c

Pistlar:

28. janúar 2019 kl. 22:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalistarnir afhjúpaðir í Venesúela

Framferði sósíalista í Venesúela hefur nú gengið fram af umheiminum og ljóst að umskipti eru framundan landinu en hér á þessum vettvangi hefur verið fjallað um þetta í mörgum pistlum síðustu ár. Ástandið er sláandi og engin leið að tala í kringum hlutina, fólkið í Venesúela er að greiða atkvæði með fótunum til að komast burtu úr þessu manngerða hörmungarástandi, hvorki náttúruhamfarir eða stríð hafa hrakið 3 milljónir manna úr landi. Það er ekki hægt að kenna því um, ástæðan er einfaldlega hörmuleg stjórn sósíalista sem hafa stýrt landinu frá 1999. Ríkisstjórn Nicolás Maduro er rúin trausti heima fyrir og erlendis og styðst aðeins við vald það sem herinn veitir henni. Tími hennar er að renna út.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í september ályktun um ástandið í Venesúela með vitund og vilja flestra ríkja í latneska hluta Ameríku. Nánast öll lönd Ameríku - að Kúbu, Níkaragva og Bólivíu undanskyldum - viðurkenna nú Guaido. Bandaríkin höfðu ekkert með það að gera þó að þau í krafti stöðu sinnar séu leiðandi aðili og sá sem horft er til þegar kemur að lausn málsins. Bandaríkjastjórn hefur viðurkennt stjórn Juans Guaidos, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, og er að hluta til ábyrgð á þróun mála í framhaldinu. Frans páfi óttast að blóðbað sé yfirvofandi í Venesúela vegna valdabaráttu Nicolás Maduro og Juans Guaidos en báðir hafa biðlað til hersins í Venesúela. Sá síðarnefndi hefur lýst sig forseta landsins til bráðabirgða og krefst þess að efnt verði til kosninga með hraði. Undir það hefur Evrópusambandið tekið og reyndar gefið Maduro úrslitafrest, ella viðurkenni það stjórn Juan Guaidos. Á meðan spila Rússland og Kína einhverja geópólitík af fingrum fram.

Tilraunir til að kenna Venesúela við lýðræðislegan sósíalisma eru fallnar um sjálfa sig enda var aldrei innistæða fyrir því. Hugo Chávez (1954-2013) breytti stjórnarskrá landsins eftir hentugleika og hann og Maduro fóru svo bara eftir henni þegar þannig stóð á. Þess vegna hefur sósíalistum tekist að búa til stjórnskipulega óvissu í landinu. Eftir augljóslega falsaðar kosningar kemur ekkert til greina annað en valdaafsal Maduro og sósíalista og svo verður að kjósa upp á nýtt, undir alþjóðlegu eftirliti.jordan

Blekking og afneitun vinstri manna

En nú er augljóst að umheimurinn sér hvernig stjórnarfar sósíalista í Venesúela er í raun og veru, mörgum árum eftir að allt var komið í óefni. Og sem fyrr þræta sósíalistar um allan heim. Til að fá skilning á þeim viðbrögðum er fróðlegt að lesa bók kanadíska sálfræðiprófessorsins dr. Jordan B. Peterson: Tólf lífsreglur – Mótefni við glundroða sem kom út hér á landi á síðasta ári.

Peterson ræðir uppgjör kommúnista á Vesturlöndum við ógnarstjórn kommúnista í Sovétríkjunum. Vinsælt dæmi um afneitun og hugmyndafræðilega blindu. Við Íslendingar þekkjum auðvitað mörg dæmi um þetta, engin var tilbúin að gefa eftir í hugmyndabaráttunni hér heima þó sannleikurinn heltist yfir þá. Peterson bendir á að þrátt fyrir að meira en orðrómur stæði að baki um slík óhæfuverk voru viðhorf margra vestrænna menntamanna til kommúnisma lengst af fremur jákvæð. Þó voru alltaf einhverjir sem sáu hlutina réttu ljósi og skrifuðu sannleikann.

Blaðamaðurinn Malcolm Muggeridge skrifaði þannig greinaröð fyrir Manchester Guardian og lýsti því hvernig ráðstjórnin sovéska hafði gjöreyðilagt landbúnaðinn þegar árið 1933. George Orwell skildi hvað var að gerast hjá Stalín og sagði frá því víða. Hann sendi frá sér bókina Dýrabæ (e. Animal Farm), dæmisögu og háðsádeilu á Ráðstjórnarríkin, árið 1945 þótt útgáfa bókarinnar hafi mætt alvarlegri andstöðu. Margir sem hefðu átt að vita betur héldu áfram að þrjóskast við löngu eftir þetta. Þetta var hvergi sannara en í Frakklandi og hvergi í Frakklandi var það sannara en meðal menntamanna segir Peterson.

Hann bendir einnig á að frægasti heimspekingur Frakka um miðja öldina, Jean-Paul Sartre, var vel þekktur kommúnisti, þótt hann hefði ekki verið skráður í Flokkinn, uns hann fordæmdi innrás Ráðstjórnarríkjanna í Ungverjaland árið 1956. Hann hélt þó áfram að tala fyrir marxisma og gafst ekki endanlega upp á ráðstjórninni fyrr en 1968 þegar Rauði herinn beitti valdi til að brjóta umbætur Tékkóslóvaka á bak aftur í „Vorinu í Prag“. Sarte var um árabil í opnu sambandi við Simone de Beauvoir, móður feminismans, en framferði þeirra beggja hefði líklega fallið á #metoo-prófinu en það er önnur saga.Tolf-lifsreglur

Mikilvægi Solzhenítsyns

Skömmu eftir vorið í Prag kom út bók Aleksandrs Solzhenítsyns, Gúlageyjaklasinn sem gjöreyðilagði siðferðislegan trúverðugleika kommúnismans — fyrst á Vesturlöndum og síðan í ráðstjórnarkerfinu sjálfu. „Solzhenítsyn hélt því fram að ráðstjórnin hefði aldrei lifað án harðstjórnar og þrældóms, að fræjum verstu öfganna hefði verið sáð á tíma Leníns (sem vestrænir kommúnistar héldu enn hlífiskildi yfir) og síðar viðhaldið með botnlausum lygum, bæði af hálfu einstaklinga og opinberra aðila. Syndir þeirra væru ekki einfaldlega persónudýrkun að kenna eins og fylgjendur þeirra héldu enn fram. Solzhenítsyn skýrði frá víðtækum misþyrmingum á stjórnmálaföngum, spilltu lagakerfi og fjöldamorðum, ásamt því að sýna fram á í átakanlegum smáatriðum hvernig hér var ekki um að ræða undantekningar heldur beinlínis birtingarmynd sjálfrar heimspeki kommúnismans. Enginn gat tekið upp hanskann fyrir kommúnisma eftir að Gúlageyjaklasinn kom út — ekki einu sinni kommúnistar sjálfir,“ segir Peterson.

Hann bendir þó á að hrifningin, sem hafði vaknað meðal menntamanna á marxískum hugmyndum, hafi ekki verið úr sögunni. Hún einungis umbreyttist. Sumir neituðu hreinlega að læra. Sartre fordæmdi Solzhenítsyn sem „hættulegan aðila“. Derrida fór fínna í það og skipti út hugmyndinni um peninga fyrir hugmyndina um vald og hélt kátur leiðar sinnar. „Slíkar málfarslegar sjónhverfingar gáfu öllum marxistunum, sem varla iðruðust og sátu sem fastast í æðstu menntastöðum á Vesturlöndum, færi á að halda í heimssýn sína. Þjóðfélagið byggði ekki lengur á því að ríkir kúguðu fátæka. Allir væru kúgaðir af valdastéttinni,“ bendir Peterson á.

Allt þetta sjáum við í viðbrögðum sósíalista í dag, kennandi einhverjum öðru en óstjórn í þeirra nafni um. En úr því að vinstri menn gátu varið stjórn Rauðu kmeranna fram í rauðan dauðan ætti þetta kannski ekki að koma á óvart.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.