Það vakti kannski ekki athygli margra, ja, nema kannski fyrir utan þá sem starfa í viðskiptalífinu, þegar greint var frá því í síðustu viku að Vísir hf. hefði hlotið Íslensku þekkingarverðlaunin í ár. Ásamt Vísi voru Arion banki, HB Grandi og Skaginn 3x tilnefnd til þessara þekkingarverðlauna sem Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga sér um að deila út. Öll þessi fyrirtæki nema Arion banki er með skýr tengsl við sjávarútveginn. Er til betri staðfesting á því að íslenskur sjávarútvegur er þungamiðja íslensks þekkingariðnaðar? Þetta er í 18. sinn sem félagið stendur fyrir þessum verðlaunum en sá er þetta skrifar starfaði nokkur ár í verðlaunanefndinni. Það var markmið hjá mér að koma sjávarútveginum að við valið og ánægjulegt að sjá að hann er nú talin fullgildur meðlimur.
Hvað er verið að verðlauna? Við val á þekkingarfyrirtæki ársins er horft til þeirra fyrirtækja sem eru leiðandi í stafrænum lausnum og hafa með nýsköpun í tækni bætt rekstrarumhverfi fyrirtækisins. Leitað var eftir fyrirtækjum sem hafa með aukinni sjálfvirkni bætt þjónustu, afköst, nýtingu og/​eða framleiðni. Einnig var mikilvægt að fyrirtækin störfuðu í sátt við samfélagið og væru með ríka umhverfisvitund. Það er því margt sem þarf að uppfylla og árangur Vísis þess ánægjulegri.
Aukið framleiðni og skilvirkni
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Vísir hafi náð eftirtektarverðum árangri í rekstri sínum og aukið framleiðni og skilvirkni með innleiðingu og þróun stafrænna lausna. Vísir hafi með innleiðingu stafrænna lausna náð hagræðingu í rekstri með virkri stýringu flotans og með nýtingarauka og hærra hlutfalli í betur borgandi afurðir. Tæknin opni þann möguleika að Vísir klári framleiðsluferlið beint í neytendapakkningar sem spara milliflutninga og milliumbúðir og það sé stórt skref í átt að minnkun kolefnisspors sjávarútvegsins. Ekki ónýt röksemd þarna.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á nýsköpun og rannsóknir. „Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóðar, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga.“ Fjárfestingar í nýsköpun í sjávarútvegi og haftengdum greinum sem oft kallast sjávarklasi geta aukið verðmætasköpun mikið sé horft til framtíðar. Þarna er margt undir: Netagerð, veiðitækni og veiðarfæragerð eru án efa hugvit og hönnun. Þurrkun þorskhausa sömuleiðis en hún byggir á eðlis-, efnafræði og verkfræði. Á þetta benti Albert Þór Jónsson hagfræðingur í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku en ástæða er til að vekja athygli á henni.
Framúrskarandi árangur sjávarútvegsfyrirtækja
Íslenskur sjávarútvegur og haftengd starfsemi hafa náð framúrskarandi árangri og vaxið mikið á undanförnum árum. Margar af helstu náttúruauðlindum og framtíðarverðmætum Íslands sem tengjast sjávarútvegi og endurnýjanlegri orku eru á landsbyggðinni. Albert telur að nauðsynlegt sé að leggja meiri áherslu á námsbrautir sem tengjast sjávarútvegi og haftengdri starfsemi og verður tekið undir það hér. Nefnir hann til greinar eins og fiskihagfræði, matvælaverkfræði, járnsmíði, útgerðartækni, fisktækni og viðskiptafræði sem auka áhuga á sjávarútvegi og haftengdri starfsemi horft til framtíðar. „Með meiri þekkingu er hægt að auka verðmætasköpun verulega í haftengdri nýsköpun,” segir Albert.
Vaxtarfyrirtækin eru á landsbyggðinni
Albert bendir ennfremur á að mörg fremstu fyrirtæki landsins eru á landsbyggðinni, til að mynda: Samherji, HB Grandi, og Kaupfélag Skagfirðinga. Samherji er staðsettur á Akureyri og Skaginn sem er afsprengi framfara í hátækni tengdri fiskvinnslu er staðsettur á Akranesi. Íslenskur sjávarútvegur og endurnýjanleg orka eru tvær af verðmætustu auðlindum Íslands og gera sérstöðu landsins einstaka segir Albert. Framúrskarandi fyrirtæki sem tengjast haftengdri starfsemi eru meðal annars Hampiðjan, Skaginn, Lýsi og Kerasis. Hampiðjan hefur verið í fremstu röð í veiðarfæragerð á heimsvísu og náð framúrskarandi árangri á alþjóðlegum mörkuðum.
Albert segir að það sé mikilvægt að stjórnvöld móti framtíðarsýn fyrir landsbyggðina í þeim málaflokkum þar sem verðmæti auðlinda landsins á eftir að aukast verulega. „Virðing og umgengni við íslenska fjársjóðinn þarf að aukast og öll umræða að verða faglegri. Stefnumörkun og framtíðarsýn þurfa að taka mið af langtímasjónarmiðum. Framsækin stefnumótun í samgöngumálum og menntamálum er eitt af mikilvægustu verkefnum á næstu árum en þannig verður landsbyggðin álitlegur kostur fyrir einstaklinga og fyrirtæki þar sem blómlegt atvinnulíf getur þrifist,” segir Albert.
Mikilvægt er að horfa til þess að mikil verðmæti liggja í innviðum í höfnum um allt land sem mætti nýta betur og stuðla að aukinni nýsköpun með stofnun nýrra fyrirtækja sem tengjast haftengdri framleiðslu.
Framúrskarandi fyrirtæki
Albert beinir sjónum sínum að landsbyggðinni og bendir á að Samherji á Akureyri og Dalvík sé dæmi um framúrskarandi fyrirtæki á heimsmælikvarða sem skapar mörg störf og séu kjölfesta byggðar í Eyjafirði. Kaupfélag Skagfirðinga er með sama hætti hornsteinn í Skagafirði og hefur leitt nýsköpun í mjólkuriðnaði og afurðum unnum úr fiski með betri nýtingu. Genís á Siglufirði er sömuleiðis áhugavert fyrirtæki sem hefur þróað heilsuvörur úr rækjuskel. „Öll framangreind fyrirtæki sem eru á landsbyggðinni eru í eigu aðila sem eru snarpir, með skýra framtíðarsýn og happafengur fyrir viðkomandi byggðarlög,” segir Albert.
Hægt er að taka undir með Alberti að mestu verðmæti framtíðar í sjávarútvegi felast í nýsköpun og að koma ferskri vöru á markað en þannig fæst hámarksverð á hverjum tíma. Ótvírætt er að stjórnendur okkar stærstu fyrirtækja, svo sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hafa leitt fyrirtæki sín í fremstu röð sjávarútvegsfyrirtækja á heimsvísu með skýrri framtíðarsýn, öflugum rekstri og framsýni.
„Mikil tækifæri eru víða á landsbyggðinni í haftengdri nýsköpun. Frumkvöðlar og framtakssamir einstaklingar sem vilja láta að sér kveða hafa tækifæri til að nýta þau fjölmörgu atvinnutækifæri sem eru nú um allt land. Íslenskar náttúruauðlindir eru einstakar enda flestar þeirra á landsbyggðinni. Landsbyggðin er því hinn óslípaði demantur Íslands í atvinnutækifærum sem tengjast haftengdri nýsköpun horft til langs tíma,” segir Albert.
Það er ekki bara á landsbyggðinni sem við njótum krafts og þekkingar í sjávarútvegi. Við höfum mörg slík fyrirtæki hér á höfuðborgarsvæðinu með Marel í broddi fylkingar. Þegar þetta er allt haft í huga sjáum við að mikilvægt er að horfa á sjávarútveginn sem þekkingariðnað, miklu frekar en auðlindagrein, eins og því miður allt of margir freistast til í þágu óljósra pólitískra markmiða.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.