c

Pistlar:

21. janúar 2019 kl. 15:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vaxandi efasemdir um evruna

Ashoka Mody er engin venjulegur hagfræðingur. Óhætt er að segja að hann hafi verið innsti koppur í búri hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, virtur hagfræðingur sem var einn valdamesti maður sjóðsins í Evrópu og stýrði aðgerðum hans á Írlandi eftir bankahrunið. Hann hefur undanfarið verið í fylkingarbrjósti þeirra hagfræðinga sem gagnrýna samrunaferli Evrópusambandsins hvað harðast og þó einkum framkvæmd og stefnumótun varðandi eitt myntsvæði eða evruna.Eurotragedy

Á síðasta ári kom út bók hans Eurotragedy: A Drama in Nine Acts, sem hefur hlotið mikla athygli. Þar fer hann yfir söguna og forsendur að baki því að ákveðið var að setja evruna á flot en hún fagnaði 20 ára afmæli sínu um nýliðin áramót. Meðfylgjandi graf sýnir þróun evrunnar gagnvart Bandaríkjadalnum síðan 1. janúar 1999. Merkilegt að krossinn núna er nánast sá sami og í upphafi. Evran náði hámarki sínu fyrir bankakreppu en hefur lækkað jafnt og stöðugt síðan sem gæti verið vísbending um að hin alþjóðlegi fjármálaheimur óttast áframhald evrukreppunnar. Í dag nota hins vegar 340 milljónir manna í 19 löndum evruna.

Pólitísk mynt

En víkjum aftur að Ashoka Mody en í bók sinni rekur hann rækilega söguna á bak við tilurð evrunnar. Hann segir að þegar sagan sé skoðuð hafi fremur pólitískar en efnahagslegar ástæður ráðið því að ákveðið var að taka upp sameiginlegan gjaldmiðli. Útbreiðsla hans hafi síðan verið önnur mistök og hann er mjög gagnrýnin á að lönd Suður-Evrópu skyldu taka upp evruna enda hafi komið á daginn að hún henti engan vegin hagkerfum þeirra. Sérstaklega hefur hann beint sjónum sínum að Ítalíu sem er með 8 sinnum stærra hagkerfi en Grikkland. Hann bendir á að áframhaldandi vandræði í ítalska bankakerfinu geti farið að hafa áhrif á lánshæfi annarra evru-landa.

Hin sögulega nálgun hans er án ef einn helsti kostur bókarinnar en hann dregur upp mjög skýra mynd af áhrifum Helmut Kohl, kanslara Þýskalans, og hvernig hann gekk gegn öllum ráðleggingum hagfræðinga þegar hann samþykkti þátttöku Þjóðverja í evrunni. Á þeim tíma hafi völd Kohl og áhrif verið óvenjuleg og framkvæmdavaldið drottnað yfir Þýskalandi sem alla jafnan tekur stjórnskipun sína alvarlega. Því fór sem fór.evra

Evra betri en franki

Mody bendir á að það hafi verið Frakkar sem fóru að ýta á eftir sameiginlegum gjaldmiðli, meðal annars í kjölfar margendurtekinnar niðurlægingar franska frankans sem stöðugt varð að gefa eftir gagnvart þýska markinu. Þetta þoldu Frakkar ekki og hófu baráttu fyrir sameiginlegum gjaldmiðli, að hluta til studdir af Benelux-löndunum. Mody telur að eins skynsamlegt og það hafi verið að setja upp eitt efnahagssvæði þá hafi það verið einstaklega óskynsamlegt að setja upp eitt myntsvæði og hugmyndin um sameiginlega peningastefnu gangi ekki upp. Til að fá Þjóðverja til að samþykkja evruna hafi þurft að gefa þeim vald yfir Evrópska seðlabankanum (ECB) sem beiti peningastefnu sinni fyrst og fremst að því að halda verðbólgu í skefjum enda hefur það verið kjarninn í allri peningastefnu Þjóðverja. Það henti hins vegar ekki framleiðni margra hagkerfa innan evrusvæðisins sem glími við atvinnuleysi og skort á fjárfestingum. Að þessu leyti sé til dæmis stefna ECB allt önnur en bandaríska seðlabankans.

Mody segir að hver og ein þjóð verði að taka ábyrgð á peningastefnu sinni og ná um leið tökum á hallarekstri eigin ríkissjóðs og skuldasöfnun. Hann hefur haldið því fram að eina leiðin til að bjarga Grikklandi sé að afskrifa skuldir ríkisins. Nokkuð sem hann telur að hefði átt að gera strax árið 2010 enda frá upphafi verið ljóst að skuldirnar voru Grikkjum ofviða.

Það verður fjallað meira um kenningar Modys síðar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.