c

Pistlar:

28. maí 2018 kl. 22:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lífeyrissjóðir fjárfesti í innviðum

Flestar þjóðir öfunda Íslendinga af öflugu lífeyriskerfi. Íslenska lífeyriskerfið skiptist í þrjá megin þætti; almannatryggingar, lífeyrissjóði og frjálsan einstaklingsbundinn sparnað. Þjóðir sem byggja lífeyriskerfi sitt á því að ríkissjóður greiði ellilífeyri, sem er fjármagnaður með sköttum, geta staðið frammi fyrir stórkostlegum vanda þegar fjöldi lífeyrisþega eykst á sama tíma og skattgreiðendum fækkar. Ekki er að efa að þessar þjóðir vildu þá gjarnan geta skipt um kerfi og geta búið í haginn með því að byggja upp lífeyrissjóði til að greiða eftirlaun. Það tekur hins vegar marga áratugi að byggja upp lífeyrissjóði sem hafa getu til að greiða lífeyri sem máli skiptir. Íslendingar búa að því að hafa greitt í lífeyrissjóði í áratugi og safnað eignum sem nema um einni og hálfri landsframleiðslu. Það má ekki gleyma því að kerfið hér býr til sparnað sem ella hefði verið varið í eyðslu. Ekki er langt síðan undirritaður gerði lífeyrissjóðskerfið á Íslandi að umræðuefni hér.lif

Í erlendri umfjöllun um lífeyrismál er oft vísað til Hollands sem fyrirmyndarríkis og kerfisins þar sem góða fyrirmynd. Við Íslendingar erum með álíka sterkt kerfi og Hollendingar, sveigjanlegt kerfi sem stendur undir sér og á möguleika á því að stilla sig af ef syrtir í álinn. Hugsunin er að hver kyn­slóð beri ábyrgð á eigin líf­eyri í gegnum söfn­un­ar­kerfi. Það er staðreynd sem menn mættu hafa í huga í hinni daglegu umræðu um lífeyriskerfið. Og enn er verið að styrkja kerfið. Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda, sem samið var um í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA í janúar 2016, kemur til framkvæmda þann 1. júlí næstkomandi en þá hækkar framlagið um 1,5% til viðbótar og verður þá 11,5%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs mun frá 1. júlí 2018 nema samtals 15,5% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda.

Stærsta eignin

Allangt er síðan lífeyriseign varð stærst fjárhagslegra eigna heimilanna, en lengi var fasteignin í fyrsta sæti. Sé litið til heimila víða erlendis, sem geta átt lífeyri sinn undir því hvernig fyrirtækinu sem fólk vinnur hjá tekst að standa við skuldbindingar sínar, er staða okkar ólíkt betri. Víðast hvar hefur verið litið svo á að það sé ein af skyldum þjóðfélagsins að tryggja öldruðum
fjárhagslegt öryggi þegar ævistarfi þeirra lýkur. Íslendingar eru gæfusamir að hafa byggt upp lífeyrissjóði sem greiða meirihluta af ellilífeyri landsmanna. Markmiðið er eins og áður sagði að hver kynslóð leggi fyrir og byggi upp sjóði til að standa undir eftirlaunum þegar hún hættir að vinna, bæði til eigin neyslu og samneyslu í formi skatta. Nýlegar mannfjöldaspár gera ráð fyrir vaxandi fjölda lífeyrisþega á næstu árum og áratugum og því er afar mikilvægt að hlúa vel að starfsumhverfi lífeyrissjóðanna og fylgjast með hvaða möguleika þeir hafa til að ávaxta fé sitt. Lífeyriskerfi eru í eðli sínu viðkvæm fyrir lægri fæðingartíðni og minni framleiðni. Hið opinbera lífeyriskerfi er einnig viðkvæmt fyrir því ef mikil fjöldi fólks flytur til landsins sem hvorki tekur með sér réttindi né nær að safna þeim hér. Kostnaður vegna þeirra leggst á opinbera lífeyriskerfið.

Of stórir?

En kerfið er aldrei betra en sú ávöxtun sem fjármagnið sem fer inn í það nær. Við verðum að hafa í huga að það sem hefur verið byggt upp á löngum tíma getur farið illa við sérstakar aðstæður, til dæmis við langvarandi gjaldeyrishöft. Þess vegna var svo mikilvægt að afnema höft svo að lífeyrissjóðir landsmanna hafi heimildir til að auka gæði eignasafna sinna með fjárfestingum erlendis. Líklega er hægt að segja að það hafi verið skynsamleg ákvörðun að leyfa fólki að nota séreignarsparnað sinn til að greiða inn á fasteignalán og hraða þannig eignamyndun og lækka greiðslubyrði. Velta má fyrir sér hvort þetta sé ekki leið sem megi halda áfram á meðan lífeyrissjóðirnir eiga í vandræðum með að finna heppilega fjárfestingakosti

Nú verður vart við umræðu um að lífeyrissjóðirnir séu of stórir fyrir Ísland, eigendavald þeirra óskilgreint og ýmist sagt of mikið eða of lítið. Og svo auðvitað að það skorti fjárfestingatækifæri á Íslandi. Augljóslega eru lífeyrissjóðirnir að auka vægi erlendrar fjárfestingar þessi misserin. Um leið þurfa þeir að skoða betur hvernig þeir fjárfesta á Íslandi. Vel má sjá fyrir sér að þeir komi að innviðaverkefnum í framtíðinni. Þar verði hægt að tryggja sjóðunum tiltekna ávöxtun og áhættan sé bundin í verkefni sem geta skila komandi kynslóðum mikinn ávinning. Með því að fara þessa leið mætti slá þrjár flugur í einu höggi; tryggja örugga ávöxtun, ráðast í þjóðhagslega hagkvæm verkefni og tryggja að fjármagnið sé í vinnu innanlands.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.