c

Pistlar:

8. desember 2018 kl. 16:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skatthlufallið hækkar

Morgunblaðið vakti athygli á því í vikunni að skatt­ar á Íslandi sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu hafa hækkað milli ára. Í nýj­um töl­um Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar í Par­ís, OECD, kem­ur fram að hlut­fall skatta af lands­fram­leiðslu á Íslandi var 37,7% árið 2017, og hækkaði um 1,3 prósentustig. Ísland er í 13. sæti af 36 OECD-ríkj­um og hækkar á listanum á milli ára.

Þegar horft er yfir árabil sést að skattahlutfallið sveifl­ast mun meira á Íslandi en í öðrum OECD-ríkj­un­um. Á ár­un­um 2002 til 2006 fór það stig­hækk­andi en lækkaði svo í 31,9% árið 2009. Eft­ir það hækkaði það á ný og varð hæst 38,6 árið 2014. Þá lækkaði hlut­fallið á ný og fór niður í 36,4% árið 2016. Það hækkaði svo á ný í fyrra. Þetta þarf ekki að koma á óvart, þar sem meiri sveiflur eru í landsframleiðslu hér en í stærri ríkjum.skatthlutf

Skattar hækka allstaðar

Meðaltal skatta sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu í OECD-ríkj­un­um var 34,2% í fyrra og hafði hækkað um 0,2% frá fyrra ári að því er fram kem­ur fram í frétt Morgunblaðsins. Hlut­fallið var hæst í Frakklandi, eða 46,2%. Næst kom Dan­mörk en þar var hlut­fallið 46%. Höfðu þessi tvö lönd sæta­skipti á list­an­um frá því árið 2016. Hlut­fallið í Svíþjóð reynd­ist vera 44% í fyrra og í Nor­egi var það 38,2%.

Í sam­an­tekt OECD kem­ur fram að meðaltalið í OECD-ríkj­un­um sé nú hærra en nokkru sinni fyrr. Áður hafði meðaltalið hæst farið árin 2000, 33,8%, og 2007 þegar það var 33,6%. Hlut­fallið hækkaði í 19 af þeim 34 lönd­um sem skiluðu inn bráðabirgðagögn­um fyr­ir árið 2017 en lækkaði í hinum 15 lönd­un­um.

Skattar fjármagna samneysluna og á þeim byggist tekjuöflun ríkisins. Afstaða til skatta getur verið breytileg frá einu þjóðfélagi til annars og frá einum tíma til annars. Vel skipulögð samfélög hafa vel uppbyggt skattkerfi sem tryggir að allir borga skatta. Í öðrum löndum getur verið gríðarlegur misbrestur á þessu, svo mjög að það mótar samfélagið. Í sumum samfélögum finnst fólki að það fái ekki þá þjónustu sem ætti að fást fyrir skattana. Í Argentínu er það tilfinning fólks að það borgi fyrsta heims skatta en fái þriðja heims þjónustu. Uppreisn Gulu vestanna í Frakklandi núna gengur meðal annars út á að breyta þessu en þar virðast vera alvarlegir brestir í samfélaginu þrátt fyrir að skattheimtan sé mest þar eins og kemur fram í tölum OECD. Gulu vestin vilja þannig lækka skatta en veita miklu meiri þjónustu hvernig sem þeir telja að það gangi upp.

Fjáraukinn og bókhaldsæfingar

Á sama tíma birtist frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2018 sem segir okkur að útgjöld ríkisins til málefnasviða og málaflokka verða auknar um samtals 57 milljarða króna. Í greinargerð segir að í gildandi fjárlögum hafi brúttó fjárheimildir verið samanlagt um 820 milljarðar króna þannig að frávikið í fjáraukalögum samsvari tæplega 7 prósent. Háar upphæðir en hér verður að horfa til þess að þegar tæknilegar breytingar og framsetningarbreytingum eru undanskildar þá nemur hækkun fjárheimilda vegna annarra útgjaldamála ráðneyta 8,6 milljörðum króna eða sem nemur 1% af heildarfjárheimild fjárlaga 2018. Innifalið í þeim breytingum eru breytingar vegna yfirtöku á lífeyrisskuldbindingum sem nema 3,2 milljörðum króna. Séu þær undanskildar nemur frávik í hefðbundnum rekstri ríkissjóðs í fjáraukalögum 0,7%. Stærstu útgjaldamálin í frumvarpinu að öðru leyti er aukning útgjalda vegna fæðingarorlofsgreiðslna á yfirstandandi ári, framlög til Þjóðkirkjunnar vegna kirkjujarðasamkomulagsins svokallaða og aukinn kostnaður vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Meiri stöðugleiki?

Fjáraukin er í sjálfu sér ekki vandamál að þessu sinni og hann er vísbending um að meiri stöðugleiki er hjá ríkissjóði en oft áður. En hann minnir okkur líka á að útgjöldin hafa alltaf tilhneigingu til að vaxa og sumir þeirra liða sem þarf að styrkja sérstaklega með fjáraukalögum núna voru ekki til fyrir nokkrum árum. Þannig er íslenska ríkið farið að verja hátt í fjórum milljörðum á ári til hælisleitenda og flóttamana. Það er nýr og vaxandi liður á útgjaldahliðinni. Sýnir hvernig nýr armur getur vaxið á velferðarkerfið í einni andrá.

Það er alla jafnan ekki mikil umræða um hve hátt hlutfall skatta eigi að vera. Batnar þjónusta hins opinberra sjálfkrafa með hærri sköttum eða er það bara táknrænt fyrir auknar þarfir og ónóga fjármálastjórn? Ég mun víkja að þessu nánar í næsta pistli.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.