Heilbrigðisráðherra hefur boðað til heilbrigðisþings á Grand hóteli á föstudaginn þar sem drög að nýrri heilbrigðisstefnu verða kynnt og rædd. Sérfræðilæknar fengu kynningu á drögunum í síðustu viku en samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag er ekki gert ráð fyrir heilbrigðisþjónustu utan ríkisstofnana í drögum sem eiga að gilda til ársins 2030.
Það er merkilegt til þess að hugsa að heilbrigðisráðherra treysti sér til að skilja útundan þá sem sinna þriðjungi heilbrigðisþjónustunnar og það fyrir broti af kostnaðinum við opinbera kerfið. Þetta er auðvitað ekkert annað en pólitískur einstrengingsháttur og virðingaleysi fyrir þeim fjármunum sem í gegnum kerfið fara. Margt í heilbrigðiskerfinu veldur furðu og stefnumörkunin virðist vera í skötulíki. Nú er að hefjast bygging við nýjan Landspítala og allir vita að hann er líklega byggður 15 árum of seint og á röngum stað! Hugsanlega tekur hann ekki einu sinni mið af breytingum í heilbrigðisþjónustu og nýjum þörfum. Með breyttri þekkingu og tækni er margt sem bendir til þess að heilbrigðisþjónustan verið sérhæfðari og afmarkaðri. Þannig verði jafn vel til fjöldi smárra sjúkrahúsa sem sinni tiltekinni tegund af þjónustu. Í miðjunni gæti síðan verið bráðastofnun sem tekur á þyngstu tilfellunum. Helsti vandi Landspítalans er fráflæðisvandi sem byggist meðal annars á því að fólk, sem ekki á að vera þar, ílengist vegna skorts á öðrum úrræðum, úrræðum sem einkarekstur getur séð um.
Á Landspítalinn að reka hótel?
Nýjasta dæmið um furðulega stefnumörkun birtist í byggingu nýs sjúkrahótelsins við Landspítalann en um verklok ríkir óvissa. Hótelið virðist ætla að kosta ríflega tvo milljarða króna. Er fjármunum vel varið með því að byggja hótel á á þessum stað þegar virðist stefna í nægt framboð á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu? Fram til þessa hefur verið hægt að sinna þessari þjónustu með samningum við einkaaðila. Er nauðsynlegt að forstjóri Landspítalans fái líka að vera hótelstjóri? Og taka tvo milljarða til þess. Það þarf heldur ekki að taka fram að framkvæmdinni hefur seinkað mikið og kostnaður farið rækilega fram úr áætlun. Margvíslegar furðusögur af framkvæmdinni heyrast meðal iðnaðarmanna. Landspítalinn hefur upplýst að hann muni ekki bjóða út rekstur hússins heldur sjá sjálfur um hjúkrunarþjónustuna. Þegar maður síðan las að ekki yrðu keypt hjúkrunarrúm heldur venjuleg hótelrúm í húsið þá spyr maður; er þetta skynsamleg áhersla?
Einokun HÍ á að mennta lækna rofin
Önnur frétt í Morgunblaðinu í dag um heilbrigðiskerfið vekur ekki síður áhuga. Þar er sagt frá mikilli fjölgun læknanema og lækna í framhaldi þess. Sérlega ánægjuleg tíðindi. Bent er á í fréttinni að áður hafi verið fjöldatakmörkun (Numerus Clausus) við læknadeildina. Var þá öllum sem uppfylltu tiltekin skilyrði frjálst að hefja námið en í lok haustannar var hluti nemenda sigtaður út. Lengi vel voru 36 nemar teknir inn í námið en síðasta árið, 2002, voru þeir 48. Þessi fjöldatakmörkun hafði á sér ýmsar heldur óskemmtilegar hliðar. Til dæmis hlýtur að telja stórfurðulegt að fólk, sem nær fyrstu einkunn, skuli ekki komast áfram. Bent er á í fréttinni að um áramótin 2001-2002 hafi síðasti nemandinn sem komst áfram verið 8,24 í meðaleinkunn. Augljóslega voru góðir nemendur, sem hefðu getað orðið hæfir læknar, skildir eftir. Ruglið gekk svo langt í tannlæknadeildinni að nemendur voru látnir varpa hlutkesti um sæti til að komast áfram af því þeir voru jafnir að einkunn. Siðlaus gerningur með öllu.
En nú er einokun Háskóla Íslands á að mennta lækna rofin og vonandi að það leiði smá saman til fjölgunar þeirra. Það sýnir glögglega gildi samkeppni.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.