Óhætt er að segja að flestir þeir sem nota netið að einhverju marki noti Google eða Facebook. Stærð þeirra er yfirþyrmandi og nú er vaxandi þrýstingur á að þau og aðra samfélagsmiðla um að koma í veg fyrir að þeir séu notaður til að dreifa villandi upplýsingum. Um leið hafa höfundarréttaramál brotist fram en það er ekkert leyndarmál að fjölmiðlaheimurinn telur sig fara mjög halloka þar sem eru þessi stórfyrirtæki sem nánast ryksuga upp allar tekjur á netinu. Facebook hefur brugðist við með því að segjast ætla að gefa þeim miðlum sem það teldi trúverðuga aukið vægi og hærri forgang umfram aðra miðla. Hlutfall fjölmiðlaefnis á Facebook er komið upp í 5% en Facebook stefnir að því að minnka það niður í 4%.
Murdoch búinn að fá nóg
Það telja fjölmiðlar ekki nóg. Fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch segist vera þeirrar skoðunar að Facebook ætti að greiða útgefendum fyrir að deila efni sínu á samfélagsmiðlinum ef fyrirtækið ætli sér raunverulega að styðja við trúverðugan fréttaflutning. Murdoch segir að boðaðar aðgerðir Facebook séu ófullnægjandi og að samfélagsmiðlar ættu að greiða útgefendum fyrir efnið á sama hátt og sjónvarpsstöðvar greiða fyrir efnið sem þær sýna. „Útgefendur eru augljóslega að auka virði og trúverðugleika Facebook með fréttum sínum og efni en eru ekki að fá nægjanlega umbun fyrir þá þjónustu. Greiðslur fyrir afnotarétt af efninu myndu hafa minni háttar áhrif á hagnað Facebook, en mikil áhrif á stöðu útgefenda og blaðamanna,“ sagði Murdoch í samtali við BBC. Hann hefur einnig látið hafa eftir sér í harðorðri yfirlýsingu að með því að nota efni fjölmiðla sé Facebokk í reynd að hundsa kostnaðinn við framleiðslu áreiðanlegs efnis og spilla faglegri stöðu blaðamennskunnar.
Ryksuga upp auglýsingamarkaðinn
Af þessu má vera ljóst að það verður stöðugt harðari gagnrýni á gengdarlausa notkun þessara netrisa á fjölmiðlaefni og gögnum án endurgjalds. Endurvarp þess má sjá í skýrslu þeirri sem nefnd sú er ætlað var að skoða rekstrarskilyrði fjölmiðla hér á landi skilaði af sér í dag. Talið er að Google og Facebook taki um 55% af öllum auglýsingatekjum á netinu í Bretlandi árið 2018 og árið 2020 verði hlutfallið 70%.
Hér heima hafa komið upplýsingar um að 48 prósent af allri umferð sem kemur inn á Vísi.is, næstvinsælustu netsíðu landsins, komi frá Facebook. Rúmlega 60 prósent af allri umferð Kjarnans kemur frá Facebook. Hjá útgáfufélaginu Blæ komu allt að 80-90 prósent af öllum sem heimsóttu fjölmiðilinn í gegnum Facebook.
Sama ástand er erlendis. Hlutur erlendra vefmiðla á dönskum auglýsingamarkaði hefur farið ört stækkandi á síðustu árum. Vefmiðlar, innlendir og erlendir, höfðu alls 50,2% markaðshlutdeild í Danmörku árið 2016 og þar af rann 56,5% af því fé sem varið var til auglýsinga á netinu til erlendra fyrirtækja. Fremst í flokki þeirra voru Facebook, Google og LinkedIn.
Þetta er mikil breyting en til samanburðar runnu einungis 19% þess fjár sem dönsk fyrirtæki notuðu til auglýsinga á netinu til erlendra fyrirtækja árið 2007. Þetta og fleira kemur fram í ársskýrslu danska fjölmiðlaeftirlitsins, Slots- og Kulturstyrelsen, frá 2017.
Aukin krafa á ESB
Fjölmiðlamarkaðir um allan heim hafa opnast fyrir samkeppni frá erlendum aðilum með tilkomu samfélagsmiðla og nýrra leiða til að sækja sér efni og upplýsingar á netinu. Erlendis verja fyrirtæki auglýsingafé sínu í auknum mæli í auglýsingar á samfélagsmiðlum og leitarsíðum á netinu. Aukin krafa á ESB að setja þessari notkun ramma með löggjöf sem taki til höfundarréttar og notkunar á efni fjölmiðla.
Það er markaðsbrestur til staðar fyrir íslenska fjölmiðla. Hann felst í því að í dag fer stór hluti af notkun á efni þeirra fram í gegnum samfélagsmiðla. Nær allir landsmenn eru á Facebook og fjölmiðlanotkun þeirra stýrist að stórum hluta af því sem Facebook-straumurinn sýnir þeim. Facebook hefur því, vægt til orða tekið, umbylt umhverfi fjölmiðla og því hvernig notendur þeirra nálgast efnið sem þeir vilja lesa. Þetta þarf að skoða í samhengi við lögmál um samkeppni og lýðræðislega umræðu.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.