Það vefst fyrir mörgum en skógrækt, almenn landgræðsla og bleyting á framræstu landi eru sársaukalitlar aðgerðir í loftslagsmálum og til þess að gera ódýrar. Þá er líklegt að þær séu fljótvirkustu leiðirnar til að koma í veg fyrir að Ísland þurfi að kaupa heimildir til að standa við sinn hluta Kyoto- skuldbindingarinnar.
Það hefur margoft komið fram hjá ráðamönnum í landbúnaði að skynsamlegra sé fyrir Íslendinga að byrja strax að veita fjármunum til mótvægisaðgerða eins og skógræktar hér innanlands, fremur en að greiða þá fjármuni síðar í refsiskatta til útlanda. Þeir fjármunir myndu um leið virka til virðisaukningar landsgæða og íslensks landbúnaðar um leið. Það myndi síðan væntanlega nýtast inn í framtíðina til að landið sé betur í stakk búið til að standast frekari skuldbindingar fram til 2030.
Þessar aðgerðir henta líka best þegar miðað við aðgerðir sem snerta neyslu fólks og venjur. Langan tíma tekur að breyta hegðun almennings og pólitískt ómögulegt er að draga úr neyslu. Þetta sagði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni föstudaginn 9. febrúar í framhaldi af viðtali við hann í Bændablaðinu þar sem Þröstur gagnrýndi loftslagsumræðuna og aðgerðarleysi í loftslagsmálum. Hægt er að taka undir þá gagnrýni og það hefur verið gert áður á þessum vettvangi.
Skógrækt hluti af lausninni
Skógrækt getur þannig augljóslega verið hluti af lausninni á loftslagsvandanum. Vernda þarf þá skóga sem fyrir eru í heiminum og jafnframt rækta nýja skóga. Þetta hvort tveggja sé auðvelt að gera, bæði úti í heimi og hér á Íslandi. Íslendingar geti auðveldlega ræktað meiri skóg enda sé hér nægt landrými. Þjóðin er rík og hefur vel efni á þessu. Auk kolefnisbindingarinnar skila skógarnir líka hreinum arði í framtíðinni. Jafnframt sé vert að efla landgræðslu og fylla í skurði á framræstu landi. Þá er ástæða til að nefna að skógrækt í þéttbýli getur nýst til að skapa skjól og draga úr svifryksmengun. Við sjáum að lífsgæði hafa batnað verulega þar sem trjágróður hefur vaxið upp og veitt skjól. Því miður eru merki þess að skógrækt sé ónóg hér á höfuðborgarsvæðinu.
Víða um heim sjáum við vilja til að efla skógrækt og tvinna því saman við stefnumótun í loftslagsmálum. Þannig var sagt frá því fyrir skömmu að ný ríkisstjórn Nýja-Sjálands vill gera samfélagið grænna með því að gróðursettar verði á hverju ári 100 milljónir trjáplantna í landinu. Þannig megi tryggja næga sjálfbæra orku fyrir raforkukerfi landsins. Lönd eins og Kína og Indland hafa aukið skógrækt mikið og hafa gríðarleg áform á því sviði. Stórfyrirtæki eins og IKEA íhuga einnig að koma að skógrækt. Ljóst er að fleiri og fleiri sjá tækifæri í því og mikilvægt að íslensk stjórnvöld fylgi því eftir.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.