c

Pistlar:

26. ágúst 2018 kl. 13:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Helstu hagstærðir aldrei jafn hagstæðar

„Lífskjör á Íslandi eru góð, með þeim bestu meðal OECD-ríkja, og ójöfnuður lítill í alþjóðlegum samanburði. Fátækt mælist einnig lítil í slíkum samanburði. Hagkerfið hefur náð sér eftir áfallið árið 2008 og helstu hagstærðir hafa aldrei verið jafn hagstæðar og um þessar mundir.”

Þannig hefst ritgerð Gylfa Zoega, prófessors við Háskóla Íslands, sem nú má finna á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Ritgerðin var skrifuð að beiðni forsætisráðuneytisins í aðdraganda kjarasamninga nú í haust. Skýrslunni er ætlað að lýsa þjóðhagslegu umhverfi samninganna og fjalla um svigrúm til launahækkana á haustmánuðum. Ástæða er til að vekja athygli á skýrslunni sem er mjög nákvæm og yfirgripsmikil haglýsing og nýtist vonandi í þeim vandasömu kjaraviðræðum sem eru framundan. Þrátt fyrir herskáan tón í hinum pólitíska armi verkalýðshreyfingarinnar er ekki útséð með að það náist skynsamir samningar. - Samningar sem tryggi áframhaldandi kaupmáttaraukningu. Gylfi rekur reyndar með skýrum hætti hvernig tókst að tryggja kaupmáttarbreytingar með samningunum 2015 en þá óttuðust margir að verið væri að setja verðbólgu af stað. Það varð sem betur fer ekki, að hluta til vegna hagstæðrar ytri þróunar. Engin leið er að gera ráð fyrir að slíkt endurtaki sig núna. Gylfi bendir þannig á að við gerð kjarasamninga í haust skipti höfuðmáli að samið verði um raunhæfar hækkanir sem styðja við framkvæmd peningastefnu og stjórn ríkisfjármála þannig að áfram verði unnt að tryggja lága vexti, litla verðbólgu, áframhaldandi hagvöxt og vaxandi kaupmátt launa. Hér fylgir með mynd af þróun landsframleiðslu úr skýrslunni.vergur

Lífsgæði á Íslandi mikil

Í greiningu sinni fer Gylfi yfir helstu atriði íslenskrar hagþróunar undanfarin ár og rekur þau álitaefni sem eru uppi varðandi kaupmáttarþróun og helstu hættur sem steðja að hagkerfinu. Íslendingar eru þó í betri stöðu en flestir til þess að greiða úr sínum málum, veldur hver á heldur. Hafa verður í huga að Ísland er númer níu af 185 löndum á mannauðsmælikvarða Sameinuðu þjóðanna (e. Human development index) sem byggist á lífslíkum við fæðingu, lengd skólagöngu og vergum þjóðartekjum. Ísland hefur færst upp á þessum lista síðan 1990 og hækkað meira en öll önnur þróuð ríki. Samkvæmt ýmsum öðrum mælikvörðum eru lífsgæði á Íslandi einnig mikil. Á mælikvarða um félagslegar framfarir (e. social progress index) er Ísland í þriðja sæti í
heiminum.

En Gylfi bendir einnig á að þótt tekjur séu að meðaltali miklar á Íslandi og jöfnuður sé mikill í samanburði við allflest önnur lönd er víðs fjarri að almenn sátt sé í samfélaginu um skiptingu tekna og lífskjör einstakra hópa launþega. Það er áskorun næstu mánuði að tryggja sátt og betri lífskjör án þess að eyðileggja þann góða árangur sem þó hefur náðst. Gylfi bendir á að þótt þjóðartekjur, kaupmáttur meðaltekna og einkaneysla meðalheimilis séu í hæstu hæðum um þessar mundir verði að hafa í huga að miklar sveiflur einkenna íslenskt efnahagslíf. Við Íslendingar erum stöðugt minntir á að okkar litla samfélag er viðkvæmt fyrir ytri áföllum, þess brýnna er að vinna skynsamlega að því að styrkja og efla stoðir samfélagsins án þess að tefla í hættu þeim árangri sem hefur náðst.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.