Í ritstjórnarpistli í Morgunblaðinu í dag er spurt hvar talsmenn skattgreiðenda í hópi þingmanna hafi verið undanfarið? Hvers vegna heyrist svo sjaldan og lítið í þeim? Þetta á svo sem ekki bara við um Alþingi, það er eins og raddir þeirra sem vilja tala fyrir aðhaldssemi í opinberum rekstri og hófsemd í skattamálum séu ekki virtir mikils dagsdaglega. Hvað þá þeirra sem tala fyrir skattalækkunum. Hverju sætir, eru sjónarmið hófsemdar í skattlagningu talin svo fráleit að þau megi ekki heyrast? Það er kannski skiljanlegt að þannig séu viðhorf hjá Ríkisútvarpinu sem leynt og ljóst boðar stórt ríkisvald og mikla skattheimtu. Og skiptir þá engu hlutlægnissjónarmið sem einhversstaðar eru grafin í lögum og reglum um stofnunina. En aðrir fjölmiðlar? Hvaða afsakanir hafa þeir?
Vantar útgjaldareglur
Nýlega voru afgreidd fjárlög næsta árs og þó margt sé jákvætt við þau þá er eins og áfram sé sjálfvirk útgjaldaaukning á mörgum sviðum. 43 umsagnir bárust Alþingi vegna fjárlagafrumvarpsins. Allar nema umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins snérust um að auka útgjöld á einn eða annan hátt. Viðskiptaráð leggur áherslu á að í opinberum fjármálum sé skattheimta sem hagkvæmust, haldið sé aftur af útgjaldaaukningu, nýting fjármuna sé sem best og að einkaframtakið fái að njóta sýn þar sem það á við. Samtök atvinnulífsins hvetja stjórnvöld til að taka upp útgjaldareglu sem setur vexti útgjalda þrengri skorður.
Samtök iðnaðarins lýsa yfir vonbrigðum með að í fjárlagafrumvarpinu skuli ekki vera gert ráð fyrir meiri lækkun tryggingagjalds en raun ber vitni. Reiknað er með að gjaldið skili ríflega 100,8 milljörðum króna á næsta ári sem er tæplega 3,5 milljörðum krónum meira en á þessu ári. Tryggingagjaldið mun því þrátt fyrir boðaða 0,25 prósentustiga lækkun skila ríkissjóði meiri tekjum á næsta ári en á þessu ári. Hér fylgir mynd sem sýnir skiptingu útgjalda ríkissjóðs.
Útgjöld aukast um milljarð á viku
Samtök atvinnulífsins (SA) bentu á í umsögn sinni að miðað við frumvarpið munu ríkisútgjöld aukast um 57 milljarða króna á árinu 2019, eða um rúmlega einn milljarð króna á viku. Ríkisútgjöld á hvern Íslending hafa aldrei verið meiri, mælt á föstu verðlagi, og eru opinber umsvif ein þau mestu meðal þróaðra ríkja. Af hverjum 100 krónum sem verða til í hagkerfinu er 38 krónum ráðstafað af hinu opinbera og ljóst að vandinn í opinberum rekstri liggur í skorti á forgangsröðun en ekki á fjármagni. Í fjárlagafrumvarpinu er fyrst og fremst lögð áhersla á aukningu útgjalda. Það er ekki góð stefna. Eftir mikla útgjaldaþenslu undanfarinna ára er fremur þörf á forgangsröðun, þ.e. að fjármunir séu fluttir milli málaflokka í stað þess að auka útgjöld til þeirra allra.
Skatttekjur á einstakling slá ný met
Tekjur ríkissjóðs hafa aukist mikið undanfarin ár. Skatttekjur á hvern Íslending munu slá fyrri met á næsta ári. Skattahækkanir fyrri ára standa að mestu óhreyfðar og aðrir skattar hafa bæst við. Að mati Samtaka atvinnulífsins munu skattahækkanir síðustu ára skila ríkissjóði rúmlega 100 milljörðum króna árlega í viðbótartekjur. Það jafngildir heildarframlagi ríkisins til sjúkrahúsaþjónustu. Samtökin telja að fyrirhuguð lækkun tryggingagjalds sé fagnaðarefni en aðeins dropi í hafið. Fjárlagafrumvarpið tryggi að Ísland verður eftir sem áður háskattaríki í alþjóðlegum samanburði og telja Samtök iðnaðarins að ætti að vera forgangsmál að draga til baka þær skattahækkanir sem gripið var til í kjölfar bankahrunsins.
Í síðasta pistli var bent á að skattar á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu hafa hækkað milli ára. Í nýjum tölum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, OECD, kemur fram að hlutfall skatta af landsframleiðslu á Íslandi var 37,7% árið 2017, og hækkaði um 1,3 prósentustig. Ísland er í 13. sæti af 36 OECD-ríkjum og hækkar á listanum á milli ára. Flestar skattprósentur eru hærri í dag en árið 2008. Nýjum sköttum hefur einnig verið bætt við. Það er því fráleitt að tala um skattalækanir á Íslandi í dag þó vissulega hafi margt jákvætt sést í fjárlögum undanfarinna ára.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.