íslendinga við Stasi
Svavar Gestsson, síðar ráðherra, dvaldist 20 árum á undan Kristínu í Austur-Þýskalandi, nokkrum árum eftir að múrinn reis. Svavar var við nám í Berlín í sósíalískum fræðum studdur af meðmælum Einars Olgeirssonar. Á þeim tíma voru 11 Íslendingar við nám í Austur-Þýskalandi. Svavar fjallaði alla jafnan ekki mikið um ár sín þar en í ævisögu sinni, Hreint út sagt, lýsir Svavar sinni upplifun af þessu gósenlandi sósíalismans:
„Enginn í okkar hópi var ánægður með austurþýska kerfið og enginn tók málstað þess. Við reyndum samt að skilja Þýska alþýðulýðveldið og þróun þess og ræddum þau mál ítarlega á fundum okkar. Þar var margt sem okkur leist vel á: ókeypis heilbrigðisþjónusta, ókeypis skólaganga, námslaun. Kúgunartækin gegn einstaklingum sáust ekki auðveldlega á yfirborðinu.” (bls. 115).
Þessi frásögn Svavars kemur ekki heim og saman við upplifun Kristínar. Þó að bók hennar sé öðrum þræði ástarsaga þá er skuggi Stasi yfir öllu mannlífi og eitrar það. Líklega svo, að Kristín og ástmaður hennar ná ekki saman. Kristín lendir sjálf í eftirlitinu, hún þarf að gera grein fyrir öllum sínum ferðum, fær eftirlitskonu yfir sig og herbergi hennar rannsakað. Hún lærir fljótt að allir eru undir grun um að njósna fyrir Stasi og hún lýsir ágætlega hvernig þetta ástand snertir líf fólks.
Það er staðreynd að Stasi njósnaði um alla Vesturlandabúa sem komu til þýska alþýðulýðveldisins og Íslendingar voru þar ekki undanskildir. Eftir fall alþýðulýðveldisins og niðurrif múrsins var ráðist í að reyna að upplýsa allt það gagnamagn sem til var í fórum Stasi. Vinstri menn hér á landi hafa kerfisbundið reynt að gera lítið úr tengslum sínum við Stasi og áhrifum leyniþjónustunnar í þeirra hópi. Í ævisögu sinni lýsir Svavar því hvernig dr. Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur afhendir honum gögn Stasi um hann sjálfan. Það virðist hafa verið vinagreiði hjá sagnfræðingnum og fylgdi sögunni að ekkert alvarlegt hefði fundist í gögnunum. Dr. Þór Whitehead hefur upplýst að Stasi hafi ekki orðið ágengt í því að ráða sér íslenska erindreka til starfa á Íslandi, hvorki á meðal íslenskra námsmanna né annarra. Það hafa þó verið í gangi frásagnir um að austur-þýskur maki íslensks námsmanns hafi stundað njósnir fyrir Stasi. Það eyðilagði hjónabandið en áhrif slíkrar innrásar njósnadeildarinnar í einkalíf fólks skýrist ágætlega af lestri bókar Kristínar. Kristín sjálf sótti um að fá gögn Stasi um sig en kaus að henda þeim ólesnum þegar þau loksins bárust.
Frumkvæði drepið í alræðinu
Kristín lýsir einnig ágætlega framtaksleysi og skort á þjónustu í alþýðulýðveldinu þar sem ríkið átti allt. Þó að fólk kæmi að veitingastað með nógu af lausum borðum þýddi það ekki endilega að svangir gestir fengju borð. Starfsfólki veitingastaðanna virtist algerlega standa á sama hvernig þeir voru reknir og þjónustulundin lítil sem engin.
Í alþýðulýðveldinu var skortur á öllu, bæði neytendavörum og húsnæði. Dollarabúðir voru hins vegar til staðar fullar af vestrænu góssi en aðeins fyrir forréttindafólk í þessu jafnaðarlandi. Kristín lýsir ágætlega hvernig var að versla þar. Sími í heimahúsi var aðeins á færi fárra og húsnæðisskorturinn gríðarlegur. Um það segir Kristín: „Í þessu landi, þar sem ríkið átti yfir 90% af húsnæðismarkaðinum, var miðstýrt kerfi sem útdeildi leiguíbúðunum. Menn urðu að reikna með að það gæti tekið nokkur ár að fá leiguíbúð. Gift fólk með börn hafði forgang. Rolf og Sabína ætluðu að gifta sig fljótlega til að auka líkurnar á því að fá íbúð. „Hér giftir fólk sig allt að fjórum til fimm sinnum um ævina til þess að geta fengið íbúð,” sagði Rolf hlægjandi." (bls. 117).
Bók Kristínar er þannig sérlega áhugaverð fyrir þá sem vilja kynnast því hvernig alræðisvald eins og það sem ríkti í Austur-Þýskalandi getur leikið venjulegt fólk. Miðað við grimmdaræði kommúnista víða annars staðar þá eru tölurnar til þess að gera hófstilltar í Austur-Þýskalandi. Það breytti því ekki að sósíalisminn þar svipti landsmenn mennskunni og bjó til þjóðfélag sem við vonumst til að sjá ekki aftur.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.