Fallið ríki er annað orð yfir sósíalískt ríki. Þetta sjáum við gleggst um þessar mundir í Venesúela sem er í svo slæmu standi að meira að segja Ríkisútvarpið sér ástæðu til að fjalla um ástandið en það hefur höfundur gert hér með reglulegu millibili undanfarin ár. Með sama hætti mætti tala um Norður-Kóreu, Kúbu og Níkaragva og reyndar ýmis önnur ríki sem ástundað hafa sósíalíska hagstjórn og stofnanauppbyggingu. Þar með mætti telja land eins og Simbabve sem var stýrt af
byltingar- og stjórnmálamanninum Robert Gabriel Mugabe en hann var forseti landsins frá 1987 til 2017 og ástundaði sína útgáfu af þjóðnýtingarsósíalisma. Um það hefur verið fjallað hér áður í pistlum.
Niðurskurður í velferðarmálum
En að þessu sinni ætlum við að beina sjónum okkar að Mið-Ameríkuríkinu Níkaragva en ástæða er til að óttast að landið sé að sogast niður í sömu aðstæður og hafa tekið yfir í Venesúela. Ekki er langt síðan fréttir urðu áberandi um stigvaxandi óeirðir í Níkaragva með tilheyrandi mannfalli og slysum á fólki. Nýjustu tölur segja um 220 fallna. Upphaf mótmælanna er rakið til niðurskurðar í velferðarmálum en mótmælin voru fámenn í upphafi og þá helst að lífeyrisþega væru virkir. Fljótt sauð upp úr og átök stigmögnuðust. Yfirvöld og hópar þeim tengd brugðust hart við, meðal annars með barsmíðum á mótmælendum í höfuðborginni Managua. Þetta hafði þau áhrif að þúsundir almennra borgara gengu til liðs við mótmælendur og ekki leið á löngu þar til kröfugöngur og baráttufundir voru haldnir á nær hverju götuhorni. Stjórnvöld hafa dregið fyrirætlanir um niðurskurð í hinu aðþrengda velferðarkerfi að einhverju leyti til baka en það hefur ekki dugað til að lægja óánægjuölduna.
Heldur þann versta en þann næstbesta
Núverandi forseti, Daniel Ortega, komst fyrst til valda árið 1979 í kjölfar byltingar sem gerð var til að steypa þáverandi einræðisstjórn af stóli en Somoza ættin hafði stýrt landinu um árabil, meðal annars með stuðningi Bandaríkjamanna. Ortega var þá ungur byltingarleiðtogi Sandínistahreyfingarinnar og kunnu stjórnvöld í Bandaríkjunum lítt að meta umskiptin í landinu. Til að hindra að landið félli í hendur marxista ákváðu Bandaríkjamenn að styðja Contra-skæruliðana og reyna að grafa undan sandínistum. Það var ein af mörgum vondum ákvörðunum bandarískra stjórnvalda á þessu svæði. Borgarastríð braust út, tugþúsundir féllu og Ortega hrökklaðist frá völdum árið 1990 eftir að hafa tapað kosningum fyrir Violeta Chamorro, fyrstu konunni til að vera kosin forseti í lýðræðislegum kosningum í Ameríku. Þá var efnahagur landsins í molum eftir langvinn átök og óstjórn. Afskiptasemi Bandaríkjamanna hefur hins vegar haft þau áhrif að margar þjóðir í þessum heimshluta hafa sætt sig við ólýðræðislegar stjórnir með vonda efnahagsstefnu. Andhófið við Bandaríkjamenn hefur þannig orðið að kjarna stefnu margra vinstri stjórna á svæðin og skiptir þá engu að hin nýja stefna dugar ekkert. Heldur þann versta en þann næstbesta, hefur orðið að áhrínisorðum sósíalískra hagkerfa margra stjórna í Mið- og Suðurameríku.
Breytti stjórnarskránni
Daniel Ortega komst aftur til valda eftir kosningar í nóvember 2006 og vann aftur 2010. Til að geta verið í framboði í þriðja sinn þurfti hann að breyta stjórnarskránni sem hann gerði vitaskuld. Segja má að stjórn Ortega hafi stjórnast af nokkurskonar hentistefnu (pragmatisma). Hann hefur stutt fjárfestingar og atvinnuuppbyggingu og þó að Ortega haldi á lofti orðræðu sósíalista hefur einkageirinn og viðskipti við Bandaríkjamenn vaxið og dafnað í hans valdatíð. Hann tók við þeim fjármunum sem Hugo Chávez (1954-2013) dældi í hann til að stuðla að áframhaldandi útbreiðslu sósíalisma í Mið- og Suður-Ameríku en virtist ekki tilbúin að ganga alla leið. Eins og í flestum ríkjum sósíalista hefur stjórnin smám saman orðið afhuga lýðræði og snúist upp í frændhygli með tilheyrandi spillingu. Saka mótmælendur hann og konu hans nú um spillingu og gagnrýna opinskátt stjórnarhætti hans.
Níkaragva er allnokkuð stærra en Ísland og þar búa tæpar sex milljónir manna. Landið hefur löngum verið eitt af fátækustu svæðum þessa heimshluta en hækkun heimsmarkaðsverðs á hráefni hefur bætt fjárhaginn auk þess sem þjónusta við ferðamenn hefur vaxið hröðum skrefum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði 4,7 prósent hagvexti á þessu ári en þær spár eru farnar út í veður og vind. Alþjóðlegir fjárfestar hafa haldið að sér höndum og hrun blasir við í verktakageiranum. Lánshæfismatsfyrirtækin hafa lækkað einkunnargjöf sína og vaxtakostnaður hækkað. Bandaríkjaþing íhugar nú refsiaðgerðir vegna mannréttindabrota Ortega-stjórnarinnar. Hún hefur hins vegar lögreglu og her með sér, rétt eins og Maduro-stjórnin í Venesúela. Því óttast menn að átökin dragist á langinn og og ástandið verði eins skelfilegt og í Venesúela.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.