c

Pistlar:

30. janúar 2019 kl. 21:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Danmörk: Minnst spillt en vondur banki

Danmörk er óspilltasta land heims, samkvæmt árlegu mati Transparency International á spillingu. Ísland er í fjórtánda sæti á lista yfir spillingu og fær þriðja árið í röð lægri einkunn en árið á undan og er lægst Norðurlanda. Hin ríki Norðurlandanna skipa sér meðal þeirra sjö efstu á listanum. Lág einkunn Ísland virðist skýrast að einhverju leyti af slakri einkunn á lýðræðissviðinu og að hafa hundsað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá. Rök sem gætu komið einhverjum á óvart en það er félagið Gagnsæi sem sendir inn upplýsingarnar um Ísland en þar er Jón Ólafsson prófessor í forsæti, sérstakur trúnaðarmaður forsætisráðherra þegar kemur að siðferðilegum álitaefnum.

Það kann að koma mörgum á óvart hve vel Danmörk kemur út í könnunni en í vikunni var einmitt mikil úttekt hjá Bloomberg-fréttaveitunni þar sem farið var yfir áhrif peningaþvættismálsins sem hefur skekið danskt bankakerfi undanfarið. Þar eru einmitt leiddar að því líkur að það hafi spillt ímynd Danmerkur sem landi þar sem litla spillingu er að finna. Gefur kannski auga leið.danske

Stendur Danske bank þetta af sér?

Staðreyndin er sú að peningaþvættismálið virðist engan enda ætla að taka og stöðugt birtast nýjar upplýsingar. Því er haldið fram að það geti jafnvel haft áhrif á lánshæfismat Danmerkur enda óttast margir að málið geti gleypt Danske Bank A/S, stærsta banka landsins sem er í miðju stormsins í þessu máli. Bloomberg greinir frá nýrri skýrslu um málið frá danska fjármálaeftirlitinu þar sem reynt er að meta þá áhættu sem fylgir málinu.

Danske Bank A/S er einkabanki og eigendurnir eru búnir að henda formanni og tveimur öðrum stjórnarmönnum út, sem og forstjóra bankans. Óvíst að það dugi til að afgreiða ábyrgðina í málinu en verðmæti bankans hefur helmingast undanfarið ár. Þá er það ekki til að gleðja hluthafa að í Bandaríkjunum er nú verið að meta hvort ráðist verður í hópmálsókn á hendur bankanum.


Heimahöfn fyrir peningaþvætti

Bankinn verður nú að þola glæparannsókn í nokkrum lögsagnarumdæmum en ásakanir eru um að útibú hans í Eistlandi hafi í raun verið eins og heimahöfn fyrir peningaþvætti frá fyrrum Sovétríkjum. Peningaþvætti sem teygði sig út um allan heim. Bankinn hefur játað að upphæð sem nemur allt að 230 milljörðum Bandaríkjadala hafi farið í gegnum kerfi hans og verði að öllum líkindum að meðhöndla illa fengið fé. Þetta mun hafa átt sér stað fram á árið 2015.

Nú rannsóknarskýrsla, Trust Meltdown, framkvæmd af Media Tenor, sýnir að þegar kemur að vantrausti á banka þá er Danske Bank næstur á eftir Lehman Brothers en hann féll eins og kunnugt er í september 2008 og markaði að hluta til upphaf bankakreppunnar í heiminum.

Bankaskattur og hærri fjármögnunarkostnaður

Í skýrslu danska fjármálaeftirlitsins eru miklar áhyggjur af því að framferði bankans hafi skaðað orðspor Danmerkur verulega eins og áður sagði. Danske Bank er með eignir sem nema um einni og hálfri landsframleiðslu Danmerkur og er að sjálfsögðu kerfislega mikilvægur banki. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, danskir jafnaðarmenn, hafa komið með tillögu um að danska bankakerfinu verði refsað með sérstökum bankaskatti upp á 230 milljónir dala. Um leið verði ýmis fríðindi bankamanna afnumin. Vandinn er að það mun væntanlega hækka lántökukostnað í Danmörku en ekki vantar mikið uppá að framferði Danske Bank rýri kjör danskra banka og hækki fjármögnunarkostnað þeirra. Annað hneyksli væri því dýrkeypt fyrir danska bankakerfið.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.