c

Pistlar:

5. september 2018 kl. 13:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Amazon á flugi

Markaðsvirði Amazon hefur hækkað ótrúlega síðustu 12 mánuði og er nú félagið metið á eina bill­jón Banda­ríkja­dala (e. trilli­on doll­ars). Upphæð sem getur verið erfitt að meðtaka en ekki er langt síðan markaðsvirði Apple náði þessum hæðum eins og fjallað var hér um í pistli fyrir stuttu. Það gerðist hins vegar á mun lengri tíma og uppsveifla sem markaðurinn hefur séð á Amazon-bréfunum er nánast einstök. Sérstaklega ef horft er til heildarvirði félagsins.

Amazon hefur bætt sem svarar 520 milljörðum dala við markaðsvirði sitt á innan við einu ári. Þessi aukning ein og sér jafngildir markaðsvirði Berkshire Hathaway og Facebook, sem eru nú fimmta og sjötta verðmætustu fyrirtæki heims. Allt er þetta til vísbendingar um mikla velsæld á bandarískum hlutabréfamarkaði sem hefur verið einstaklega gjöfull undanfarin misseri, með tæknifyrirtækin í fararbroddi. Bóla? - Það á auðvitað eftir að koma í ljós en tekjur félaganna hafa verið að aukast verulega undanfarin ár. Hugsanlega er innistæða fyrir þessu en það segir sig sjálft að það styttist í leiðréttingu á markaði. Nú er tímabært fyrir þá sem vilja vara við að taka til máls!amazon

Verð hlutabréfa Amazon hefur hækkað í kjölfar þess að Wall Street fór að átta sig á að tekjumódel félagsins er að ganga upp og hagnaðurinn streymir inn. Hagnaður á fyrsta ársfjórðungi nam hvorki meira né minna en tveimur milljörðum dala. Meðfylgjandi graf er fengið að láni úr umfjöllun Financial Times en það sýnir hækkun á markaðsvirði í samanburði við Apple-fyrirtækið. Tímamótanna er víða getið en margir óttast félagið í dag en það virðist geta ráðist inn á nýja markaði og haft sigur á skömmum tíma. Um hálf milljón manna starfa hjá félaginu og þrátt fyrir endurtekna gagnrýni á starfsaðstæður virðist félagið sigla áfram.

Langríkasti maður heims

Það þarf svo sem ekki að tíunda upphaf Amazon en Jeff Bezos, sem er ríkasti maður heims í dag, hóf starfsemina í bílskúr í Bellevue í Washington í júlí 1994. 16 prósent hlutur hans er nú meira en 160 milljarðar dala virði og er uppistaðan í auði hans. Foreldrar Bezos fengu smá hlut í félaginu fyrir aðstoðina og eru nú meðal auðugasta fólks Bandaríkjanna. Allt er þetta með nokkrum ólíkindum en það er ekki nema um það bil ár síðan Bezos náði efsta sæti auðmannalistans. Síðan hefur hann ekki litið til baka.

Jeff Bezos hefur efni á að reka Washington Post út úr náttborðsskúffunni, Donald Trump Bandaríkjaforseta til lítillar gleði. Trump og Bernie Sanders hafa sammælst um að gagnrýna félagið þó á ólíkum forsendum sé. Trump telur félagið borga of litla skatta og gína yfir of miklu. Margir eru væntanlega sammála honum um það.

Jeff Bezos bitið af sér yfirfrakka

Margt við upphaf félagsins er á skjön við það sem nú tíðkast. Þannig var til dæmis Amazon skráð í kauphöll strax árið 1997, eða aðeins þremur árum eftir stofnun. Við sjáum hins vegar í dag að tæknifyrirtæki eins og Uber og Airbnb eru enn í einkaeign þrátt fyrir að hafa náð mikilli útbreiðslu. Segja má að skráningarverð Amazon hafi verið hóflegt en fyrirtækið sótti um 54 milljónir Bandaríkjadala í upphaflegu útboðinu 1997, en þá var Amazon metið á um 438 milljónir dala.

Félagið lifði af þegar netbólan sprakk, þökk sé skuldabréfaútgáfu sem ráðist var í febrúar 2000, aðeins vikum áður en markaðurinn hrundi. Það var ekki fyrr en árið 2003 að það tilkynnti fyrst um jákvæða afkomu. Allt frá því netbólan sprakk veltu menn því fyrir sér hvort Bezos væri enn rétti maðurinn til að stýra fyrirtækið, en þá höfðu stjofnendur Yahoo og Google neyðst til að samþykkja „eftirliti fullorðinna" inn í stjórnun fyrirtækja sinna. Það var ekki fyrr en 2009 sem Amazon náði aftur því markaðsvirði sem félagið hafði áður en netbólan sprakk. Síðan hafa því ekki haldið nein bönd. Jeff Bezos hefur tekist að varðveita ákveðin frumkvöðlaanda í fyrirtækinu og hann hefur í gegnum tíðina verið óhræddur við að takast á við nýja markaði eða ný tækifæri. Það virðist vera að skila sér.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.