Það er margt sem vekur furðu manns við lestur ævisögu Jóns Gunnarssonar (1900-1973) sem kom út nú fyrir jólin. Í fyrsta lagi spyr maður sig; hver er Jón Gunnarsson? Þegar maður áttar sig á því þá vaknar spurningin; af hverju vissi ég ekki meira um hann? Jú, má vera að svarið liggi í því að atvinnusaga Íslands er ekki eins mikið á hraðbergi og önnur saga og ævi- og störf athafnamanna fá ekki sömu athygli og ýmissa annarra sem verða frægðarmenni á Íslandi. Jón hefur þó aukið kyn sitt með ágætum og Bjarni Benediktsson, núverandi fjármála- og efnahagsráðherra er dóttursonur hans.
Saga Jóns Gunnarssonar, sem Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur hefur nú fest á bók, er forvitnileg um margt. Jón er fæddur aldamótaárið 1900 og ólst upp við kröpp kjör, meðal bændafólks í Húnavatnssýslu en móðurætt hans er úr Skagafirði. Á uppvaxtarárum Jóns var þjóðin að takast á við nýja atvinnuhætti, fyrst undir heimastjórn og síðar með fullveldið í farteskinu. Tvær systur Jóns bregða á það ráð að flytjast til Vesturheims og það hvarflaði að foreldrum þeirra að bregða búi sjálf og flytjast til þeirra. Flestir telja að fólksflutningar til Vesturheims hafi takmarkast við 19. öldina en margir fluttu þangað eftir aldamót.
Byggingaverkfræðingur frá MIT
Þó að fátt sé vitað um æsku- og bernskuár Jóns þá tekst bókahöfundi vel að tengja hann við tíma og umhverfi. Þar sem endranær, skiptir uppruni og uppvöxtur miklu. Jón virðist margt til listar lagt, duglegur og fylgin sér og nær að brjótast til mennta. Sú leið er skrykkjótt enda lítill sem engin stuðningur að heiman og hann þarf að fara krókótta leið að því að klára verkfræðinám. Hann gerir það þó þegar hann stendur á þrítugu, útskrifast með láði frá Bandaríkjunum eftir undirbúningsnám í Noregi. Hann lýkur að lokum meistaragráðu í byggingaverkfræði frá MIT (Massachusetts Institute of Technology) eftir sex ára nám í Bandaríkjunum. Við þetta naut hann tilstyrks Jónasar frá Hriflu og var handgenginn honum árin á eftir. En samtryggingin á Íslandi virtist ekki alveg tilbúin fyrir mann eins og Jón. Þannig átti hann í erfiðleikum með að fá verkfræðigráðu sína viðurkennda þrátt fyrir að MIT væri löngu áður búinn að vinna sér verðugan sess í Bandaríkjunum. Á þeim tíma þurftu menn að fara í gegnum MR og síðan í verkfræðinám til Danmerkur til að fá réttu viðurkenninguna. Þegar Jón útskrifast 1931 eru ekki nema rétt um 30 verkfræðingar á Íslandi. Hann fékk ekki inngöngu í Verkfræðingafélag Íslands fyrr en nokkrum árum eftir að hann lauk prófi og það var ekki fyrr en 1945 sem stjórn félagsins lagði almennt blessun sína yfir bandarískt meistarapróf. Jónas frá Hriflu er borinn fyrir því í bókinni að þetta hafi verið skýrt dæmi um ranglæti íslenskra embættismanna á þessum tíma.(Bls. 59)
Þrískiptur starfsferill
Eins og áður sagði þá lauk Jón prófi í byggingaverkfræði og hann náði sér í nokkra starfsreynslu í Bandaríkjunum. Á þeim tíma voru að verða miklar breytingar í samgöngum og öðrum verklegum framkvæmdum og sjálfsagt hefur Jón helst viljað fá að takast á við þau svið þar sem menntun hans nýttist best. Augljóslega blundar í honum áhugi á viðskiptum og rekstri og hann reynir fyrir sér í hænsnarækt með öðrum störfum. Jón reynir að brýna fyrir löndum sínum að taka nú upp betri starfshætti og vanda hráefnanotkun, hann fordæmir til dæmis notkun grágrýtis við byggingu húsa. Telur að miklu betra sé að nota blágrýti. Ljóst er að þekking á hráefnisnotkun, vinnubrögðum og öðru því sem tengist byggingaframkvæmdum á þeim tíma hefur verið verulega ábótavant. Þá skorti rannsóknir til að byggja á. Jón gerir sitt besta til þess að benda löndum sínum á hvað betur megi fara en virðist oftar en ekki mæta tortryggni, vantrú og jafnvel þöggun. Furðulegt er að lesa frásagnir af viðbrögðum við því sem maður telur sjálfsagðar og þarfar ábendingar.
Einu íslensku fyrritækin erlendis
En fyrir utan verklegar framkvæmdir má segja að vinnuferill Jóns skiptist í tvennt. Annars vegar eru það störf hans við fiskvinnslu hér á landi og þó einkum aðkoma hans að atvinnulífi landsins sem framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins og svo hins vegar ferill hans hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og uppbygging sölusamtaka þeirra Coldwater Seafood Corp í Bandaríkjunum. Það er stórfróðlegt að lesa frásagnir af hvernig hann tekst á við að reyna að finna og viðhalda markaði fyrir frystar sjávarafurðir í Bandaríkjunum. Þar virðist hafa farið saman óbilandi kjarkur og mikill vilji til að takast á við verkefnið. Ég veit ekki betur en að Coldwater hafi verið fyrsta fyrirtækin í íslenskri eigu, sem rekið var á erlendri grund. Síðar stofnuðu Íslenskar sjávarafurðir Icelandic Seafood Corporation og voru þetta þá tvö einu fyrirtækin sem starfandi voru erlendis um alllangt skeið.
Margt í þessari sögu var farið að fenna yfir og Jakob hefur hér unnið mikið og þarft verk með því að taka saman sögu Jóns. Frásögnin er lipur og skilmerkileg og höfundur hefur haft aðgang að margvíslegum heimildum, að nokkru úr persónulegu safni Jóns og fjölskyldu hans. Jakob vinnur vel úr heimildum sínum og setur hér saman stórmerkilega sögu á áhugaverðan hátt. Bókin er ríkulega myndskreytt og áhugaverð lestrar. Ég mun fjalla nánar um frásagnir hans af störfum Jóns í Síldarverksmiðjunum og við sölu á frystum fiski. Hvoru tveggja er einstök heimild um atvinnulíf hér á landi.
Jón Gunnarsson – ævisaga
Höfundur: Jakob F. Ásgeirsson
Útgefandi: Ugla
400 bls.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.