Þessa daganna minnast margir 200 ára ártíðar Karl Marx (5. maí 1818 – 14. mars 1883) sem Wikipedía segir hafa verið gríðarlega áhrifamikill hagfræðingur, heimspekingur og stjórnmálaspekingur. Wikipedía hefur nokkuð til síns máls en Marx er sannarlega maður sem vekur misjöfn hughrif hjá fólki í dag. Eftir að hafa hlýtt á umræður um Marx hjá nokkrum heimspekingum í Háskóla Íslands í gær er ég ekki frá því að heimspekin fari mýkri höndum um Marx en sagnfræðin sem er gjörn á að rifja upp afrek fylgjenda hans. Að ekki sé talað um hagfræðina. Þar á Marx í vök að verjast.
Það er engum blöðum um það að fletta að Marx og kenningar hans hafa reynst gríðarlega áhrifaríkar og leiddu til stærstu þjóðfélagstilrauna sem við fengum að sjá á 20. öldinni. Ekki aðeins í Sovétríkjunum heldur hafa mörg önnur ríki í Austur-Evrópu, Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku neyðst til að kenna okkur þá „hagnýtu lexíu“ um pólitíska harðstjórn og efnahagslegt öngþveiti sem sósíalískt samfélag, einkum í marxískri mynd, hefur boðið mannkyninu upp á eins og prófessor Richard M. Ebeling vakti athygli á í ágætri grein í Þjóðmálum fyrri skömmu. Enn í dag sjáum við marga kenna sig við marxisma og talsvert stór hópur telur sig geta leyst þjóðfélagsleg vandamál nútímans með kenningar hans að leiðarljósi. Að marxismi séu hin einu sönnu vísindi um þjóðfélagsþróunina. Við hin veltum hins vegar fyrir okkur að hvaða leyti hægt er að gera Marx ábyrgan fyrir hörmungum kommúnismans. Þeirri umræðu er sannarlega ekki lokið en manni finnst stundum að marxistar dagsins í dag séu tilbúnir að framkvæma slíkar þjóðfélagstilraunir á ný. Jafnvel þó við höfum nýleg dæmi um hrun sósíalismans eins og í Venesúela og á Kúbu. Virkjaðar í praktískum tilgangi hafa kenningar Marx aldrei virkað en það þýðir ekki að hann hafi ekki getað sagt okkur ýmislegt.
Í Morgunútvarpi Rásar 1 á föstudaginn var Ottó Másson, heimspekingur og bóksali, mættur til að ræða um Marx. Ottó sagði að Marx ætti enn erindi við fólk - sérstaklega auðvitað við vinstrihreyfinguna og virtist telja raunhæfar lausnir koma frá kenningum hans. Ottó sagði að við þyrftum að snúa aftur til Marx, lesa hans rit og velta því fyrir okkur í hverju gildi þeirra liggur. Það geti skýrt margt fyrir okkur og hann bætti svo við: „Sjáum til dæmis þessa ríkisstjórn sem hér er sest að völdum. Hún byggir á þeirri grundvallarhugmynd að það sé hægt að laga eitt og annað í samfélaginu með því að fulltrúar vinnandi fólks, Vinstri-grænir, geti tekið saman höndum með fulltrúum auðstéttarinnar í landinu og þannig náð einhverju samkomulagi um að þoka hlutunum til betri vegar. Það mun ekkert slíkt gerast. Það sem gerist að sjálfsögðu er að ráðastéttin ræður því sem hún vill í þessari ríkisstjórn. Katrín Jakobsdóttir og hennar félagar eru í því að segja okkur hinum að vera róleg, vera ekki að ybba gogg, og vera með eitthvert baráttukjaftæði. - Það var ekki erfitt að sjá að þetta yrði nákvæmlega svona. Ef við förum aftur til Marx, þá er það eitt af hans grundvallar-prinsippum að verkalýðsstéttin á aldrei að vera taglhnýtingur borgaralegra afla í póltík." Af þessu má sjá að Marx virðist enn vera mönnum leiðsögn í pólitík. Það er auðvitað umhugsunarefni að Ríkisútvarpið skuli kjósa að bjóða upp á svona einhliða trúboð í marxískum fræðum en látum það liggja milli hluta.
Öreigastétt eða fórnarlambastétt?
Í umræðum í háskólanum í gær var því varpað upp hvort að rétt væri að tala um verkalýðsstétt í dag, hvort ekki væri nær að tala um fórnarlambastéttina. Eru kannski nákvæmara að tala um öryrkjastéttina frekar en öreigastéttina á Íslandi nútímans? Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr vanda fólks en uppgjör marxista í dag virðist að einhverju leyti snúast um útfærslu velferðarkerfisins en að umbylta sjálfum framleiðsluháttunum. Mótsagnirnar felast í afstöðunni til velferðarkerfisins sem hefur brugðist fólki að mati nútímalegra marxista. „Þið hafið það skítt og þið getið ekki breytt því sjálf,” hljómar á torgum og í fjölmiðlum.
Ein frægasta setning Karl Marx fjallar um getu og þörf: Hver og einn vinnur það, sem hann er hæfur til, og fær í sinn hlut það, sem þarfir hans krefjast. (Jeder nach seinen Fähigkeiten, jedem nach seinen Bedürfnisse.) Ein grunnforsenda hins sósíaldemókratíska velferðarkerfis er hins vegar að hagkerfið sé nógu öflugt til að geta þjónað því. Hefur marxismi eitthvað fram að færa í samfélagi dagsins í dag þar sem við erum að reyna að stilla af velferðakerfið þannig að það þjóni tilgangi sínum?
Karl Marx skrifaði: „Mennirnir skapa sjálfir sögu sína, en þeir skapa hana ekki að vild sinni, ekki við skilyrði sem þeir hafa sjálfir valið, heldur við þau skilyrði sem þeir hitta fyrir sér, þeim eru fengin, þeir hljóta í arf. Arfur allra liðinna kynslóða hvílir sem farg á heila lifenda." (Úrvalsrit II, bls. 119) Ég hef alltaf verið nokkuð hrifin af þessum orðum Marx og mér skilst að flestir félagsvísindamenn geti fallist á slíka nálgun. Þarna erum við hvorki bundin á klafa sögulegrar efnishyggju né efnahagslegrar nauðhyggju. Þvert á móti er lögð áhersla á sköpun mannsins á sögu sinni innan leikreglna samfélagsins. Þetta mættu margir marxistar nútímans hafa hugfast.
Nýfrjálshyggja eða kapítalismi
Í dag virðast margir sósíalistar vera uppteknir af baráttu við nýfrjálshyggjuna, jafnvel miklu frekar en baráttunni við kapítalismann sjálfan. Í þeirri orðræðu hefur frelsishugtakið orðið að lykilþætti sem getur sett hin heimspekilega marxisma í nokkurn vanda nema menn vilji hreinlega afneita algildum frelsishugtökum eins og við þekkjum meðal annars í flestum vestrænum stjórnarskrám. Þetta er sérstakt en það voru einmitt frelsishugsuðir eins og Ludwig von Mises sem sáu gleggst fyrir vankanta marxískra kenninga og hvaða áhrif þær myndu hafa. Hafa má í huga að Marx sjálfur taldi að kapítalisminn væri jákvætt afl í sögulegri þróun. Að fyrir vikið yrði meiri félagsleg eign á fjármagni en fleiri og fleiri eignarlausir þegar kæmi að framleiðslutækjunum sjálfum. Hugsanlega misreiknaði Marx ýmsa áhrifaþætti eins og þjónustuþáttinn en greining hans á vinnu er þó líklega hans merkasta framlag.
En eftir orðum koma efndir og það er einmitt í framkvæmd marxismans sem hann hefur brugðist. Gefum Richard M. Ebeling aftur orðið: „Engar ýkjur felast í því að segja að allt sem marxistar sögðu að væri eðli kapítalísks kerfis – að fáir forréttindamenn arðrændu fjöldann, mikil misskipting auðs og tækifæra viðgengist og stafaði einfaldlega af sýndarstjórn á framleiðslu; brenglun á veruleikanum til að láta þræla halda að þeir væru frjálsir – var í raun eðli og kjarni sovésks sósíalisma. Hvílíkur rangsnúningur og afbökun á veruleikanum það var sem birtist í þessum hugmyndafræðilega spéspegli!”
Ebeling telur að þessu hafi loksins lokið árið 1991 þegar fríðindi, arðrán og fátækt „raunverulegs sósíalisma“ urðu til þess að sovétkerfið stóð ekki lengur undir sér. „Þegar þar var komið var erfitt að finna einhvern hvar sem leitað var í Sovétríkjunum sem trúði á hina „fölsku stéttarvitund“ kommúnísks áróðurs. Sovétríkin voru komin í öngstræti hugmyndafræðilegs gjaldþrots og samfélagslegs ólögmætis. Ofurbygging“ sovésks valds hrundi.”
Ofbeldi byltingarinnar
Marx var tækifærissinni þegar rætt var um beitingu pólitísks valds. Því má telja líklegt að hann hafi að nokkru aðhyllst ofbeldi í byltingu eða allavega sætt sig við það ef það væri nauðsynlegt fyrir framþróun byltingarinnar. Þó gerði hann sér fulla grein fyrir hættunni sem af ofbeldi gæti stafað. Það má til dæmis sjá af því hve hann varar við og fordæmir ógnarstjórn sem hann telur sýna að ekki hafi verið réttur tími fyrir byltinguna. Hann taldi að ekki væri hægt að byggja upp sósíalisma með ofbeldi þó ofbeldi í tengslum við pólitískt vald geti verið nauðsynlegt á stundum. Og í raun sé hæpið að segja að engin bylting verði án ofbeldis. Hvað nágvæmlega þetta segir um ábyrgð hans á blóðugum byltingum er erfitt að segja en varla er hægt að fría hann algerlega af slíkri ábyrgð.
Líklega var Halldór Kiljan Laxness einn þekktasti Stalínisti okkar tíma en eftir að hann fékk Nóbelinn róaðist hann í marxismanum. Upp úr því fór hann að tala um marxisma sem 19. aldar hagfræðikenningu frá London, en um sjálfan sig einsog hann hafi verið taóisti mestan hluta ævinnar! (Segir í ævisögu hans eftir Halldór Guðmundsson, upp úr Gjörningabókinni.) Rithöfundar eru þeirra náttúru að þeir skapar ekki bara söguna af sjálfum sér heldur breyta henni jafnharðan. Það eru líka örlög margra marxista sem hafa frá upphafi haft trú á að þeir skyldu söguna betur en aðrir. Það hefur ekki reynst vera rétt.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.