Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði eitt sinn að íslenska hagkerfið væri eitt það sveigjanlegasta í heimi. Nú er margt sem bendir til þess að það reyni á þann sveigjanleika. Undanfarið höfum við séð að pólitísk óvissa hefur aukist í íslensku samfélagi og það sem einu sinni voru talin sósíalísk jaðarviðhorf eru að færast inn í meginstraum verkalýðs- og launabaráttu á Íslandi. Umræðan hefur orðið harðari og slagorðakenndari og við sjáum ýmsa takta sem þekktir eru úr ömurlegri sögu sósíalismans. Litlu skiptir þó dæmin séu mörg um skipbrot þeirrar stefnu og mörg nýleg eins og við sjáum af afdrifum þjóðfélaga eins og Venesúela, Níkaragva, Zimbabwe, Norður-Kóreu eða Kúbu og eru þá fáein upptalin. Uppgangur hægri mannsins Jair Bolsonaro í Brasilíu skýrist af einföldum samanburði við hrun samfélagsins í Venesúela. Það er nóg fyrir Jair Bolsonaro að segja Venesúela og sósíalismi og kjósendur þyrpast til hans. Almenningur í Brasilíu óttast fátt meira en að lenda í þeim hörmungum sem nágranar þeirra eru nú að upplifa og hefur verið rakið hér í nokkrum pistlum. Þetta virðist þó fara framhjá fréttaskýrendum Ríkissjónvarpsins. Rétt er að geta þess að þeir sem nefna Venesúela geta gengið að því vísu að vera hent út af spjallhópi sósíalista hér á Íslandi. Svo mikil er virðing þeirra fyrir lýðræðislegri umræðu.
Umsnúningur umræðunnar
Það er einnig forvitnilegt að sjá innlegg þessa nýja fólks til þjóðfélagsumræðunnar. Hún birtist í tali um við og okkur, þeir sem orða hlutina ekki eins og við erum óvinir (stéttaóvinir!). Meira að segja blaðamenn sitja undir áður óþekktum árásum, einfaldlega fyrir það hvernig þeir skrifa í skoðanadálka. Veist er að þeim með heldur óskemmtilegum hætti. Þannig er umræðan rekin á jaðri ógnar og ófyrirleitni. Viðurkenndum tölulegum upplýsingum er hafnað og skiptir engu þó að þær komi frá stofnunum sem hafa áratuga reynslu af því að þróa samanburðarhæfa tölfræði. Í staðinn er kastað fram tölum sem hafa engin tengsl við veruleikann, hið ódæmigerða verður að hinu dæmigerða og einstök atvik túlkuð sem þróun.
Handstýring hagkerfisins virkar ekki
Öll þessi sósíalísku samfélög sem nefnd voru hér fyrr eru áminning um að hagkerfi eru háskaleg. Um leið og menn reyna að handstýra grunnþáttum hagkerfisins þá truflast hin sjálfvirku lögmál og skilaboðin komast ekki áleiðis. Þegar markaðurinn getur ekki flutt skilaboð, leiðrétt eða veitt nýja samkeppni hefst stöðnun og að lokum afturför. Þá kemur í ljós að hefja þarf tilflutning gæða milli þjóðfélagshópa til að standa við stóryrði hinna sósíalísku leiðtoga og hagkerfið snýst fljótt gegn þeim. Fjárfestingar hverfa og framleiðni í kjölfarið, framleiðslutækin eru í höndum hins sósíalísku herra sem fyrirlíta markaðinn. Neytandinn er eingöngu viðurkenndur sem borgari í hinu sósíalíska ríki og hefur enga heimild til að fá þær vörur sem hann óskar eftir. Í slíku ríki er eftirlitskerfið aldrei nógu stórt. Nú þegar sjáum við endalausar óskir um að stækka eftirlitsiðnaðinn og í sósíalískum ríkjum endar hann á að hafa eftirlit með fólki. Um leið er rekin harður áróður gegn eignarréttinum með klisjur frá Karli Marx á hraðbergi.
Horft framhjá árangri
Undarlegt er að þessi umræða kemur í kjölfar þess að umtalsverður árangur hefur náðst við að efla og treysta kaupmátt almennings um leið og ríkissjóður er nú komin aðstöðu til þess að treysta böndin í samfélaginu. Svigrúmið sem ríkissjóður hefur næstu misseri byggist á lækkun skulda og lægri vaxtagreiðslum. Til að skilja mikilvægi þess getum við tekið sem dæmi mann sem rekur sig á 20% yfirdrætti. Það þýðir að hann tapar öllum tekjum sínum fimmta hvert ár. Miðað við skuldastöðu ríkissjóðs árið 2013 var ríkið að tapa áttunda hverju ári í vaxtagreiðslur. Það segir sig sjálft hversu gríðarleg tækifæri felast í því að hafa náð að breyta þessu um leið og betri staða hefur fært íslenska ríkinu betri lánskjör en það hefur nokkru sinni haft áður. Þeir fjármunir sem sparast nýtast til velferðarmála og uppbyggingar í samfélaginu.Það er verkefnið framundan að halda ofan að reka skynsama hagstjórn og efla og styrkja samfélagið allt.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.