Nú er ljóst að endurskoða þarf framkvæmd fyrirhugaðrar Sundabrautar. Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í vikunni kom fram að allar tillögur um þverun Kleppsvíkur eru orðnar margra áratuga gamlar. Frá þeim tíma að þær voru settar fram hafa orðið miklar breytingar og ýmsar forsendur mannvirkjagerðar í dag talsvert aðrar en áður voru. Sem gefur að skilja hafa forsendur byggðaþróunar þróast með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í upphafi. Eðlilega spyrja menn sig hvernig forsendur fyrir hraðbraut gangi upp inni í miðri borgarbyggð. Reykjavíkurborg ákvað þar að auki að skipuleggja íbúðabyggð í Gelgjutanga við Elliðaárvog og útiloka þar með svokallaða innri leið Sundabrautar. Þannig hefur verið þrengt að þeim kostum sem eru í stöðunni en hér fylgir með teikning úr ágætri umfjöllun Morgunblaðsins, sem hefur verið ötult í gegnum tíðina að fjalla um málið.
Í samantekt Jóns Þorvaldssonar, aðstoðarhafnarstjóra Faxaflóahafna sf., sem fjallað er um í Morgunblaðinu, kemur fram að efast megi um það að Sæbrautin hafi afkastagetu til að taka við umferð frá Sundabraut verði ráðist í þá framkvæmd. Þess sjáist merki á álagstíma umferðar. Jón bendir á að ýmis uppbyggingaáform á nálægum svæðum séu í farvatninu. Þeim fylgi óhjákvæmilega aukið umferðarálag á stofnbrautina, Sæbraut. Fyrir Sundahöfn, sem megingátt vöruflutninga til höfuðborgarinnar og Íslands alls, sé það lykilatriði að vegatengingar við Sæbrautina verði góðar.
Hér í pistlum hefur alloft verið vikið að Sundabraut og mikilvægi hennar. Ekki síður þó þeim tækifærum sem eru samfara henni og því mikilvægt að skoða hana sem heildstætt samgöngu-, atvinnu-, og byggðaþróunarverkefni. Mikilvægi hennar einskorðast ekki eingöngu við hinar augljósu samgöngubætur sem í henni felast.
Í skipulagi í meira en 30 ár
En er hægt að hugsa sér framtíðarskipulag umferðarmála í kringum höfuðborgina án Sundabrautar? Hafa ber í hug að Sundabraut hefur verið á Aðalskipulagi Reykjavíkur frá árinu 1984, eða yfir 30 ár. Þar er hún kynnt sem meginstofnleið um höfuðborgarsvæðið, tenging fyrir norðurhluta Reykjavíkur að Kjalarnesi og vegtenging fyrir Vestur- og Norðurland. 1995 hófst formleg vinna á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar, þar sem skoðaðir voru mögulegir valkostir. Svo virðist sem Jón telji að þessar forsendur séu brostnar. Það er erfitt til þess að hugsa ef menn koma ekki upp með ásættanlegar lausnir en verkefnahópur um málið á að skila niðurstöðum 15. nóvember næstkomandi. Vonandi að þar birtist eitthvað áþreifanlegt sem hægt er að vinna með. Það er fráleitt að láta verkefnið bíða áfram án þess að koma því á nokkra hreyfingu.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.