Flestum má vera ljóst að brýnt er að taka rösklega til hendinni við framleiðslu á plöntum til að hægt verði að gróðursetja í samræmi við markmið sem stjórnvöld hafa kynnt um aukna skógrækt til að auka kolefnisbindingu. Í frétt í Morgunblaðinu í vikunni kom fram að í ár er framleiðslan svipuð og hún var um 1990, en markmiðið er að fjórfalda gróðursetningu skógarplantna á næstu fimm árum. Til að ná sem fyrst árangri í bindingu kolefnis með skógrækt þarf að gróðursetja sem fyrst því trén fara ekki að binda kolefni að gagni fyrr eftir 10-12 ár þegar þau eru vaxin úr grasi.
Hér hefur á þessum vettvangi margoft verið bent á að stækkun skóga á Íslandi og önnur uppgræðsluverkefni eru hagkvæmustu og fljótvirkustu leiðirnar til að vinna gegn kolefnisútblæstri á Íslandi. „Skítaredding,” segja sumir en það er auðvitað ekki rétt. Þetta er mikilvæg leið til þess að skapa nýtt jafnvægi í vistkerfinu og vinna gegn loftslagsbreytingum. Út um allan heim eru þjóðir að átta sig á þessu og í ljósi þess að Ísland er að mörgu leyti gróðurvana og skógar ekki nema um 2% af flatarmálinu þá eru mikil tækifæri fyrir hendi. Um allan heim eru þjóðir að setja í gang metnaðarfull verkefni í þeim tilgangi að endurheimta skóga og styrkja gróðurlendi í þeim tilgangi að vinna gegn loftslagsbreytingum. Dugar kannski ekki eitt og sér en getur haft mikil áhrif.
Mikil áhugi á skógrækt
Á Íslandi má víða finna mikinn áhuga á skógrækt og þekking er orðin góð á því sviði. Í frétt Morgunblaðsins rifjar Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, upp að á árunum upp úr 1990 hafi mikill hugur verið í skógræktarfólki hér á landi. Landgræðsluskógar voru ný grein skógræktar og héraðsskógar voru að fara af stað, en það verkefni er nú skilgreint sem skógrækt á lögbýlum. Víða var unnið að skógrækt og í nokkur ár voru gróðursettar um milljón plöntur árlega á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur með tilstyrk borgarinnar. Upp úr hruni fór að halla undan fæti og smám saman dró úr fjármagni til skógræktar. Nú eru framleiddar um þrjár milljónir skógarplantna á ári en skógræktarstjóri vonast til þess að framleiðslan fari upp í tólf milljónir plantna á ári í lok þessa fimm ára tímabils. Það er einnig brýnt að efla skógrækt í borginni en tré eru besta vörnin gegn svifryki.
Aukin kolefnisbinding
Á fundi 10. september í haust kynntu sjö ráðherrar ríkisstjórnarinnar viðamikla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið sín í loftslagsmálum. Alls verður tæplega 7 milljörðum króna varið til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum á næstu fimm árum, sem er stórfelld aukning frá því sem verið hefur. Til samanburðar má nefna að það á að verja 4 milljörðum króna til að bæta húskost íslenskufólks við Háskóla Íslands.
Megináherslurnar eru tvær; orkuskipti, þar sem sérstaklega er horft til hraðrar rafvæðingar samgangna og átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki, auk þess sem markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.
Gert er ráð fyrir að hægt verði að auka gróðursetningu um milljón plöntur á næsta ári. Þegar hefur verið lögð drög að aukinni plöntuframleiðslu. Fjármagnið á síðan að aukast hratt og verður mest 2023, en ráðstöfun þess er m.a. til umræðu hjá Skógræktinni og Landgræðslunni í samvinnu við ráðuneyti. Þetta er góð byrjun en ástæða til að huga að enn meira fjármagni í þessar aðgerðir þegar frammí sækir. Það er miklu betri aðferð en að greiða sektir vegna þess að við getum ekki staðið við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.