Þýskt fréttatímarit Der Spiegel (Spegillinn) hefur varla séð dekkri tíma. Þetta flaggskip þýskrar blaðamennsku berst nú við að endurheimta trúverðugleika sinn eftir að í ljós kom að einn af þekktustu blaðamönnum þess, hinn 33 ára gamli Claas Relotius, hafi í langan tíma skáldað upp fréttir og viðtöl og þegið margvíslegan heiður fyrir eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Þegar er vitað um 14 frásagnir sem hann skáldaði að mestu upp en ritstjórn Spiegel vinnur hörðum höndum við að reyna að grafast fyrir um málið og finna út hve víðtæk fréttafölsun Relotius er. Hann virtist tilbúinn til að skálda upp viðtöl, ummæli og jafnvel persónur ef það hentaði frásögn hans.
Það má segja að það hafi verið happ fyrir blaðið að það var annar blaðamaður þess, Juan Moreno, lausamaður hjá vikuritinu, sem kom upp um Relotius. Blaðið hefur þegar birt 23 blaðsíðna úttekt á fölsununum og er í kappi við tímann um að finna fleiri. Það er mikilvægt að blaðið sjálft gangi fram fyrir skjöldu til að afhjúpa óskapnaðinn sem menn eru farnir að tala um sem mesta áfall þýskrar fréttamennsku. Þá er ljóst að málið mun hafa pólitískar afleiðingar og vera vatn á myllu þeirra sem sakað hafa vikuritið og aðra vestræna fjölmiðla um að ganga erinda einhverskonar vinstri hugsunar og pólitísks rétttrúnaðar. Þau sjónarmið hafa fengið byr undir vængina og það er sérlega vandræðalegt fyrir CNN fréttastofuna að hafa heiðrað Relotius sérstaklega en skrif hans virtust falla vel að nálgun andstæðinga Trumps. Umfjöllun blaðsins um Trump hefur sem gefur að skilja verið bæði hörð og gagnrýnin. Til að bæta gráu ofan á svart hefur Der Spiegel tilkynnt að blaðið hyggist kæra Claas Relotius til lögreglu eftir að upplýst var að hann hefði stolið fé sem gefið var í þágu sýrlenskra götubarna í Tyrklandi.
Segið hlutina eins og þeir eru
Der Spiegel er ekkert venjulegt vikurit. Það var stofnað árið 1947 og hafði þá nokkur tengsl við hernámslið bandamanna en stofnandi var meðal annars Rudolf Augstein sem lengst af var í senn útgefandi og aðalritstjóri. Hann gaf blaðinu kjörorðið: Segið hlutina eins og þeir eru, sem enn á að tákna fréttamennsku þess. Um leið var Augstein einn valdamesti maður Vestur-Þýskalands en haft var á orði að þýsk stjórnsýsla væri oftast lömuð á útgáfudegi þegar menn voru að lesa um hvað í raun og veru gengi á í landinu! Árið 1974 afhenti hann starfsmönnum helming hlutafjár í félaginu og allir sem höfðu starfað hjá því í þrjú ár eða lengur áttu rétt á eignarhlut. Augstein sagði þetta gert til að efla ritstjórnarlegt sjálfstæði en hann lést 2002. Í dag er blaðið hluti af Bertelmann samsteypunni.
Frjálslynt og vinstri sinnað
Frá upphafi hefur Der Spiegel fylgt stefnu mótaðri af Augstein og eftirstríðsárunum. Blaðið er frjálslynt og vinstrisinnað en hefur þó fyrst og fremst verið gagnrýnið á valdhafa hverju sinni og þá um leið kerfið. Þýskir ráðamenn hafa oft kvartað yfir blaðinu. Franz Josef Strauß kallaði það þannig „Gestapo okkar tíma“ og sjálfur Willy Brandt sagði það „Scheißblatt“ og varla ástæða til að þýða það frekar. Stíll blaðsins þótti þrátt fyrir það lengst af þungur og blaðið var í svart/hvítu þar til að menn hófu að prenta það í lit vegna samkeppni við Focus tímaritið. Focus kom inn á markaðinn gagngert með það að markmiði að efla myndræna útfærslu en mörgum þótti Der Spiegel hafa setið eftir þar.
Spigel-þýska
Greinar í blaðinu höfðu lengi það orð á sér að vera langar og flóknar og oft frekar á mállýsku sem stundum hefur verið nefnd Spigel-þýska. Rekstur blaðsins hefur lengst af gengið ágætlega og við sameiningu Þýskalands var upplagið ríflega einn milljón eintaka. Eftir 1990 jókst samkeppni og fór að taka sinn toll. Enn í dag nýtur það mikilla vinsælda og er gefið út í um 840 þúsund eintökum og hefur stóran hóp áskrifenda, meðal annars á Íslandi en margir telja það veita mikilsverða sýn út fyrir hinn engilsaxneska-fréttaheim sem í dag ræður svo miklu.
Samhliða færri áskrifendum í lok síðustu aldar fór blaðið að sjá samdrátt í auglýsingatekjum eins og reyndar flestir hefðbundnir fjölmiðlar en Spiegel rekur öfluga vefsíðu og leggur mikla áherslu á enska útgáfu sína. Samdráttur hefur verið í sölu þýskra vikurita eins og kemur fram í grafinu hér til hliðar sem er fengið að láni hjá The Economist, keppinauti í Bretlandi. Spiegel kemur út á mánudögum og og eins og áður sagði þá var gantast með það að topparnir í þýskri pólitík og stjórnsýslu yrðu að loka að sér á meðan þeir lásu blaðið. Hvert tölublað er um 250 til 300 síður og helstu efnisþættir eru innlendar fréttir, samfélagið, viðskipti og efnahagsmál, útlönd, vísindi, menning, íþróttir og tækni. Greinar og fréttir eru alla jafnan ekki merktar höfundum.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.