c

Pistlar:

26. janúar 2019 kl. 17:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Venesúela og vandræðagangur sósíalista

Það er fróðlegt að fylgjast með sósíalistum um allan heim takast á við hrun samfélagsins í Venesúela. Þar hefur ríkt sósíalísk tilraun síðan Hugo Chávez (1954-2013) komst til valda árið 1999 með þau loforð á vörunum að gera landið að sósíalískri paradís! Nú er svo komið að samfélagið, sem einu sinni taldist til fyrirmyndar í sínum heimshluta, er að falli komið. Um þetta ástand hefur pistlaskrifari fjallað um í allmörgum pistlum undanfarin ár og stundum undrast áhugaleysi annarra á málinu.

En nú þegar fallið blasir við og sósíalistar verða hugsanlega látnir standa frammi fyrir gerðum sínum þá þarf að finna nýjar skýringar á ástandinu. Vinsælasta smjörklípan snýr að Bandaríkjunum, þau með aðgerðum sínum séu að vinna gegn lögmætum stjórnvöldum landsins. Hvað svo rammt að þessu að nokkrir örvæntingafullir ung-sósíalistar á Íslandi reyndu að hvetja til mótmæla við bandaríska sendiráðið í spjalli sínu hér á Facebook. Það virðist ekki ganga eftir en sjálfsagt finna þeir tækifæri fljótlega til að mótmæla einhverju öðru. Götublöðin í Bretlandi hafa undanfarið rifjað upp ummæli Jeremy Corbyn leiðtoga Breska verkamannaflokksins. Corbyn lýsir sér sem lýðræðislegum sósíalista og taldi lengi vel sósíalismann í Venesúela til fyrirmyndar. Hvað sem segja má um götublöðin bresku þá þola þau fátt verr en yfirdrepskap og hafa undanfarna daga rifjað upp ummæli Corbyn um Venesúela, honum til eftirtektarverðrar háðungar. Íslenskir fjölmiðlar eru auðvitað svo kurteisir við vinstri menn að þeim dettur ekki hug að reyna slíka hluti.vene

Sósíalískir hávaðamenn

Nú þegar allt um þrýtur þá segja sósíalistar einfaldlega að það hafi ekki verið ástundaður alvöru sósíalismi í Venesúela. Það er til þess að gera ný skýring enda litu menn gjarnan til Hugo Chávez með mikilli velþóknun og töldu allt hans framferði til mikillar fyrirmynda enda var hann fyrirferðamikill á alþjóðavettvangi og sendi gjarnan Bandaríkjamönnum tóninn. Chávez var mjög duglegur að vinna með sósíalíska arfleið sína. Vinskapurinn við Kúbu-sósíalismann og Fidel Castro var flestum kunnug en báðir reyndu þeir að blása lífi í Bólivarismann sem átti að vera einhverskonar suður
-amerísk útgáfa af sósíalismanum. Þeir höfðu reyndar ýmislegt sameiginlegt, miklir hávaðamenn og töluðu langt mál og innihaldslítið yfir landsmönnum sínum en Chávez átti það til að bresta í söng í löngum útvarpsræðum. En báðir kunnu þó að meta ýmsar lífsins lystisemdir og fjölskyldur beggja söfnuðu svo miklum eignum að þær komust á lista Forbes yfir ríkasta fólk heims. Allmargar Hollywood-stjörnur hylltu Chávez, heimsóttu hann og hrósuðu stjórnunarhæfileikum hans.

Var á þokkalegri leið fyrir sósíalismann

En lítum á nokkrar staðreyndir málsins. Venesúela naut lengi vel þokkalegs efnahags og var framarlega í sínum heimshluta. Árið 1970 var landsframleiðsla á mann í Síle þriðjungur af því, sem hún var í Venesúela. Nú er landsframleiðsla á mann í Síle tvöföld það, sem hún er í Venesúela. Vissulega var misskipting talsverð en fólk hafði til hnífs og skeiðar og efnahagurinn batnaði jafnt og þétt og það fjölgaði í millistéttinni sem naut betri lífskjara. Margt var þannig að breytast til betri vegar, heilbrigðisþjónustan tók framförum og sömuleiðis menntunarstigið. Erlendir fjárfestar sáu tækifæri í landinu og almennt var litið svo á að lýðræðið væri þokkalega á vegi statt. Það er ekkert nýtt að verð á olíu sveiflist til og hafi áhrif á efnahag landsins. Það er hins vegar nýtt að efnahagur landsins hrynji. Olíukreppur eru ekkert nýtt fyrirbæri og hafa alltaf komið við efnahag landsins án þess að hann hafi hrunið. Önnur ríki með lakari efnahag en Venesúela hafa einnig orðið að þola lækkun á helstu útflutningsvörum sínum og sloppið betur frá því.venesúela 1

En af hverju er ástandið svona slæmt? Jú, sósíalistar hafa grafið undan efnahag landsins með stjórnun sinni. Fjármálastjórnin er þannig að það hefur rústað efnahagslegu sjálfstæði landsins enda kemur alltaf að skuldadögum. Skuldir landsins eru óviðráðanlega. Seðlabanki landsins hefur ekki notið sjálfstæðis til að fylgja eftir peningastefnu sinni og í landinu ríkir óðaverðbólga eins og við höfum ekki séð lengi. Ríkisvæðing og eignaupptaka hafa að lokum grafið undan fyrirtækjarekstri. Ríkið skipaði í stjórnir fyrirtækja og upp á síðkastið hefur núverandi forseti, Nicolás Maduro, boðið hernum að taka yfir stjórnir fyrirtækja til að friða herinn en barist er um hylli hans.

Ókeypis þetta og hitt

Chávez hugðist bæta hag hinna fátæku. Í upphafi voru þeim færð allskonar hlunnindi, meðal annars nánast ókeypis eldsneyti og ókeypis húsnæði. Það gæti virst saklaus hugmynd, allir vilja jú bæta hag hinna fátæku. Á þessu var þó einn hængur. Til þess að hrinda slíku í framkvæmd þurfa menn að eiga fyrir því. Þannig var ekki staðan árið 2005 þegar Chávez hóf að dreifa fjármunum ríkisins til hinna fátæku. Meira að segja á meðan olíuverð var í hæstu hæðum hafði landið ekki efni á stefnu Cháves. Fjárausturinn jókst í öfugu hlutfalli við þjóðartekjur. Fljótlega var gripið til gamalkunnra ráða. Ef vantaði peninga þá voru einfaldlega fleiri peningar prentaðir.

Sósíalíska veikin

Í dag er bólivarinn verðlaus og Venesúela með sósíalísku veikina. Alger skortur á öllum neysluvörum, löngum hefur verið hent gaman af því að það vanti alltaf klósettpappír í sósíalískum ríkjum og það hefur orðið að áhrínisorðum í Venesúela. En það skortir allar vörur enda talið að meðalþyngd landsmanna hafi minkað um 7 til 8 kíló, Maduro-kúrinn eins og landsmenn kalla það. Brauð fæst ekki, fólk bíður klukkustundum saman í biðröðum í von um mat en hungrið sverfur að, þess vegna hefur um 10% landsmanna eða ríflega þrjár milljónir gerst flóttamenn. Flúið til nágranaríkjanna í von um mat og nauðsynjavörur. - Helstu nauðsynjar skortir og lyf og lækningavörur fást ekki. Auðlæknanlegir sjúkdómar leiða til dauða og ungbarnadauði hefur aukist verulega. Frelsi fjölmiðla er nánast ekkert, blaðamenn fangelsaðir og stjórnarandstæðingar drepnir. Stjórnskipun landsins er í rúst og tekist er á um völdin í landinu. Það er vonandi að borgarastyrjöld skelli ekki á ofaná aðrar hörmungar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.