Nú um áramót voru 60 ár liðin frá því að bylting kommúnista undir stjórn Fidel Castro átti sér stað á Kúbu. Vissulega eru það nokkur tímamót þó erfitt sé að meta með sanni hvers er að minnast núna. Castró-ættin er nú ekki lengur formlega við völd og heldur hefur verið slakað til á efnahagssviðinu en efnahagur landsmanna hefur verið bágborinn mest allan tímann undir stjórn sósíalista. Lengst af nutu Kúbverjar þess að vera hluti kommúnistablokkarinnar á tímum Kalda stríðsins en eftir að Sovétríkin hrundu upp úr 1990 hurfu helstu stoðir efnahags Kúbu. Svo illa var landið leikið að þar ríkti nánast hungur árin á eftir. Því er gerð ágæt skil í bókinni Soralegi Havanaþríleikurinn eftir Pedro Juan Gutiérrez, sem kom út hjá bókaútgáfunni Sæmundi fyrir jól, í fjörlegri þýðingu Kristins R. Ólafssonar. Tilveran á Kúbu árin eftir hrun kommúnismans var hrikaleg og lífsbaráttan hörð. Engin leið er að komast af á laununum einum saman, ef einhverri vinnu er til að dreifa, og allt er gert til að snapa peninga. Ekkert er of heilagt til að það sé ekki til sölu, síst af öllu líkaminn. Þetta rekur Gutiérrez í bók sinni.
35% allra Kúbverja búa í Bandaríkjunum
Hvernig meta skal stöðu og horfur á Kúbu getur verið vandasamt en hafa má í huga að um 35% allra þeirra sem eru af kúbverskum ættum búa núna í Bandaríkjunum, flestir í Flórída. Þetta hefur gert ástandið um margt sérkennilegt. Bandaríkjamenn hafa beitt efnahagsþvingunum en um leið er stórt þjóðarbrot að reyna að koma peningum til Kúbu, til ættingjanna sem urðu eftir og máttu þola stöðnun og framtaksleysi sósíalismans. Raúl Castro slakaði á og leyfði einkaframtak og nú er einkarekstur og vísir að neysluhyggju að halda innreið sína.
Ungir Kúbanar í dag eru einstaklingshyggjumenn, stimplaðir „hugmyndafræðilegir frávillingar“ af hinum eldri, sem hjuggu sykurreyr í þágu þjóðarinnar. Þótt þau hafi alist upp undir síbylju um hrylling bandarískrar heimsvaldastefnu og viðvarandi viðskiptahindranir eru þau með húðflúr þar sem stendur „All You Need is Love“ eða „Live Hard“ að því er kemur fram í grein Ruth Behar, prófessor í mannfræði við Michigan-háskóla, sem birtist í áramótablaði Morgunblaðsins. Foreldrar hennar flúðu Kúbu og misstu allt sitt í byltingunni. Eins og aðrir útlagar sinnar kynslóðar neita foreldrar hennar að snúa aftur til eyjarinnar. Þau vilja frekar halda í minningar sínar um horfna Kúbu. „Í næstum 30 ár hef ég farið aftur upp á eigin spýtur og reynt að skilja hvað orðið er um Kúbu,“ skrifar hún.
Ruth segist hafa vaxið úr grasi eins og svo mörg börn kúbanskra útlaga í áfalli vegna þess sem foreldrar hennar misstu í byltingunni 1959. Þau hafi í raun trúað á þær félagslegu umbætur sem Castro hafði boðað – jafnrétti fyrir konur og Kúbana af afrískum uppruna, ókeypis leikskóla, land fyrir bændur, húsnæði fyrir fátæka, heilbrigðisþjónustu fyrir alla og menntun fyrir öll börn – og fannst þau hafa verið svikin þegar hann snerist til alræðishyggju og kommúnisma og fyrirheitin létu standa á sér.
Elska merkjavöru en forðast barneignir
Ruth sagði að unga kynslóðin á Kúbu elski merkjavöru. Chanel hafi komið til Havana til að halda tískusýningu í maí 2016. Munurinn á kynslóðunum kom fram með sláandi hætti þegar barnabarn Fidels Castros, Tony Castro (Antonio Castro Ulloa), upprennandi 19 ára fyrirsæta, kom fram á Paseo del Prado!
Fæðingartíðni hefur dregist svo saman á Kúbu að það er áhyggjuefni og íbúarnir eru þeir elstu í allri Rómönsku Ameríku segir Ruth í grein sinni. „Ég mun aldrei fæða barn fyrir Fidel Castro,“ var kona sem hún þekkti einu sinni vön að segja. Hún hefur eftir öðrum að efnahagslegar aðstæður og þá sérstaklega sár skortur á húsnæði hafi valdið því að það er sérstaklega flókin ákvörðun að eignast börn. Fólk verður að dvelja áfram á heimili foreldra sinna, með afa og ömmu heima, og það hvetur ekki beinlínis til barneigna.
Það hafa margir séð Kúbu í hillingum undir stjórn Fidel Castro. Staðreyndin er sú að pólitískir andstæðingar hafa verið fangelsaðir og myrtir. Þjóðin hefur verið svipt framtíðarsýn og efnahagslegri velsæld en Kúba var ágætlega stödd þegar byltingin var gerð þó vissulega hafi ríkt spilling og misskipting verið nokkur. Ríkið hefur stýrt öllu síðan og Fidel Castro reyndi meira að segja fyrir sér sem byltingaleiðtogi á alþjóðavísu með hernaðarátökum sem náðu allt til Afríku. Vistfræðileg rányrkja hefur verið stunduð á sumum sviðum á meðan fólk hefur látið hafa sig í að mæta til Kúbu til að styðja byltinguna með sjálfboðaliðastörfum. Nýir tímar eru að renna upp á Kúbu.
Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.