c

Pistlar:

19. desember 2018 kl. 22:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Salernisvæðing ensku knattspyrnunnar!

Enska knattspyrnan á óvenju sterk ítök hér á landi og varla finnst sá íslenskur knattspyrnuáhugamaður sem ekki á sér uppáhaldslið þar. Þessi áhugi verður oft til á unga aldri og þá getur ráðið úrslitum hvernig gengur hjá viðkomandi liði. Þannig eiga lið eins og Derby, Wolverhampton Wanderers og Leeds stuðningsmenn í hópi sem er nú að skríða yfir á sjötugsaldurinn en þessi lið áttu öll velgengni að fagna upp úr 1970. Síðan hefur gengi þeirra verið upp og ofan og þau áunnið sér fáa nýja fylgjendur. Þetta ætti pistlaskrifari að vita, en einhverra hluta vegna dró ég Leeds úr hattinum í æsku og hef auðvitað haldið með þeim síðan. Þeir hafa ekki átt mikilli velgengni að fagna síðan þeir seldu Eric Cantona til Manchester United á sínum tíma. Svo skemmtilega vill til að Leeds er nú efst í næst efstu deild í Englandi og lifnar heldur yfir gömlum stuðningsmönnum. Það er reyndar merkileg upplifun að fara til Leeds og heimsækja hinn fornfræga völl Elland Road. Þrátt fyrir að vera fornt stórveldi með stóran stuðningsmannahóp þá hefur fjárhagsstaða liðsins ekki verið upp á marga fiska síðustu áratugi. Það sést þegar heimavöllurinn er skoðaður og heldur þótti salernisaðstaðan fornfáleg. En það er einmitt þar sem fyrsti vísirinn að breytingum varð í ensku knattspyrnunni.leicester-city-premier-league-champions-2015-2016-trophy-lift-v2

Salernisvæðing knattspyrnunnar

Á síðustu áratugum hefur enska knattspyrnan tekið stakkaskiptum en segja má að allt frá árinu 1970 hafa stuðningsmenn hennar orðið vitni að miklum og stöðugum breytingum. Eitt var að sjá litaða leikmenn halda innreið sína og njóta velgengni en deildin hefur orðið alþjóðlegri með hverju árinu og er nú svo komið að hún er eitt skýrasta dæmið um alheimsvæðingu menningar og viðskipta. Um leið hefur umgjörð og rekstur deildarinnar gjörbreyst.

Í nýlegri úttekt í tímaritinu The Economist er rifjað upp að David Dein, fyrrverandi stjórnarformaður Arsenal, hafi haft miklar áhyggjur af aðstæðum á heimavelli liðsins, meðal annars salernisaðstöðunni. Á sjöunda áratugnum var lítið hugað að þessu og vellirnir á engan hátt sæmandi. Hreinlætisaðstaðan afhjúpaði þessa hugsun með óþægilegum hætti og var ekki eins og hjá siðuðu fólki. Dein hafði séð hvernig málum var háttað í Bandaríkjunum en þar voru gestir á völlinn meðhöndlaðir eins og viðskiptavinir og siðað fólk. Í Bretlandi var afstaðan hins vegar sú að það væru fyrst og fremst stuðningsmenn félagsins sem kæmu á völlinn, eiginlega ættu ekki aðrir erindi. Þetta var hálfgert ættflokkasamfélag og að lokum fór ástandið úr böndunum með aukinni fyrirferð fótboltabulla. Dein og fleiri vildu hins vegar gera íþróttina fjölskylduvæna og stuðla að því að venjulegt áhugafólk og þess vegna ferðamenn gætu komið á völlinn. Í kjölfarið hefst breyting á völlunum og þeirri aðstöðu sem gestum var boðið uppá og segja má að siðmenningin hafi haldið innreið sína í ensku knattspyrnuna. Í dag eru bestu vellirnir eins og óperuhús og hægt að fara á sokkaleistunum á salernin!

Markaðsvæðing íþróttanna

En ráðist var í fleiri breytingar. Dein og félagar hans hjá ensku knattspyrnuliðunum hófu margvíslegar endurbætur á rekstri og umgjörð deildakeppninnar. Enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar 1992 (árið eftir að Leeds vann deildina síðast!). Sótt var í reynslu og þekkingu íþróttalífsins í Bandaríkjunum en þar hefur markaðsvæddur fyrirtækjarekstur stýrt för. Mikil áhersla er á vörumerkið, liðsmerkið og auglýsingagildi liðsins og einstakra leikmanna. Meira var lagt upp úr því að kynna einstaka leiki og reynda að búa til stemmningu sem menn þekkja frá Bandaríkjunum, til dæmis í kringum „Monday Night Football“. Sumt tókst reyndar ekki að yfirfæra, svo sem klappstýrumenningu Bandaríkjamanna en gerð var stutt en vandræðaleg tilraun til þess í Bretlandi.

Öryggisbrestir

Margt gekk á á níunda áratugnum. Eldur kviknaði á leikvanginum í Bradford 1985 og dró athyglina að ónógum eldvörnum. Enn frekari staðfesting kom á lélegum öryggisvörnum þegar atvikið á Hillsborough Stadium í Sheffield átti sér stað 1989 en það leiddi til dauða 96 áhorfenda. Segja má að þessi atvik hafi orðið til þess að miklar endurbætur voru gerðar á völlum landsins.

Í dag blómstrar enska knattspyrnan og nýtur fádæma vinsælda. Sjónvarpsrétturinn að Ensku úrvalsdeildinni er nú seldur á 2,8 milljarða punda á ári sem stuðlar öðru fremur að því að þetta er ríkasta deildarkeppni í heimi. Tekjur liðanna í úrvalsdeildinni hafa hækkað um sem svarar 2.500% síðan keppnin var sett á stofn.

Öskubuskuævintýri

Sérfræðingar telja að hluti af velgengninni skýrist af heppni. Englendingar buðu upp á réttu vöruna á réttum tíma. Vitaskuld höfðu þeir fyrirhyggju til þess að ráðast í nauðsynlegar breytingar en augljóslega féllu hlutirnir oft þeim í hag. Enskan gerir það að verkum að auðveldara er að selja keppnina á heimsvísu, öfugt við Seríu A á Ítalíu. Ítalska knattspyrnan var áður talin sú áhugaverðasta en í dag sjáum við leiki þaðan sýnda í opnum sjónvarpsrásum, jafnvel án endurgjalds. Meira að segja þeir leikir sem eru minnst áhugaverðir í Englandi eru seldir í gegnum áskriftarsjónvarp. Öll liðin fá að njóta og sjónvarpstekjunum dreift jafnt til liðanna, meðal annars til að efla öll liðin svo að allir leikir hafi tilgang. Segja má að ævintýrið í kringum Leicester City 2016 hafi sýnt árangur þess en þá vann liðið enska meistaratitilinn öllum á óvart. Sannkallað Öskubuskuævintýri sem deildin þurfti að mörgu leyti á að halda. Eftir sem áður er það hópur fjögurra til sex liða sem drottnar yfir öllu, studd af erlendum auðmönnum með djúpa vasa.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.