c

Pistlar:

28. nóvember 2018 kl. 21:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sundabraut í sjónmáli?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í Víglínunni á Stöð 2 síðasta laugardag að framkvæmdir muni hefjast við Sundabraut innan þriggja ára, gangi áætlanir eftir. Mörgum kann að þykja það orðið löngu tímabært en hætt er við að þessi áform strandi á stjórnendum Reykjavíkurborgar sem hafa markvisst ýtt hugmyndinni um Sundabraut frá sér og jafnvel unnið gegn henni. Hér hefur aftur og aftur verið bent á hve mikilvæg samgöngubót Sundabraut er og ekki síður hvaða jákvæð áhrif hún getur haft á byggðaþróun í kringum höfuðborgina. Ef vel tekst til getur Sundabraut orðið mikil lyftistöng fyrir uppbyggingu meðfram vegastæðinu.

Gert hefur verið ráð fyrir Sundabraut í aðalskipulagsuppdráttum Reykjavíkur frá árinu 1975. Lagning Sundabrautar var talin ein megin forsendan fyrir byggð í Grafarvogi þegar uppbygging hófst þar á fyrri helmingi níunda áratugarins. Sömuleiðis var Sundabraut ein meginforsendan fyrir sameiningu Reykjavíkur og Kjalarneshrepps á sínum tíma þannig að kjósendur hafa mátt gera ráð fyrir henni æði lengi. Flest bendir til þess að arðsemi af Sundabraut verði mikil. Brautin yrði mikilvæg tenging við Grafarvog, eitt fjölmennasta hverfi borgarinnar, við iðnaðarsvæðið á Esjumelum og mikilvægt öryggisatriði ef kæmi til þess að rýma þyrfti stóran hluta borgarinnar á skömmum tíma eins og bent var á í tillögu Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var í borgarstjórn í mars 2017. Hér fylgir mynd sem sýnir hvernig Sundabraut gæti legið yfir Álfsnes, Gunnunes og Geldinganes.sundab

Fjármögnuð með veggjöldum?

Í raun deilir engin um að Sundabraut er mikilvæg lausn á þeim samgönguvanda sem við blasir á höfuðborgarsvæðinu. Um Ártúnsbrekku fara daglega nálægt 100.000 farartæki og erfitt er að bæta flæðið svo neinu nemi. Í grein á síðasta ári sagði þáverandi samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, að Sundabraut muni líklega létta á þeirri umferð um allt að 30.000 ökutæki á dag, jafnvel meira. Af öryggisástæðum einum ætti að ráðast í lagningu brautarinnar. Það er óviðunandi að það sé aðeins ein leið út úr borginni til vesturs og norðurs.

Ljóst er að undanfarið hafa menn verið að skoða möguleika á veggjöldum hér á landi, meðal annars í tengslum við fjölgun rafbíla sem ekki greiða eldsneytisskatta. Framkvæmd eins og Sundabraut hentar fullkomlega fyrir veggjöld. Engin hörgull ætti að verða á fjárfestum í verkefnið, hugsanlega mætti tengja framkvæmdina alla við tvöföldun Hvalfjarðarganga. Þessi framkvæmd öll ætti að vera möguleg án þess að ráðast í allsherjar uppstokkun á Vegaáætlun.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.