c

Pistlar:

26. mars 2018 kl. 12:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heimabankinn fallinn í Siena

Það er ekki búið að mynda nýja ríkisstjórn á Ítalíu og heimamenn hér í Siena eru ekki á eitt sáttir um hve hratt muni ganga að mynda nýja stjórn. Kosningarnar fyrir stuttu skiluðu engri afgerandi niðurstöðu en drógu ólíkindatólið Silvio Berlusconi inn á sviðið á nýjan leik. Með hrafnsvart hár, slétta vanga og hrukkulaust enni er ekki annað að sjá en að þessi 80 öldungur sé enn til alls vís. Hér eins og annars staðar eru það efnahagsmálin sem öllu skipta. - Og reyndar líka skefjalaust innflæði flóttamanna. Í Siena er reyndar ekki mikið að sjá af flóttamönnum en heimabankinn er hins vegar fallinn.

Það er mikil saga hér að baki. Banca Monte dei Paschi di Siena S.p.A. (BMPS) rekur upphaf sitt allt aftur til ársins 1472, eða fyrir 546 árum síðan. Bankinn var hins vegar settur á fót í núverandi formi árið 1624. Hann er því talin vera elsti starfandi banki heims en til hans var stofnað af yfirvöldum í Siena og var bankinn að stórum hluta í eigu heimamanna lengi vel. Bankinn er stærsti atvinnurekandi í Siena og reyndar eina stórfyrirtækið hér. Því er ljóst að borgarbúar eiga mikið undir að hann starfi áfram. Hætt er við að vel klæddum bankamönnum muni fækka hér á götunum ef breytingar verða þar á.

Bankinn var í eina tíð stolt Siena-búa og reyndar þeirra helsta gullnáma. En nú er ljóst að hann hefur búið við mikla óstjórn lengi og heimamenn gagnrýndir fyrir að hafa gengið ótæpilega í sjóði hans, svo mjög að þeir hafi nánast notað hann sem persónulegan hraðbanka þegar vantaði fjármagn. Ungur kennari og sagnfræðingur sem ég átti spjall við hér í Siena, Guido Elia, sagði að vinstri menn undir stjórn Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hefðu ýtt undir að bankinn lánaði allt of mikið.bankisiena2

Samfélagsleg gildi

Árið 1995 var Monte dei Paschi di Siena breytt yfir í hlutafélag sem heitir Banca Monte dei Paschi di Siena (Banca MPS). Um leið var settur upp sjóður The Fondazione Monte dei Paschi di Siena (MPS) sem átti að halda utan um samfélagsleg gildi bankans en ágóði hans átti að nýtast samfélaginu í Siena. Sjóðurinn var stærsti einstaki hluthafi bankans með þriðjungs eignarhlut þar til ríkissjóðir tók hann yfir árið 2013. Í dag er Banca MPS með um 2 þúsund útibú, 22 þúsund starfsmenn og 5,1 milljón viðskiptavina. Hann er fjórði stærsti viðskiptabanki Ítalíu með yfir 2000 útibú á Ítalíu og 41 erlendis. Dótturfélag bankans MPS Capital Services hefur haft með höndum fjárfestingabankastarfsemi og þjónustað atvinnulífið.

Allt síðan fjármálakreppan dundi yfir árið 2008 hefur BMPS orðið að fá umfangsmikla aðstoð frá ítalska ríkinu. Strax árið 2012 fékk hann aðstoð að upp­hæð 2 millj­arðar evra til að bjarga eig­in­fjár­hlut­fallinu yfir 9% lág­mark evr­ópska seðlabankans. Auk þess framlengdi í­talska ríkið lán sem það hafði veitt bank­an­um árið 2009 og nám því heild­ar­upp­hæð aðstoðar­inn­ar sam­tals 3,9 milljörðum evra þá þegar. BMPS hafði á þeim tíma mistekist að ná inn fjár­festum en þá lék allt á reiðiskjálfi í suðurevr­ópska bankakerfinu sem endaði með hörmungum í Grikklandi og á Kýpur. Allt síðan þá hafa menn óttast að ítölsku bankarnir yrðu næstu fórnarlömb fjármálakreppunnar.

Neðstur í álagsprófi

Árið 2016 hafði bankinn þannig tvisvar þurft að fá aðstoð frá ítalska ríkinu en engu að síður var hann engan veginn að standast kröfur til rekstrarins. Við álagspróf evrópska seðlabankans (ECB) kom í ljós að hann var neðstur þeirra banka sem mældir voru. Vandræðaleg staða og örlítill hagnaður ársins 2015 breytti ekki þeirri staðreynd að bankinn hafði verið rekin með tapi fimm ár þar á undan. Matteo Renzi er ættaður héðan úr Toskana og hefur lagt mikla áherslu á að bjarga smærri hluthöfum bankans en margar fjölskyldur í Toskana eiga mikið undir í rekstri og eignarhaldi bankans. Afkoman árið 2016 var skelfileg, þriggja milljarða og þrjú hundruð þrjátíu og átta milljóna evra tap. Þetta var mun verri afkoma en sérfræðingar höfðu spáð. Enn á ný urðu menn að snúa sér til ítalska ríkisins. BMPS þurfti sem svaraði 5 milljörðum evra til að laga eiginfjárstöðuna en það sem lék hann verst var að vond lán (e. non-performing loans) bankans voru talin nema 27 milljörðum evra. Vond lán eru einmitt það sem enn er að hrella ítalska bankaheiminn og hanga eins og fallexi yfir honum.

MPS sjóðurinn varð til þegar bankinn var skráður árið 1995 og hefur verið nánast eins og samfélagssjóður Siena og að jafnaði getað látið renna sem svarar 150 milljónum evra á ári til samfélagsins, mest 233 milljónir evra árið 2008. Ári eftir kaup BMPS á Antonveneta héraðsbankanum sem reyndust mikil mistök. Kaupverðið nam 9 milljörðum evra og engin skilur hvernig það var reiknað. Framlög MPS sjóðsins byggjast á arðgreiðslum frá bankanum. MPS sjóðurinn fjármagnar þannig margt sem tengist daglegu lífi hér í héraðinu og skiptir gríðarmiklu. Í dag á sjóðurinn rétt innan við 2% í bankanum og umsvif hans hafa dregist gríðarlega saman. En í kringum bankann og sjóðinn hefur verið margskonar spilling sem meðal annars hefur gert Siena-búa að ríkustu íbúum landsins. Það er því eðlilegt að tregða sé við að halda uppi lifistandard þeirra meðal annarra íbúa Ítalíu.bankisiena

Rannsóknir á rannsóknir ofan

Rannsókn á starfsemi bankans hófst í mars 2013 en þá voru meint svik og fjárdrættir í bankanum talin nema hundruðum milljónum evra. Í framhaldinu var leitað á heimilum og skrifstofum fjölmargra starfsmanna bankans. David Rossi einn af stjórnendum hans kastaði sér út um glugga í höfuðstöðvunum og lést samstundis en áður hafði verið leitað á heimili hans. Fjölskylda Rossi taldi að dauða hans hefði borið að með saknæmum hætti og krafðist rannsóknar sem enn hefur ekkert komið út úr. Rannsóknin stendur enn yfir, húsleitir og ferðabann á marga fyrrverandi starfsmenn bankans. Allt í kringum hefur verið fyrirferðamikið hneyksli innan ítalska stjórnmála- og bankaheimsins. Í byrjun teygði það sig til Marios Draghis, þáverandi seðlabankastjóra Ítalíu en hann er núverandi seðlabankastjóri Evrópu. Draghi stóð einmitt að fyrstu björgunaraðgerðinni í þágu Monte Paschi á árinu 2008.

Deutsche Bank hefur dregist inn í þessar rannsóknir en bankamenn þar munu hafa hjálpað BMPS að leyna tapi sínu með allskonar fjármálagerningum og jafnvel markaðsmisnotkun. Þjóðverjar hafa lengi rekið á eftir Ítölum um að þeir taki á yfirskuldsettu bankakerfi sínu en aðkoma Deutsche Bank hefur flækt málið. Málefni bankans hafa blandast inn í ítölsk stjórnmál eins og gefur að skila og Fimmstjörnu hreyfingin (e. Five Star Movement) skipulagði meðal annars mótmæli fyrir utan höfuðstöðvar hans hér í Siena við litlar vinsældir heimamanna. Ítalska ríkið virðist því sitja enn með málefni hans í höndunum og getur bara vonað að ástandið fari að batna.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.