Það var forvitnilegt að sitja fyrirlestur dr. Jordan Petersons í Hörpunni í gærkvöldi. Ég gef mig ekki út fyrir að vera mesti sérfræðingur landsins í kenningum hans enda virðist manni sem þeir séu ansi margir sem hafi kynnt sér þær nokkuð ítarlega. En þessar vinsældir koma að hluta til á óvart. Hvað er það sem veldur því að miðaldra kanadískur sálfræðingur nær að kveikja svo í umræðunni að hann fyllir sal Hörpunnar tvö kvöld í röð þar sem menn hlýða á fremur flókin hugtakafyrirlestur á ensku? Hvað vekur þennan áhuga á umræðuefninu en ekki síður því hvernig Peterson nálgast það? Má vera að svörin liggi í samtímanum og óbærilegum léttleika tilverunnar sem hefur smám saman svipt okkur merkingaríkri umræðu. Peterson virðist þannig svara ákveðinni þörf fyrir að kryfja hugtök og skilgreiningar sem tröllríða umræðunni, oft á yfirgengilega óáhugaverðan hátt. Lítum á nærtækt dæmi.
Um leið og Peterson flutti fyrirlestur sinn í gærkvöldi voru eldhúsdagsumræður á Alþingi. Þar gefst stjórnmálamönnum tækifæri til að setja hugsjónir sínar og stefnu í samhengi við hina pólitísku umræðu hverju sinni. Þessir tveir viðburðir skarast kannski á merkilegan hátt og sýna af hverju menn eru tilbúnir að borga 9.500 krónur fyrir að hlusta á Peterson en myndu líklega ekki hlusta á eldhúsdaginn þó þeim væri borgað fyrir það! Á sama tíma og Peterson reyndi að útskýra fyrir salnum að leiðinn að hamingjunni væri hugsanlega mikilvægari en markmiðið sjálft veifaði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spjaldi þar sem á stóð Hamingja! Ef skilja mátti Ingu rétt var hún stödd í ræðustól þingsins til að krefjast hamingjunnar til handa skjólstæðingum sínum eða kjósendum Flokks fólksins. Sjálfsagt meinar Inga bara gott eitt og hamingjan er áhugavert markmið. Ég hef meira að segja sjálfur rætt hana hér áður í pistlum af gefnu tilefni. En það er eitthvað öfugsnúið að mæta í ræðustól á alþingi og krefjast beinlínis þess að verða hamingjusamur. Og að hið opinbera sendi hana heim í gluggaumslagi. Öfugsnúið af því það lýsir fátæklegum hugmyndaheimi og það er einmitt slík síbylja merkingalausra slagorða sem er að drepa áhuga fólks á umræðuefnum sem geta alla jafnan verið þörf og mikilvæg. Það er ekki þeim til framdráttar að sá reiðasti í salnum tali. Í munni þeirra verður allt tal um réttlæti merkingalítið.
Hugmyndir drukkna í málæði
Joseph Alois Schumpeter (1883-1950) taldi að kapítalismanum yrði drekkt í skrifræði en hugsanlega verður hugsjónunum drekkt í málæði. Málæði, segi ég vegna þessi umræða hefur oft hvorki upphaf né endir og segir að lokum áheyrendum ekkert annað en að viðkomandi hefur ekki hugsað málið til enda. Þegar svo er af hverju eiga tilheyrendur að leggja við hlustir?
Það er auðvitað ekkert nýtt að menn kveði fast að orði en það er samhengi hlutanna sem skiptir máli og endurtekningin er einn af vegvísunum til heljar. Í formála að Frelsinu eftir John Stuart Mill (1806-1873) rifjar Þorsteinn Gylfason upp að í einu höfuðriti Friedrichs Nietzsche (1844-1900), Handan góðs og ills, segir að John Stuart Mill sé fífl. Það mun hafa verið eldlegur áhugi Mills á jafnrétti karla og kvenna sem Nietzsche hafði til viðmiðunar þegar hann lét ummælin falla. Nietzsche sakaði Mill um hjarðlindi og líklega líkaði honum ekki sá sósíaldemókratíski andi sem streymdi frá honum. Og svo leiddist honum málæði eins og Mill stóð oft fyrir. Peterson vitnaði í Nietzsche í gær og reyndar líka Kierkegaard (1813-1855) og Dostojevskíj (1821-1881) sem er áhugavert út af fyrir sig þar sem þeir hafa allir verið taldir bera ábyrgð á tilvistarspekinni sem einmitt gekk út á að þú ert það sem þú skapar úr sjálfum þér. Nokkuð sem Peterson boðar af miklum ákafa. Hann er að því leyti hluti af umræðuheild sem ætti ekki að koma á óvart, þó umræðan um hann bendi stundum til annars. Það hefði annars verið kostulegt að hlusta á Nietzsche í settinu hjá Cathy Newman!
Pólitískir ákærendur
Annar áberandi þingmaður í eldhúsdagsumræðunni í gær var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sem talaði fyrir Pírata. Þórhildur Sunna talar eins og ákærandi, hún er ekki bara ósammála pólitískum andstæðingum - hún berst við þá af því að þeir eru vont og spillt fólk. Hugmyndafræðileg fátækt er farin að einkenna málflutning Pírata sem eru orðnir að býrókratískum prófarkalesurum umfram annað. Umkvörtunarefnið gengur vanaleg út á að þetta eða hitt minnisblaðið hafi ekki birtist á réttum stað og tíma! Ég hef áður talið að ekki sé ástæða til að efast um lýðræðisvilja margra í hópi Pírata en svo virðist sem nálgun þeirra og vinnubrögð bendi til þess að þeim sé fremur áskapað að gagnrýna en byggja upp. Í eðli sínu virðast Píratar vera stjórnarandstöðuafl en ástæða er til að hafa áhyggjur af viðleitni þeirra til að setja upp sýndarréttarhöld yfir pólitískum andstæðingum. Umræða þeirra um spillingu náði nýjum hæðum í gær þegar Þórhildur Sunna sagði að umræðu um lækkun veiðileyfagjalds hefði verið haldið frá sveitastjórnarkosningunum! Eins og það hafi skort umræðuefni þar, fyrir utan að veiðileyfagjald kemur sveitastjórnarkosningum ekkert við. En með því að ræða spillingu eykst spilling. Það er vegna þess að mælingar á spillingu byggjast meðal annars á því hve mikið er rætt um hana!
Rökhyggjumenn töldu skýr og greinanleg hugtök vera uppsprettu þekkingar á veruleikanum. Vandinn var að rökhyggjumenn gátu ekki komið sér saman um hvað væri skýrt og greinanlegt! Hugtök og skilgreiningar fljóta í kringum Jordan Peterson sem bæði fjallar um heimspeki og lífsspeki með skýrum tilvísunum í atferlisfræði og taugasálfræði. Úr slíkum kokkteil getur ekki komið annað en frjó umræða en um leið villugjörn. Það er ekki hamingjan sem er aðalmálið, heldur lifa innihalds- og merkingaríku lífi. (Og þá getur hugsanlega slæðst með einhver hamingja). En Peterson er mikið niðri fyrir og hann virðist einlægur og tilfinningaríkur í málflutningi sínum. Gott ef hann táraðist ekki aðeins eins og Inga Sæland.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.