Er þjóðhagslega óhagkvæmt að fyrirtæki sem tapar fé leggi upp laupana? Sjálfsagt mótast svarið að einhverju leyti af því hvaða fyrirtæki er um að ræða en taprekstur gengur ekki til lengdar, ja, nema hjá hinu opinbera en það er annar handleggur. Undanfarið hefur verið mikil umræða um það hvort íslensku flugfélögin Icelandair og WOW séu þjóðhagslega mikilvæg og hér hefur verið vikið að því áður. Vissulega veita þessi fyrirtæki mörg störf og eru gríðarlega mikilvæg fyrir íslenska ferðaþjónustu í dag sem á auðvitað allt undir góðum flugsamgöngum. En nákvæmlega hvernig þetta svokallaða þjóðhagslega mikilvægi útleggst getur verið mismunandi eins og birtist í upphafsspurningunni.
Lítum aðeins á stöðuna hjá WOW sem lauk fyrir skömmu fjármögnun og virðist þannig komið fyrir vind um tíma. Hve lengi það varir er erfitt að segja en síðan skuldabréfaútgáfunni lauk hefur ýmislegt verið andsnúið rekstri félagsins, svo sem olíuverðshækkanir. Augljóst er og viðurkennt að félagið er illa varið fyrir því. Þó hægt sé að dáðst að kraftinum í uppbyggingu WOW þá mun markaðurinn að lokum leggja dóm á það hversu skynsamleg hún er. Fráleitt er að stjórnvöld grípi þar inní með beinum hætti, mikilvægara er að tryggja að samkeppni í flugrekstri sé stöðug og heilbrigð. Ef svo er þá er markaðurinn besta leiðin til að bregðast við áföllum í rekstri einstakra félaga. Nú fljúga hátt í 30 flugfélög til og frá landinu og það er sérlega jákvæð þróun. Vissulega er starfsemi Icelandair og WOW mikilvæg og brýnt að tryggja sem best rekstrarstöðu flugs hér á landi, meðal annars með því að halda opinberum kostnaði í lágmarki og tryggja að skriffinnska verði ekki til trafala. Þá sér markaðurinn um hitt.
Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, orðaði það sjónarmið að erlend flugfélög gætu stigið inn ef þau íslensku lentu í vanda og ýmsir talsmenn ferðaþjónustunnar hafa tekið undir það. Ritstjóri ferðasíðunnar Túristi hefur efasemdir um þá nálgun en freistandi er að skoða málið nánar.
Hvort sem er á leiðinni yfir hafið
Getur verið að menn hafi ofmeti þjóðhagslegt mikilvægi WOW? Skoðum til að byrja með farþegasamsetninguna. Skilja má upplýsingar frá félaginu þannig að um 85% til 90% farþega WOW ferðist samdægurs beint yfir N-Atlantshafið. Ef til stöðvunar kemur missa Leifsstöð og Isavia því af einhverjum tekjum. Einhver gæti bent á að í staðinn minnka þrengslin og að aðrir farþegar fái betri þjónustu. Slík sjónarmið vigta ekki mikið en við blasir að farþegar komast með mörgum öðrum félögum yfir hafið en að líkindum ekki eins ódýrt, enda hefur verðlagning WOW vakið hefur athygli víða. Þeir farþegar sem hafa greitt með kreditkortum eiga greiðslu sína inni hjá færsluhirðinum (kortafyrirtækjum) þar sem WOW fær þá ekki fyrr en búið er að flytja farþegana eða ferðalag hafið. Það er mismunandi hvaða kjara flugfélög njóta hjá fæsluhirði en eins og sást við gjaldþrot breska flugfélagsins Monarch fyrir ári síðan þá er þetta viðskiptasamband vandasamt. Gjaldþrot Monarch leiddi sem kunnugt er til greiðsluþrots Kortaþjónustunnar sem var eitt átta fyrirtækja sem sá um færsluhirðingu hjá Monarch.
Af þessu má ætla að þeir útlendingar sem ætla að heimsækja Ísland og fljúga með WOW eigi rétt á endurgreiðslu og geti því flogið með einhverju af þeim mörgu félögum sem eru á markaðnum komi til stöðvunar flugreksturs WOW. Vitaskuld er mjög mismunandi hvernig fólk kemur út úr því þegar flugfélag sem þeir eru í viðskiptum við stöðvast. En ef ræða á um erlend flugfélög má nefna félög eins og Delta, United og American auk Icelandair, séu farþegar að koma að vestan, en það eru betur greiðandi farþegar og því nokkuð verðmætir. Ef farþegar koma hins vegar eru frá Evrópu þá eru EasyJet, Wiss Air, Eurowings, SAS, Norwegian, Icelandair og fleiri tilbúin að flytja farþegana. Það ættu ekki að fylgja því sérstök vandræði þó vissulega sé það óþægilegt þegar flugfélag leggur upp laupana. Sama gildir um Íslendinga á faraldsfæti, þeir fá peninginn til baka og geta þess vegna flogið með áðurnefndum félögum.
Starfstækifæri í flugrekstri
Stöðvun reksturs WOW kemur auðvitað afskaplega illa við starfsmenn félagsins en hve lengi það varir er erfitt að segja. Sem stendur virðist talsvert af störfum fyrir skrifstofufólk og hugsanlega þurfa aðeins örfáir sérhæfðir starfsmenn að leita fyrir sér erlendis ef þeir fá ekki vinnu hjá öðrum flugfélögum hérlendis. Flugmenn eru gjaldgengir út um allan heim og geta fengið vinnu að hluta hjá Icelandair, Air Atlanta og víðar. Nú þegar mun nokkur hópur af flugmönnum frá Icelandair vera í leyfi og fljúga þeir víða um heim. Hefur undirritaður heyrt nefnda staði eins og Kína, Lúxembourg og jafnvel Kasakstan!
Flugfreyjur eiga erfiðara með að fá jafnvellaunuð störf í veitinga- og hótelgeiranum, en þar er hins vegar næga vinnu að fá fyrir vinnusamar hendur. Margar þeirra gætu horfið til starfa þar sem menntun þeirra nýtist betur. Nú, fyrir þær sem vilja halda áfram að starfa sem flugfreyjur þá mun félag eins og Emirates stöðugt auglýsa eftir flugfreyjum sem kunna mörg tungumál. Spurnir eru af íslenskum flugfreyjum hjá Emirates sem krossuðu við; íslensku, ensku, dönsku, norsku, sænsku, færeysku og auðvitað margar við frönsku og þýsku eftir því hvað þær lærðu í menntaskóla. Íslendingar geta flestir gert sig skiljanlega við Dani, Norðmenn, Svía og Færeyinga. Emirates mun greiða bónus fyrir hvert tungumál sem viðkomandi treystir sér til að gera sig skiljanlegan á sagði maður kunnur flugheiminum. Þar er víst ekki nauðsynlegt að vera samræðuhæfur á hverju og einu tungumáli.
Þeir fáu tæknimenn, til dæmis flugvirkjar, sem starfa hjá WOW, eiga auðvelt með að fá vinnu annarsstaðar þar sem allsstaðar vantar fólk með réttindi á Airbus vélar, gildir það jafn fyrir flugvirkja sem flugmenn. Það þarf ekki að taka fram að allt viðhald og skoðanir á flugvélum WOW fer fram hjá þjónustufyrirtækjum erlendis, sem og þjálfun flugmanna.
Stórfjárfestingar Isavia
Þá gæti verið umhugsunarvert að erlendur kostnaður WOW, til dæmis flugvélaleiga, lendingagjöld, eldsneyti og svo framvegis myndi líklega létta á íslenskum gjaldeyrismarkaði hverfi hann. Það eru ansi margar milljónir dollara sem fara í taprekstur og vöxt WOW um þessar mundir. Mikið hefur verið fjallað um áformaðar stórfjárfestingar Isavia í Keflavík sem eru að mestu leyti vegna þessa „trans-Atlantic“ farþega sem WOW er að flytja yfir hafið á verði sem virðist undir kostnaði.
En munu útflutningstekjur Íslands minnka ef ekki nýtur við WOW. Jú, að einhverju leyti en hvernig lítur dæmið út reiknað til enda? Það getur einnig sparast gjaldeyrir og kostnaður sem í einhverjum tilfellum færist yfir á erlend flugfélög. Felur það í sér gjaldeyrissparnað að dagleg eldsneytiskaup WOW hætti? Jú, þetta eldsneyti þarf að flytja inn þannig að breyting þar getur leitt til minni innkaupa eðli málsins samkvæmt.
Vissulega ber að fagna samkeppni en eins og stendur virðast íslensku flugfélögin vera að kroppa augun úr hvort öðru og það verða neytendur sem gjalda fyrir það á endanum. Flest bendir til þess að frá Evrópu og Bandaríkjunum sé verðsamkeppni sem áfram ætti að tryggja farþegum frá Íslandi raunhæft verð, nú ef ekki hættir fólk væntanlega að ferðast nema brýn nauðsyn kalli á það!
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.