c

Pistlar:

27. febrúar 2018 kl. 14:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýr miðbær á Selfossi

Skipulagsmál hafa verið í brennidepli höfuðborgarbúa undanfarið og líklegt að þau verði talsvert í umræðu í aðdraganda kosninga. Þéttingastefna núverandi meirihluta setur aukið álag á grónar byggðir og margir sjá fram á að ný hús leysi gamalt útsýni af hólmi. En það er ekki bara í höfuðborginni sem skipulagsmál eru í brennidepli. Aukin ferðamannastraumur kallar á nýja tegund af þjónustu og hefur ýtt á eftir mörgum sveitarfélögum að huga betur að skipulagsmálum og þá um leið miðbæ sínum. Við þekkjum það af ferðum okkar erlendis að við drögumst að miðbæjum og þar viljum við dvelja og draga í okkur menningu og mannlíf. Sumir þessir miðbæir erlendis eru gamlir í grunninn en hafa verið endurreistir með reglulegu millibili, oft með viðbótum sem taka mið af eldri stíl.selfoss

Margir bæir njóta þess að eiga gamlan kjarna sem hægt er að vinna útfrá. Þetta höfum við séð á Siglufirði, Ísafirði, Seyðisfirði og í Stykkishólmi, svo fáeinir staðir séu nefndir. Aðrir bæir verða að byrja á öðrum stað, saga þeirra kann að vera styttri eða að það hefur ekki verið hugað nóg að styrkingu miðbæjar í gegnum tíðina. Egilsstaðabær hefur ákveðið að endurskoða skipulag sitt með tilliti til þess að auka mannlíf í bænum. Selfossbær stendur hins vegar frammi fyrir athyglisverðum valkosti með mikið af óbyggðu svæði í miðbænum. Þar voru hugmyndir til skamms tíma að reisa háhýsi. Sem betur fer varð ekki af því. Nú eru uppi áform um að reisa þar þyrpingu húsa sem draga dám af gömlum tíma, sum hver með skýrar fyrirmyndir í tilteknum húsum frá fyrri tíð.

Skipulagt sem heild

Þetta er vandasöm leið og getur falið í sér tilgerð og skapað eitthvað sem flestir upplifa sem óekta, einhverskonar „kitsch”. Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir benda hins vegar til þess að þarna verði vandað til verka. Mestu skiptir að nýi miðbærinn á Selfossi verði skipulagður sem heild og skipulagið miði að því að draga mannlíf og lifandi starfsemi inn í bæinn. Þannig verður blandað saman atvinnustarfsemi, afþreyingu, menningu og íbúðum. Með því að bjóða upp á íbúðir á efri hæðum skapast meiri nálægð við heimamenn. Þegar mun vera samið við að minnsta kosti eitt hótel en slík starfsemi eykur mannlíf.

Eins og áður sagði er þetta ekki vandalaust og verst ef ekki skapast sátt um þetta í nærumhverfinu. Þar skiptir miklu að verkefnið sé kynnt vel sem sýnist vera raunin. Yfirvöld hafa nú samþykkt nýtt skipulag sem gefur grænt ljós á framkvæmdir sem í heildina taka til um 16.000 fermetra. Mikilvægt er að verkið vinnist vel og hratt því það er heildin sem skiptir máli.

Selfoss er á tímamótum. Fyrirsjáanlegt er að þjóðvegur eitt verði leiddur framhjá bænum en flestir vona að ný brú yfir Ölfusá verði reist sem fyrst. Gamla brúin þolir illa núverandi umferð og það er bænum ekki til framdráttar að þungaumferð fari í gegnum hann. Um leið og bæjarbúar verða að læra að lifa án þessarar umferðar skapast ný tækifæri. Nýr miðbær í þeim stíl sem nú er ætlunin að byggja gæti orðið lykilatriði í því að skapa mannlíf og draga að ferðamenn.

 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.