c

Pistlar:

24. desember 2018 kl. 11:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Framfarir, friður og hamingja

Ísland er friðsamasta land í heimi og hefur verið það síðustu 10 ár samkvæmt samantekt Friðar og efnahagsstofnunarinnar (Institute for Economics and Peace) sem heldur úti friðarvísitölunni Global Peace Index (GPI). Eitt augnablik verður maður stoltur yfir þessu en svo koma vangaveltur um hvað þetta raunverulega þýðir. Jú, það sem við Íslendingar teljum svo sjálfsagt að við varla gefum því gaum myndu aðrar þjóðir vilja fórna miklu fyrir. Það gerir ekki umkvartanir dagsins í dag minni en er þetta ekki eitthvað sem við ættum að geta glaðast yfir? Og jafnvel hjálpað okkur nú í aðdraganda jólanna og þannig bætt okkur upp snjóleysið! En erum við yfir höfuð nógu þakklát fyrir það sem við höfum? Ættum við að halda meira á lofti jákvæðum hlutum í stað þess að festa okkur stöðugt í neikvæðni eins og birtist því miður í hinni daglegu fréttaumfjöllun.

Málshátturinn segir að sá sem er veikur eigi aðeins eina ósk og það er að verða heilbrigður á ný. Sama má segja um þá sem verða að þola ófrið og stríð. Þeir trúa því að allt verði gott á ný ef friður næst. Erfiðleikar gera þannig valkostina skýra á meðan velsæld ruglar myndina. Við Íslendingar teljumst oft vera ágætlega hamingjusamir þegar mælingar eru framkvæmdar en svo er auðvitað fjöldi fólks sem neitar að trúa því. Þvert á móti séu fáar forsendur fyrir hamingju hér á landi. „Þið hafið það skítt,“ setti Fréttatíminn sálugi yfir þvera forsíðu sína fyrir nokkrum árum. Kannski það segi meira um þá er það skrifa. En hvar er hamingjunnar að leita?friður

Hamingjuhormónið

Alla jafnan fjöllum við ekki mikið um hamingjuna og ég rakst einungis á eina grein í fjölmiðlunum nú í aðdraganda jóla sem gerði hana að umræðuefni. Það er ágæt grein eftir fræðimanninn Hermund Sigmundsson sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hermundur vitnar til bókarinnar Hinn samúðarfulli hugur (The Compassi­ona­te Mind) sem Paul Gil­bert gaf út árið 2009. Í bók sinni leggur Gilbert áherslu á mik­il­vægi góðrar sam­veru, vin­gjarn­leika og sam­tals fyr­ir heil­a­starf­semi okk­ar. Að sögn Hermundar byggir þetta á rann­sóknum sem ótví­rætt hafa leitt í ljós að hlý sam­vera hef­ur áhrif á horm­ón­a­starf­semi. Horm­ónið oxytósín hef­ur áhrif á vellíðan­ar­til­finn­ingu okk­ar. Hann bend­ir á að þróun samúðar og um­hyggju er lyk­il­atriði til að hjálpa okk­ur í að verða ham­ingju­söm og öðlast til­gang með líf­inu. Það að upp­lifa góðvild, hóg­værð, hlýju og samúð hef­ur já­kvæð áhrif á alla lík­ams­starf­semi okk­ar, styrk­ir ónæmis­kerfið, minnk­ar streitu­hórmóna og er einskon­ar víta­mín fyr­ir heil­a­starf­semi okk­ar. Að því leyti má segja að komin sé vísir að lífeðlisfræðilegri skýringu á hamingjunni. Og hún er síður en svo galin.

Hermundur vitnar einnig til annars fræðimanns, Mihaly Csikszent­mi­halyi, sem hann segir vera einn af fremstu fræðimönn­um í heim­in­um á sviði já­kvæðrar sál­fræði. Csikszent­mi­halyi telur mik­il­vægt að nota já­kvæða styrk­ingu, sem einhverskonar „gul­rót,“ til að fá ein­stak­linga til að tak­ast á við áskor­an­ir. Lyk­il­atriði sé að áskor­an­ir passi hverj­um ein­stak­lingi, til að efla innri ­hvöt­ og til að ein­stak­ling­ar öðlist leikni, einhverskonar lífsleikni sem okkur er tamt að tala um og reynum að þjálfa börnin okkar upp í. Hermundur bendir á mikilvægi þess að for­eldrar, kenn­arar og þjálf­arar finni hæfilegar áskor­an­ir fyr­ir ein­stak­linga svo að þeir kom­ist inn í það sem hann kallar flæði og áréttar um leið mikilvægi þess að sýna já­kvæð viðbrögð þegar ein­stak­ling­ar eru að gera sitt besta eða ná að fram­kvæma það sem þeir ætluðu sér. Þar séu for­eldr­ar, kenn­ar­ar og þjálf­ar­ar í lyk­il­hlut­verki.

Skýringar sem þessar minna okkur á að framfarir geta stundum gefið fleiri skýringar en að þær beinlínis stuðli að hamingju. Svona orkti Jónas hallgrímsson til herra Páls Gaimard:

Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð;
tífaldar þakkir því ber færa
þeim sem að guðdómseldinn skæra
vakið og glætt og verndað fá
viskunnar helga fjalli á.

Einfaldleiki hamingjunnar

Það er alltaf ánægjulegt þegar fræðin renna stoðum undir það sem við kannski innst inni vitum. Hamingjan á sér vitaskuld margar hliðar en líklega finnst hún helst í hinu einfalda, rétt eins og djákninn Guðmundur Brynjólfsson skrifar í pistli sínum á baksíðu Fréttablaðsins í dag. Guðmundur telur að leiðin til frelsarans liggi í gegnum einfalt líf og þar sé hamingjuna að finna. Það er sjálfsagt margt til í því og flestir lífspekingar benda á þetta sama og skiptir litlu hvort það eru jafn ólíkir spekingar og Dalai Lama eða Bertrand Russel. Báðir bentu þeir á að leiðir til þess að lækna hina hversdagslegu óhamingju sem svo margir virðast þjást af, þó hún geti gufað upp frammi fyrir lífsháskanum sem sumir þurfa að ferðast með dags daglega. Taka má undir með Russel sem sagði að lífsgleðin væri lykillinn að hamingju og vellíðan. Hugsanlega ættum við að hafa það hugfast yfir hátíðarnar og reyna um leið að gleðjast yfir því einfalda sem okkur stendur til boða.

Gleðileg jól!