c

Pistlar:

14. nóvember 2018 kl. 14:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hnignun ítalska hagkerfisins

Ítalía er fjórða stærsta hagkerfi Evrópusambandsins og færist upp í þriðja sæti við útgöngu Breta á næsta ári. Ítalir hafa lengstum verið til þess að gera þægir meðlimir þó að tilteknir flokkar þar í landi hafi vissulega daðrað við útgöngu og notið nokkurs fylgis. Nú virðist hins vegar hafa færst aukin alvara í slíkar umræðu og núverandi ríkisstjórn hefur innan sinna raða fólk sem hefur áhuga á að segja skilið við Evrópusambandið eða í það minnsta fá í gegn ýmsar breytingar. Nýjustu fjárlög ríkisstjórnarinnar endurspegla það en ríkisstjórnin hyggst fara gegn stefnu ESB í ríkisfjármálum og vil loka fjárlögum með 2,4% halla eins og áður hefur verið bent á hérna. Brussel-valdið segir nei og hefur gert fjárlögin afturreka en ítalska stjórnin segir einfaldlega að hún verði að fá svigrúm til að nota ríkisfjármálin til að örva efnahag landsins. Og þó flestir styðji skynsöm ríkisfjármál þá má hafa nokkra samúð með sjónarmiði Ítala.

Landsframleiðslan undir því sem hún var fyrir hrun

Staðreyndin er sú að ítalskur efnahagur er í kreppu. Kannski ekki eins alvarlegri og þeirri sem Grikkir hafa mát þola þar sem samfélagið var nánast rifið í sundur til þess að reyna að koma hagkerfinu í gang og standa við skuldbindingar. Grikkir hafa átt erfitt samstarf við evruna og það sama má segja um Ítali en þar er landsframleiðsla enn 5% undir því sem hún var fyrir bankakreppuna fyrir 10 árum síðan. Aðeins Grikkir eru verr settir en þetta eru einu löndin innan ESB sem ekki hafa náð fyrri stöðu.

Pistlaskrifari var í sinni annarri heimsókn á árinu til Ítalíu fyrir stuttu. Dvalið var í Piedmont, einu af héruðum Norður-Ítalíu þar sem vínræktin er í miklum blóma. Við heimsóttum einmitt vínbúgarð þar sem var rekið sem fjölskyldubú. Tveir bræður voru teknir við búskapnum og voru að reyna að nútímavæða hann. En það er erfitt að ráðast í fjárfestingar á Ítalíu. Bankakerfið er illa laskað, fullt af vondum lánum fortíðarinnar og það nýtur ekki trausts. Þeir sem eiga fjármuni á lausu á Ítalíu hafa flutt þá norður til Sviss eða jafnvel enn norðar til þess að innistæðurnar séu vel varðar. Fyrir vikið er þröngt um lán og var okkur tjáð að helst væri hægt að leita til ættingja eða vina en fjárfestingin sem hér um ræðir nam um 300.000 evrum yfir þriggja ára skeið eða jafngildi 42 milljóna króna. Augljóst var að fjárfestingin var nauðsynleg svo víngerðin gæti þrifist. Og eftir að hafa smakkað vínin þá vonar maður auðvitað að allt gangi vel.

Smáfyrirtækin í vanda

Ítalskt atvinnulíf byggist einmitt mjög á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, oft í eigu fjölskyldu en um 95% af ítölskum fyrirtækjum hafa færri en 10 starfsmenn. Þessi fyrirtæki hafa átt í erfiðleikum með að fjárfesta og eru fyrir vikið að dragast afturúr þegar kemur að framleiðni og hagkvæmni. Á áttund og níunda áratugnum stóð þessi iðnaður í blóma en virðist ekki hafa náð sér á strik og það þrátt fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar. Þvert á móti virðist draga úr framleiðni á Ítalíu og samkeppnishæfni er þar af leiðandi að versna eins og var rakið í nýlegri úttekt Financial Times. En harðnar á dalnum og þau fyrirtæki sem voru í góðum málum fyrir nokkrum árum sýna nú merki minni framleiðni. Staðreyndin er sú að þegar horft er til þjóðartekna á mann þá hefur evran reynst Ítölum erfið. Sé leiðrétt fyrir verðbólgu þá hefur landsframleiðsla á mann dregist saman síðan þeir tóku upp evru 1. janúar árið 1999. Þessi staðreynd er vatn á millu aðskilnaðarsinna á Ítalíu sem hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarið ár. Hvernig fjárlagadeilan endar getur haft áhrif á andrúmsloftið en ítalskur almenningur er orðin þreyttur á stöðnun og afturför undanfarinna áratuga.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.