Af þeim 3.080 fyrirtækjum sem stofnuð voru árið 2012 voru 1.271 fyrirtæki enn virkt árið 2017, sem jafngildir því að nálægt 60 prósent fyrirtækja lögðu upp laupana á þessum fimm árum. Þetta sést í gögnum Hagstofu Íslands um lýðfræði fyrirtækja sem birt voru í síðasta mánuði. Þessar tölur segja okkur að það er ekki á vísan að róa þegar kemur að rekstri fyrirtækja. Stór hluti þeirra kemst aldrei á legg og þá oft bara til að strögla þangað til þau falla. Þessi saga er ekki sögð þegar menn bölsóttast út í það sem fínt fólk í dag kallar kennitöluflakk. Á bak við það orð eru oft vanmátta tilraunir til að efna til fyrirtækjareksturs, skapa atvinnu eða búa til verðmæti. En vissulega einnig stundum tilraunir til að víkja sér undan ábyrgð.
Við þekkjum einnig úr sögunni að risar viðskiptanna fá allt í einu brauðfætur og falla. - Og þarf ekki fjármálahrun til. Að standa í viðskiptum er ávallt óvissuferð. Það er erfitt að sjá fyrir þarfir viðskiptavina og markaðarins. Tæknibreytingar geta kippt fótunum undan öðrum félögum og rangar ákvarðanir í öllu er viðkemur rekstrinum getur sett fyrirtækin á hausinn. Þetta mættu þeir hafa í huga sem stundum tala mest um fyrirtækjarekstur og hve sjálfgefið allt er sem hann varðar. Meira að segja tvö hliðstæð félög, á sambærilegum markaði geta átt mjög ólíka rekstrarsögu og um leið ólík örlög. Ekki er langt síðan Jeff Bezos, stjórnandi Amazon, stærsta fyrirtæki heims, játaði að líklega myndi það einhvern tímann leggja upp laupana.
Að þessu sögðu má segja að það sé merkilegt að fylgjast með falli eins mesta risa bandarísks fyrirtækjarekstur undanfarna áratugi. General Electric er ekkert venjulegt fyrirtæki. Stofnað af Thomas Edison í lok 19 aldar og starfaði lengst af í rafmagns- og tæknigeiranum eins og nafnið gefur til kynna. Smám saman færðist undir hatt þess gríðarlega fjölbreytt starfsemi en svo virðist sem fyrirtækið hafi misst fókus og stjórnun þess orðið ábótavant sem er merkilegt ef saga þess er skoðuð.
Nifteinda Jack
Á níunda áratug síðustu aldar varð Jack Welch forstjóri fyrirtækisins en hann var einn umdeildasti stjórnandi þess tíma en um leið líklega einn sá áhugaverðasti. Hann var kallaður Nifteinda Jack, en eins og margir muna átti nifteindasprengjan að eyða fólki en ekki mannvirkjum. Hann vísaði í starfsmannamálum sínum til íþróttaliðs og sagði að þeir óduglegu yrðu að fara og því væri rétt að segja upp um það bil 10% mannaflans á hverju ári. Talið er að hann hafi látið segja upp 100.000 manns á starfsferlinum.
Aldamótaárið 2000 reis verðmæti GE upp í að vera um 600 milljarðar dala og hafði hækkað gríðarlega í tíð Welch. Þegar hann tók við forstjórastólnum 1981 þá nam verðmætið um 15 milljörðum dala. Welch kom hingað til lands árið 2003 í boði Kaupþings og Baugs og hélt fyrirlestur um hugmyndir sínar um rekstur fyrirtækja en þá var hann hættur störfum eftir að hafa labbaði í burtu með gríðarlega kaupauka. Fyrirlesturinn fór reyndar fram í formi samtals við Stratfords Sherman, ráðgjafa og fyrrverandi blaðamanns bandaríska viðskiptatímaritsins Fortune til 20 ára.
Óhætt er að segja að Welch hafi verið einn þekktasti og áhrifamesti fyrirtækjastjórnandi síðari hluta 20. aldar. Þegar hann hætti störfum varð hann gríðarlega vinsæll fyrirlesari. Ein frægasta setningin sem höfð er eftir Welch er: „Breyttu áður en þú þarft að breyta,“ og má segja að hann hafi stjórnað GE að nokkru eftir því. Welch starfaði eftir þremur meginlögmálum. Í fyrsta lagi að hræðast ekki breytingar, í öðru lagi að losa sig við íhaldssama stjórnendur og í þriðja lagi að hætta að stjórna en leiða í staðinn. En hann var næmur á breytingar og það birtist kannski best í því að hann lét af störfum vikuna fyrir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin hinn 11. september 2001.
Hlutabréfasjóður
Síðan Welch lét af störfum hafa verið þrír stjórnendur hjá félaginu og alltaf rýrnar verðmæti þess. Árið 2010 var það þó enn talið stærsta fyrirtæki heims. Erfitt er að lýsa starfsemi GE. Félagið er nánast eins og hlutabréfasjóður en undir hatti þess eru mörg svið og undir þeim gríðarmörg félög sem fást við smíði flugvélahreyfla, heilbrigðisrekstur, framleiðslu ísskápa (nema hvað!) og kvikmyndaframleiðslu. Rætt er um að upplausnarvirði félagsins nú sé um 200 milljarðar dala en það dugar rétt fyrir skuldum og lífeyrisskuldbindingum til starfsmanna. Þær eru upp á um 100 milljarða dala og þar af eru um 35 milljarðar þeirra ófjármagnaðir. Gordon Gekko hefði ekki haft áhyggjur af því en nú eru breyttir tímar og ef félagið ræðst í ráðstafanir til koma sér undan þeim greiðslum er ljóst að það yrði tæpast liðið.
Er nú alvarlega rætt um hættu á gjaldþroti General Electric. Rannsóknir verðbréfaeftirlitsins og ásakanir um endurskoðunarblekkingar bæta ekki stöðuna. Félagið hefur reynt að lækka kostnað og selja eignir í kapphlaupi við fallandi hlutabréf um leið og það hefur hætt við arðgreiðslur sem voru yfirleitt helsta tilhlökkunarefni hluthafa. Til að rétta við fjárhaginn þyrfti í það minnsta 25 milljarða dala í nýtt hlutafé. Þessi risi er því ekki nema svipur hjá sjón.