c

Pistlar:

3. ágúst 2018 kl. 15:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Velgengni Apple

Banda­ríska tæknifyr­ir­tækið Apple varð í gær fyrsta fyr­ir­tækið í heim­in­um sem er skráð á al­menn­an hluta­bréfa­markað sem er metið á yfir eina bill­jón Banda­ríkja­dala (e. trilli­on doll­ars). Ein bill­jón sam­svar­ar millj­ón millj­ón­um. Apple náði þess­um áfanga í viðskipt­um í kaup­höll­inni í New York í Banda­ríkj­un­um þegar verð á hluta­bréf­um fór yfir 207 dali á hlut. Verðið reis upp í þetta eftir myndarlega hækkun í vikunni í kjölfar jákvæðrar afkomu en markaðsvirði Apple hefur tvöfaldast á nokkrum árum eins og kemur fram í meðfylgjandi grafi. Síðasta árið hafa bréf félagsins hækkað um 35%.applegraf

Þetta var nokkuð sem hafði verið rækilega spáð enda Apple eitt farsælasta tæknifyrirtæki sögunnar. Lengst af var velgengni fyrirtækisins tengd sýn og sköpunarkrafti Steve Jobs sem lést fyrir nokkrum árum en hann stofnaði Appple 1976. Þeim sem tóku við fyrirtækinu í kjölfarið hefur gengið ágætlega að halda uppi merki hans. Samkeppnin er þó gríðarleg. Apple hóf að selja snjallsímann iPhone fyrir rúmum 10 árum síðan og velgengni félagsins hefur að hluta til haldist í hendur við snjallsímavæðingu heimsins. Í dag er félagið með 12% markaðshlutdeild í snjallsímum á heimsvísu. Suður-Kóreanska fyrirtækið Samsung hefur náð forystunni, með 21% markaðshlutdeild og Huawei frá Kína er með 16% hlutdeild. Þetta er gríðarlegur markaður enda virðist nútímamaðurinn þurfa að endurnýja þetta tæki á tveggja til þriggja ára fresti og skiptir engu þó hann þurfi að greiða ríflega 100.000 krónur í hvert skipti.

Góðar og áreiðanlegar vörur

IPad spjaldtölvan kom á markaðinn 2010 og hefur stuðlað að frekari velgengni þó síður hafi tekist til með Apple Watch sem félagið kom með fyrir þremur árum. Mest um vert er að vörur fyrirtækisins þykja góðar og áreiðanlegar og hafa fyrir vikið náð mikilli hylli. Hjá sumum er tryggðin við Apple-vörur gríðarleg, svo jaðrar við trúarbrögð. Hönnunin á tækjum Apple hefur sitt að segja og fólk í skapandi greinum tekur búnað þeirra umfram annað. Félagið hefur ætlað sér að útvíkka vöruframboð sitt og þannig mun Apple sjónvarp vera innan seilingar um leið og félagið hefur fært sig inn á efnisveitumarkaðinn. Hugsanlega verða bílar framtíðarinnar smíðaðir af Apple og álíka fyrirtækjum.apple2

Þeir sem eldri eru muna eftir netbólunni í kringum síðustu aldamót. Þá voru tækni- og netfyrirtæki verðlögð gríðarlega hátt og lítil innistaða var fyrir því. Enn á ný eru þessi félög verðlögð hátt en nú út frá tekjustreymi. Bloomberg hefur bent á að önnur tæknifyrirtæki séu ekki langt á eftir Apple. Amazon.com, Alphabet (móðurfélag Google) og Microsoft sé öllu metin á meira en 800 milljónir dala. John Authers, sérfræðingur hjá Financial Times, velti þessu fyrir sér og telur að innistæða sé fyrir verðlagningu tæknifyrirtækja. Gott ef menn sjá ekki fyrir sér að fleiri félög fylgi í kjölfar Apple og nái yfir trilljón dala markið. Authers benti á að árið 2000 hefði P/E (verð/tekjur) hlutfallið verið komið upp í 80 en í dag sé það 22. Það byggist á að tekjurnar hafi vaxið fremur en væntingar til fyrirtækjanna eins og átti sér stað í kringum árið 2000. Það gefur honum tilefni til að segja að gengi Apple og annarra tæknifyrirtækja sé ekki bóla.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.