c

Pistlar:

18. október 2018 kl. 20:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ítalska skuldafangelsið

Hægt er að segja að ný fjárlög ítölsku ríkisstjórnarinnar hefi lent með hvelli á borðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. Ný ríkisstjórn Ítalíu hefur hent út fyrri loforðum til handa ESB um að draga úr fjárlagahallanum. Þess í stað hyggst ríkisstjórn Guiseppe Conte, sem samanstendur af popúlískum flokkum hægra megin við miðju og Fimm stjörnu flokknum, (i.Movimento 5 Stelle (M5S), hækka útgjöld og segir einfaldlega að það sé nauðsynlegt til að örva vöxt á Ítalíu. M5S hefur leint og ljóst barist fyrir því að slíta evrusamstarfinu.

Áætlunin gerir ráð fyrir 2,4 prósenta fjárlagahalla árið 2019 sem er meiri en Brussel vill - þó hann sé lægri en í Frakklandi, Spáni, Japan, nú eða Bandaríkjunum. Hallinn er einnig um það bil helmingur af því sem hagfræðingar sögðu að upphaflegur kostnaður við útgjöld stjórnvalda myndi nema. Gagnrýnendur segja að slíkur halli á ríkisfjármálum, á sama tíma og hagvöxtur er lítill og vextir af skuldum eru háir og hækkandi, geti gengið frá skuldbindingum landsins.

Flestir hagfræðingar telja að ítalski fjárlagahallinn muni verða meiri en 2,4% einfaldlega vegna þess að stjórnin vanmeti kostnaðinn við ýmsar framkvæmdir sem þar er að finna. Fjármálamarkaðir hafa tekið þessum áætlunum af varúð og hugsanlega mun Brussel biðja um endurskoðun á þeim. Breska viðskiptablaðið Financial Times segir að sé horft til sögu ríkisfjármála á Ítalíu megi setja fram varnaðarorð og ástæða sé til að óttast um sjálfbærni þessa stærsta skuldara evrusvæðisins, (sé horft til opinberar skulda sem hlutfall af landsframleiðslu en skuldin nemur nú um 132%) eins og sést í meðfylgjandi mynd.italia skuldir

Ítalir ekki verstir

En þó svo hátti til að þetta hlutfall sé hátt þá verður að horfa á ríkisfjármál Ítalíu með sanngirni. Ný ríkisstjórn er að reyna að ná einhverju jafnvægi milli skattekna og útgjalda. Vandinn er að þó að daglegur rekstrarkostnaður sé ásættanlegur samkvæmt frumvarpinu þá er skuldabyrðin mikil. Sem er undarlegt þar sem Ítalía hefur verið rekin með afgang á fjárlögum allt síðan 1992. Að því leyti má segja að fjármálastöðugleiki á Ítalíu hafi verið heilbrigðari en að meðaltali innan OECD á undanförnum 26 árum og árið 2012 var Ítalía eitt af níu löndum sem höfðu afgang af A-hluta ríkissjóðs, þann þriðja stærsta meðal 35 OECD ríkja. Á rekstrargrunni er staðan verri en þar hefur ríkissjóður Ítala ekki verðið gerður upp jákvæður síðan á sjötta áratug síðustu aldar, þrátt fyrir umbætur 2009.

Vandinn er að bankakerfi Ítalíu er illa veiklað eins og var rakið hér á síðasta ári, þar hefur ekki verið gerð tiltekt í lánasafni og bankarnir njóta ekki trausts. Fólk fer með fjármuni úr landi og bankarnir geta ekki veitt ný lán, hanga á þeim gömlu í von um að eitthvað innheimtist. Þetta ásamt ofurskuldsettum ríkissjóði og óraunhæfum væntingum þjóðarinnar í lífeyrismálum stuðlar öðru fremur að þeim erfiðleikum sem Ítalir þurfa að fást við. Skipting hagkerfisins milli norðurs og suðurs bætir ekki úr og landlæg spilling í suðrinu hefur sitt að segja en þar er mafían sterkust eins og undirritaður vakti athygli á í þessum pistli. 75% af landsframleiðslunni á sér stað fyrir norðan Róm.

Stöðnun ríkt

Giovanni Tria, fjármálaráðherra Ítalíu, segir að útgjaldasækið frumvarp væri forsenda þess að takast á við efnahagssamdrátt sem er framundan. Samdrátt sem Ítalir meiga illa við þar sem stöðnun hefur ríkt á meðal þar í allmörg ár. Stöðnun sem hefur verið borin upp á Brusselvaldið en Ítalía er næst skuldugasta ríkið innan evrusvæðisins og fimmti stærsti skuldari á heimsvísu.

Þegar á allt þetta er litið er kannski ekki undarlegt að einungis 44 prósent Ítala myndu samþykkja áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu ef efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið samkvæmt nýrri könnun þar um. Nærri þriðjungur er þó óákveðinn. Hlutfall þerra sem vilji áfram vera í Evrópusambandinu er hvergi lægra en á Ítalíu, en meðaltalið í aðildarríkjum ESB er um 66 prósent.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.