c

Pistlar:

10. febrúar 2019 kl. 23:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Venesúela - hverju ber að trúa?

Það hefur ekki farið framhjá neinum að málefni Venesúela hafa verið mikið til umræðu undanfarið en það eru allmörg ár síðan pistlaskrifari byrjaði að fjalla um ástandið þar. Lengst af án þess að neinn gæfi því sérstakan gaum. Það er reyndar merkilegt til þess að hugsa að það er búið að ríkja neyðarástand í landinu í allmörg ár án þess að það fengi sérstaka athygli en um leið og pólitísk óvissa tók yfir umræðuna þá fékk heimsbyggðin áhuga.

Nú er ljóst að tekist er á um hvernig sagan er sögð um það sem er að gerast í Venesúela. Menn greinir ekki svo mikið á um að ástandið er óþolandi fyrir heimamenn en meira er deilt um hvað orsakar hvernig komið er fyrir landinu. Stuðningsmenn sósíalistastjórnarinnar hafa reynt að snúa þessu upp í einhverskonar uppgjör við heimsvaldastefnu Bandaríkjamanna. Það sé í raun framferði þeirra sem hafi skapað þá neyð sem er þarna að finna, meðal annars með viðskiptabanni, ýmiskonar þvingunaraðgerðum og hefðbundinni undirróðursstarfsemi. Það skýrir ekki að þrjár milljónir manna hafa flúið Venesúela eða um 10% landsmanna. Það er einstakt í ljósi þess að ekki ríkir stríð í landinu og engar náttúruhamfarir herja á landsmenn en þetta er stærsta bylgja flóttamanna sem hef­ur nokkru sinni átt sér stað í Suður-Am­er­íku. Um það er ekki deilt. Það er heldur ekki deilt um að það er alvarlegur skortur á mat í landinu og víðtækur skort­ur á ýms­um öðrum nauðsynj­um, svo sem lyfjum og lækningavörum, hef­ur verið viðvar­andi.

Hvar er nákvæmar fréttir að fá?

Það er auðvitað vandasamt að reyna meta það hér uppi á Íslandi hvað eru nákvæmar fréttir frá þessum heimshluta, þar sem tjáningarfrelsið má sín lítils. Stundum reynir maður að styðjast við fjölmiðla sem alla jafnan reyna að taka sig alvarlega, þá stærri fréttaveitur og fjölmiðla sem hafa aðstöðu til að styðjast við staðbundnar upplýsingar. Einnig reynir maður að rýna í hvað kemur frá alþjóðlegum stofnunum eða einhverjum þeim aðilum sem veita okkur upplýsingar byggðar á samanburðargögnum. En það er ekki vandalaust að fá áreiðanlegar fréttir og hafa verður í huga að Freedom Hou­se, sem mæl­ir fjöl­miðlafrelsi á alþjóðavísu, hef­ur skil­greint Venesúela sem „ófrjálst“ er kem­ur að fjöl­miðlun frá ár­inu 2003.venezuela

Að þessu sögðu fannst mér þó líklega mikilvægast að lesa tvö viðtöl í vikunni við fólk frá Venesúela sem íslenskir fjölmiðlar sendu frá sér. Annars vegar var það viðtali við Maríu Carolinu Osorio, sem var læknir í Caracas í Venesúela, en það var Ríkissjónvarpið sem sýndi viðtalið við Maríu sem hefur fengið landvistarleyfi hér á landi. - Og svo hins vegar viðtal við Juan E. Martín­ez Badillo, kvik­mynda­gerðarmann í Venesúela og fyrr­ver­andi nem­anda við Mennta­skól­ann á Eg­ils­stöðum sem birtist hér á mbl.is. Í því upplýsingaflóði sem nú dynur yfir freistast maður til að leggja við hlustir þegar slíkar frásagnir rekur á fjörur manns.

Grimmilegt einræði

María segir að almenningur í Caracas verði að eyða deginum í að reyna að afla matar. Fólk þarf að bíða í löngum röðum til þess að komast að því hvað sé á boðstólum hverju sinni fyrir þann litla pening sem það hefur til umráða í verslunum þar sem nánast enginn matur er til, segir María.

Hún segir að í raun ríki grimmdarlegt einræði í landinu þar sem almenningur svelti heilu hungri og lyfjaskortur sé yfirþyrmandi. „Það eru engin krabbameinslyf til í landinu, engin lyf við sykursýki eða öðrum langvinnum sjúkdómum. Þess vegna fagnar almenningur öllum alþjóðabandalögum, ekki aðeins Bandaríkjunum heldur Chile, Kólumbíu, Brasilíu, Lima-hópnum og Kanada.“

Juan Guaidó, forseti þingsins, lýsti sig forseta landsins fyrir tveimur vikum og María segir að öll þjóðin styðji Guaidó. Hann hefur lofað þjóðinni frjálsum kosningum hið fyrsta. Margir stuðningsmenn Maduros halda því fram að Guaidó sé strengjabrúða Bandaríkjanna. María hefur ekki trú á því.

Útlendingar skilja ekki neyðina

Juan E. Martín­ez Badillo seg­ist þreytt­ur á því að út­lend­ing­ar, sem skilji ekki stöðuna í rík­inu og hafi ekki reynt al­var­leg­ar efna­hagsþreng­ing­ar, spill­ingu og skort á eig­in skinni, séu að lýsa yfir stuðningi við stjórn Maduros, arf­taka Hugo Chavez, sósí­al­ist­a­leiðtog­ans sem var við völd í rík­inu frá 1998 og fram til dán­ar­dags árið 2013.

„Venesúela er statt á mjög slæm­um stað efna­hags­lega. Lág­marks­launastarf stend­ur ekki und­ir fram­færslu­kostnaði,“ seg­ir Juan, sem sjálf­ur er ekki með fasta vinnu en hann fær greitt fyrir kvikmyndagerðarstörf í Banda­ríkja­döl­um, sem hann sel­ur svo á svört­um markaði, þar sem allt annað og betra verð fæst fyr­ir er­lenda gjald­miðla en ef skipt er við stjórn­völd. Óðaverðbólga hefur gert gjaldmiðil landsins marklausan.


„Ef þú færð doll­ara, þá get­ur þú selt þá á svarta markaðnum og orðið þér úti um góðan pen­ing. Bólívar­inn, gjald­miðill­inn okk­ar, er al­gjör­lega verðlaus. Svo fólk vinn­ur á net­inu og það er meira og minna þannig sem all­ir eru að kom­ast af, eða með því að fá doll­ara senda frá ætt­ingj­um er­lend­is.“

Þessi viðtöl sýna að líf fólks er skelfilegt í Venesúela. Talið sé að yfir 20.000 manns hafi verið myrt í land­inu á síðasta ári. Sam­kvæmt Am­nesty In­ternati­onal er þessi tala tal­in enn hærri, en yf­ir­völd gefa upp en ekkert er að marka nokkuð sem kemur frá Maduro-stjórninni, svo mikið er víst.