c

Pistlar:

30. september 2018 kl. 22:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Réttur prófessor um ranga skýrslu

Þegar skýrsla dr. Hannesar H. Gissurarsonar prófessors um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008 er skoðuð undrast maður helst að hún skyldi ekki vera skrifuð fyrr og að það skyldi þurfa frumkvæði Hannesar til þess að hún væri skrifuð. Skýrslan setur íslenska bankahrunið í alþjóðlegt samhengi um leið og ljósi er varpað á samskipti við erlend stjórnvöld í kringum hrunið. Sláandi er að sjá hve einangraðir Íslendingar voru og hve fljótt nágranaþjóðir okkar snéru við okkur bakinu og fénýttu sér svo aðstæðurnar. Skýrsla Hannesar varpar skýru ljósi á þetta. Það er auðvitað furðulegt að fylgjast með því hve margir eru tilbúnir að gagnrýna skýrsluna og játa um leið að hafa ekki lesið hana! - Og ef menn vilja ræða um kostnaðinn við skýrslu Hannesar þá má benda á að skýrsla Alþingis um fall sparisjóðanna kostaði 65 sinnum meira og vakti mun minni athygli og hefur reyndar horfið í gleymskuna.


Augljóslega er Hannes með skýrslu sinni að ganga gegn ákveðnum dogmatisma sem hefur verið sterkur í umræðunni hér heima, einkum meðal vinstri manna, einstaka háskólamönnum og ákveðnum starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Þessi umræðustjórnun birtist kannski skýrast í Silfrinu í dag þar sem Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor er fengin til að ræða um skýrslu Hannesar en ekki Hannes sjálfur. Ekki er vitað annað en að Hannes hafi verið tiltækur. Til að benda á hliðstæðu þá má horfa til þess að fyrir stuttu vann Jón Ólafsson heimspekiprófessor skýrslu fyrir forsætisráðuneytið og fékk í kjölfar þess heiðurssæti í Silfrinu, svo mjög að skilinn var eftir auður stóll við hlið forsætisráðherra sem mátti ásamt öðrum stjórnmálaleiðtogum, sem komu í þáttinn, hlýða á boðskap Jóns þá loksins er hann mætti. Daginn áður hafði þessi sami Jón setið í Vikulokunum á Rás 1 þar sem hann talaði óáreittur um það hugarefni sitt að fá að setja ríkisstjórninni siðareglur. Áður hafði fréttastofa Ríkisútvarpsins staðið fyrir rækilegri umfjöllun um skýrsluna. Það var kannski broslegast við þetta allt saman að niðurstaða Jóns var að leggja til að Sið­fræði­stofnun Háskóla Íslands yrði falið það verk­efni, tíma­bundið til að byrja með, að veita stjórn­völdum ráð­gjöf um sið­ferð­is­leg álita­mál og styrkja þannig stofna­naum­gjörðina eins og það hét. Siðfræðistofnun yrði einnig falið að ann­ast eft­ir­fylgni með skýrsl­unni. Tekið er fram að tryggja þurfi fjár­veit­ingu til þeirrar starf­semi en látið ógetið hvað það kostar.


Skuldahali Siðfræðistofnunar


Það þarf kannski ekki að taka fram að yfir Siðfræðistofnun, sem Jón Ólafsson vill rétta fastan rekstrasamning, ríkir Vilhjálmur Árnason sem formaður og hefur gert allt síðan 1997. Af fréttum hefur mátt skilja sem svo að það skorti nú illilega verkefni hjá stofnunni. Í skýrslu um starfsemi Siðfræðistofnunarinnar árið 2017 má lesa eftirfarandi: „Stofnunin stendur höllum fæti og er með skuldahala.“ Þjónustusamningur við ríkisstjórnina um siðferðileg álitamál ætti að vera góð leið til að grynnka á skuldahalanum en auðvitað má deila um siðferði þess að forsvarsmenn stofnunarinnar steypi henni í skuldir! Var ekki skuldasöfnun undirrót bankahrunsins?

Vilhjálmur var einn þeirra sem skrifuðu siðferðiskafla Rannsóknarskýrslu Alþingis og stendur því vörð um þá aðferðafræði og niðurstöðu sem þar var beitt, þótt ýmsir hafi gagnrýnt þann hluta Rannsóknarskýrsluna harðlega fyrir ónákvæmni og beinar rangfærslur, meðal annars þáverandi forseti landsins, Ólafur Ragnar Grímsson. Augljóslega stendur Háskóli Íslands að baki þessari réttu opinberu söguskoðun og hefur blásið til ráðstefnu um næstu helgi af þessu tilefni.vilhj


Aðeins um Rannsóknarskýrsluna


Ef við horfum til baka til þess þegar Rannsóknarskýrsla Alþingis kynnt almenningi 12. apríl 2010 eftir að birtingunni hafði ítrekað verið frestað. Þá virðist í eitt skipti fyrir öll hafa fæðst hin rétt skýring á bankahruninu, skýring sem ekki má ganga gegn eins og Hannes er að upplifa núna. Að sjálfsögðu lituðust viðbrögð við skýrslunni af pólitík enda má segja að upplegg hennar, aðferðafræði og nálgun kalli á slíkt. Það verður að segjast eins og er að meginstef Rannsóknarskýrslu Alþingis er að hér á Íslandi hafi skapast ástand án fordæmis. Bankakreppan á Íslandi hafi verið einstök í fjármála- og bankastarfsemi heimsins og verði helst skýrð með vísunum í séríslensk áhrifaþætti. Þegar sú niðurstaða er fengin horfir beint við að persónugera vandann með vísun í helstu þátttakendur. Þannig fikrar skýrslan sig smám saman að þeirri niðurstöðu að hér hafi um 30 íslenskir karlmenn sett heilt þjóðfélag á hausinn, skoðun sem var búið að lögleiða áður í þjóðfélaginu. Í kjölfarið fengu ríflega 300 manns réttarstöðu sakborninga og enn sér ekki fyrir endann á réttarhöldum og fangelsisdómum vegna þess.


Skýrslan taldi að þetta hefðu 30-menningarnir getað gert vegna þess að hér var stjórnsýslan veikluð og spillt, stjórnmálaflokkarnir samofnir hagsmunasamtökum og viðspyrnulausir þegar kom að valdi peninganna. Pólitískt uppgjör varð þannig smám saman að hliðarstefi við rannsókn á bankahruninu. Augljóst var að vinstrimenn ætluðu að gera sér sem mest mat úr ástandinu í þeim tilgangi að ná völdum í landsmálunum. Segja má eðlileg niðurstaða þess hafi verið fyrsta hreina vinstristjórn Íslandssögunnar. „Hér var gerð dýrkeypt samfélagstilraun þar sem græðgin var gerð að einu megin hreyfiafli þjóðfélagsins,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ræðu sinni þegar skýrslan var kynnt. Hún hnykkti á þessu tveimur dögum seinna þegar formenn allra flokkanna komu saman í Kastljósi Sjónvarpsins. „Hugmyndakerfi frjálshyggjunnar hefur beðið hnekki í þessu öllu saman,“ sagði hún og ljóst var að þessari línu ætluðu vinstri menn að fylgja enda hentaði það vel þar sem Samfylkingin var í þeirri ríkisstjórn sem var við völd þegar kerfið hrundi. Einhvern veginn varð að spinna sig frá þeirri staðreynd. Samfylkingin settist strax í nýja ríkisstjórn og skyldi uppgjörið að hluta til eftir hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem fárveik hafði látið af formennsku í upphafi árs 2009. Vinstri menn héldu áfram að skrifa sig frá allri sök á hruninu, frjálshyggjan og Sjálfstæðisflokkurinn skyldi sitja uppi með reikninginn og skipti litlu þó nýjar upplýsingar séu dregnar fram eins og birtist í skýrslu Hannesar sem Vilhjálmur þykir réttur til að túlka í Ríkisútvarpinu.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.