c

Pistlar:

28. mars 2018 kl. 16:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Toskana - paradís ræktunarmannsins

Hugsanlega kemst Toskana nálægt því að vera paradís ræktunarmannsins. Þeir voru fljótir að sjá það Etrúrarnir (af sumum sagðir Etrúskar) þegar þeir komu hingað fyrir um það bil 3000 árum. Nú er talið líklegt að Etrúrar hafi komið frá Tyrklandi og einnig telja menn sig vita að þeir hafi komið með ýmislegt gagnlegt með sér, svo sem ólífutré og sýprus-tré (e.cypress) sem kennd eru við Kýpur. Etrúrar höfðu verið lengi á ferðinni og dvalist í Grikklandi um tíma en sáu að ræktunarskilyrði voru einstök í Toskana og ákváðu að setjast hér að en væntanleg hafa þeir skoðað skilyrði víða annars staðar.20180327_172626

Þegar ekið er um sveitir hér verða menn fljótt varir við hve stoltir heimamenn eru af sinni sveit. Vicente, bílstjórinn okkar, var gjörkunnugur sögu og náttúrufari og reyndar verður maður oft bit á því hve sögufróðir heimamenn eru almennt. En Vicente keyrði okkur um dagspart og var förinni heitið fyrst til Monteriggioni. Lítill kastalabær sem lék lykilhlutverki í eilífum átökum milli íbúa Flórens og Siena en þessir bæir eyddu um það bil 300 árum um mitt síðasta árþúsundið til að rífast um völdin hér í Toskana. Monteriggioni er upp á lítilli hæð en herfræðilega mikilvægri. Þannig gátu þeir truflað og tafið Flórensbúa sem hugðust herja á Siena. Átökunum lyktaði með sigri Flórens og Medici-ættin tók í framhaldinu yfir Siena. Medici-furstarnir reyndust ekki svo slæmir yfirmenn og Siena hélt áfram að blómstra. Í Monteriggioni búa um 50 manns og er bærinn auðvitað á heimsminjaskrá og reyndar einstaklega fallegur og snyrtilegur. Hann er staddur á miðri Via Francigena gönguleiðinni sem er nú vinsæl af pílagrímum en var áður ein helsta samgönguleið á milli norðurs og suðurs og stuðlaði að auðsæld Siena.

Land vínviðar og ólífutrjáa

En gróðurfar er einstakt í Toskana og hér rækta menn helst vínvið, ólífutré og svo hveiti. Við heimreiðarnar eru síðan sýprus-tré til einstakrar prýði. Segja má að hver einasti reitur sé í ræktun og við heimsóttum tvo vínbúgarða í ferð okkar. Þetta eru vel skipulagðar ferðir þar sem gestir fá kynningu á ræktun og vinnslu og svo vínsmakk undir leiðsög sérfróðra manna. Hér fá gestir líka að smakka ólífuolíu og balsamikedik. Heimamenn eru ekki síður stoltir af þeirri framleiðslu og verðið á þeim veigum er á pari við dýrustu vínin.

Il Chanti héraðið státar af samnefndum vínum sem eru framleidd með ströngum skilyrðum. Til að geta verið stimplað sem Chanti vín þarf vínið að vera að uppistöðu með 85% úr Sangiovese-þrúgunni. Hér eru ströng skilyrði um allar merkingar og Ítalir leggja mikið upp úr gæðum, fremur en magni. Mikil breyting varð á þessu í ítölskum víniðnaði fyrir nokkrum áratugum en áður hafi hann fremur snúist um magn. Sangiovese-þrúguna er að finna í Umbríu líka en Toskana er hennar aðalsvæði.

Fattoria Lornano vínbúið skammt frá Monteriggioni framleiðir átta mismunandi víntegundir en árgangsframleiðslan (reserva) fer að sjálfsögðu eftir því hvað uppskeran bíður uppá. Einnig er framleidd ólífuolía og balsamikedik. Búið framleiðir um 250 þúsund flöskur á ári af víni og vinna 11 manns að jafnaði þar. Þegar uppskerutíminn er í gangi fer starfsmannafjöldinn upp í 20. Aðspurðir tóku þeir fram að ekki væri notast við farandverkamenn. Ekki var annað að sjá en að þessi framleiðslueining stæði ágætlega en reksturinn náði tvær aldir aftur í tímann þannig að líklega er fyrir löngu búið að afskrifa stofnkostnað.

Búgarðurinn Poggio Amorelli var minni í sniðum - um 22 ekrur - en þar eru framleiddar um 130 þúsund flöskur á ári auk ólífuolíu og balsamikedik. Einnig framleiða þeir eðalgott Grappa (Grappa Di Vinacce Reserva - kostar 45 evrur).  Sömuleiðis voru þeir með trufflu-ólíu en trufflurnar eru grafnar úr jörðu með aðstoð hunda og eru sérlega verðmætar.

Í sátt við umhverfið

Það þarf ekki að taka fram að vínin eru frábær en ekki þykir manni síður mikið til  framleiðsluaðferðanna koma og ekki síst þá sátt sem bændur og framleiðendur ná við umhverfi sitt. Í Toskana eru menn að mestu að neyta heimaunninna vara. Héraðið er slík matarkista að nóg er af öllu og meira að segja villt dýr í skógum en þangað sækja menn gjarnan villigelti sem vinsælir eru á matseðlinum. Strangar reglur eru um alla nýtingu lands og nýjar byggingar eða mannvirki varla leyfð. Þetta fyrirkomulag virðist styðja við litlar fjölskyldueiningar sem byggt hafa upp sín eigin vörumerki og taka bændur gæði þeirra alvarlega.20180324_163312

Toskana er 23 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða tæplega fjórðungur af Íslandi. Hér búa um 3,8 milljónir manna. Tekjur eru vel yfir meðaltali á Ítalíu og hér virðist ríkja almenn hagsæld.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.