Á síðasta ári kom út heimildarmynd á vegum BBC um stærsta banka Skotlands The Royal Bank of Scotland Group (RBS). Myndin heitir, Bankinn sem næstum felldi Bretland (The Bank That Almost Broke Britain) og er upprifjun á sögu bankans sem leiddi til þess að breska ríkið varð að koma honum til bjargar með stærsta björgunarpakka sem einstakur banki hefur fengið frá breskum stjórnvöldum.
Þegar myndin er skoðuð (hún er tiltæk á Youtube) vekur aðgerðin óneitanlega forvitni fyrir okkur Íslendinga sem sáum okkar bankakerfi fara aðra leið fyrir rúmum 10 árum síðan. Það sem meira er, á sínum tíma voru dregin upp ýmis líkindi með Kaupþing banka og RBS. Sumt með réttu. En stóri munurinn er samt sá að RBS var bjargað og rannsóknirnar sem á eftir fóru tóku mið af því. Þær snérust fremur um það hvað fór úrskeiðis fremur en að stofnað væri til glæparannsókna.
Ekki vantar yfirlýsingar í myndinni. Mervin King, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, segir að RBS hafi ekki getað lifað til dagsloka, 7. október 2008. Bankinn var búinn að vera, hann hafði ekkert lausafé handbært. Fjármálaráðherrann og „Íslandsvinurinn“ Alistair Darling segir að þeir hafi haft 24 tíma til að bjarga bankanum og um leið breska bankakerfinu.
Stækkaði og stækkaði
Saga RBS minnir um margt á á sögu Kaupþings. Bankinn reis á örskömmum tíma frá því að vera lítill skoskur banki í að verða einn stærsti banki heims. Það gerði hann með endalausum yfirtökum og látlausum vexti. Þegar umbreytingin hófst árið 1986 þá blasti við að bankinn yrði yfirtekin af stærri banka ef ekki yrðu róttækar breytingar. Breytingar voru gerðar á meðal starfsmanna og samskiptum við viðskiptavini bankans breytt til nútímalegri hátta. RBS reyndist þannig í fararbroddi þjónustuvæðingar bankakerfisins í Skotland og tók til sín mikið af nýjum viðskiptum sem gerði honum auðvelt að stækka og margt í viðskiptaumhverfinu ýtti undir það.
Árið 1998 var RBS orðinn stærsti banki Skotlands og sá sem átti heiðurinn af því, George Mathewson, ákvað að stíga til hliðar þó hann væri aðeins 58 ára gamall. Eftirmaðurinn var 20 árum yngri maður, Fred Goodwin, sem reyndist sérlega harðskeyttur fjármálamaður. Undir hans stjórn óx bankinn og óx og enginn efaðist um snilli Goodwins þar til RBS féll. Báðir voru þeir Georg og Frank aðlaðaðir en Frank var látin skila titlinum en hélt talsvert af starfslokasamningum sínum sem sárabót en hann er hér á myndinni til hliðar. Allt er þetta mikil saga.
Engin ástæða fyrir sakamálarannsókn
En hvernig var uppgjörinu vegna RBS háttað? Þar er nærtækt að horfa til niðurstöðu rannsóknar breska fjármálaeftirlitsins (Financial Services Authority (FSA)) á falli RBS. Það var niðurstaða eftirlitsins á sínum tíma að engin ástæða væri til að hefja sakamálarannsókn á bankanum. - Og það þrátt fyrir að breska ríkið hafi að lokum orðið að taka yfir 83% af hlutafé bankans til að tryggja starfsemi hans. Kom sú yfirtaka í kjölfar mikillar lánafyrirgreiðslu við bankann til að halda honum á floti. Alls fékk bankinn 45 milljarða punda af opinberu fé sem er ennþá heimsmet í bankabjörgun. Taprekstur RBS var gríðarlegur eftir björgunarpakkann. Árið 2009 tapaði bankinn 3.607 milljónum punda og árið 2010 nam rekstrartap RBS 1.125 milljónum punda. RBS var í miklum viðskiptum við íslenska aðila fyrir hrun og hefur haldið áfram að tengjast Íslandi.
FSA hóf rannsókn á RBS í maí 2009 með vísun í að bankinn hefði þurft umtalsverðan stuðning frá ríkissjóði. Það kallaði á nána skoðun á starfsaðferðum. Rannsóknin snéri að því að kanna hvort reglur hefðu verið brotnar og ef svo væri, hvort ástæða væri til þess að grípa til einhverra aðgerða. Samkvæmt yfirlýsingu FSA var gerð óvenju ítarleg rannsókn á viðskiptum RBS og var sérstaklega horft til athafna yfirmanna hans í aðdraganda lánsfjárkreppunnar. Kaupin á hollenska bankanum ABN AMRO árið 2007 og hlutafjáraukning í kjölfar þess voru rannsökuð sérstaklega. Eðlilegt var að hlutafjáraukningin væri skoðuð enda var hún gerð skömmu áður en allir fjármálamarkaðir lokuðust árið 2008.
Tóku margar rangar ákvarðanir
Niðurstaða FSA er skýr. Það var þeirra skoðun að stjórnendur bankans hefðu tekið margar rangar ákvarðanir (e. series of bad decisions) árin á undan lánsfjárkrísunni. Þetta hefði verið sérlega áberandi við kaupin á ABN AMRO og þeirri áhættu sem stjórnendur RBS tóku í þeirri viðleitni að stækka fjárfestingabankastarfsemi RBS. Það var hins vegar niðurstaða FSA að slæmar ákvarðanir stjórnenda bankans skýrðust ekki af glæpsamlegri hegðun þeirra einstaklinga sem um ræðir né heldur væri hægt að sjá nein merki um sviksemi né óheiðarlega viðskiptahætti hjá stjórnendum eða stjórn bankans. Skýrsla FSA hefur ekki verið gerð opinber þar sem við gerð hennar var stuðst við gögn sem trúnaður hvílir á. FSA setti mikla vinnu í að skoða það sem eftirlitið kallar fallna (e. failed) banka. Niðurstaða FSA í máli RBS bendir til þess að nálgun breskra yfirvalda hafi verið allt önnur en íslenskra. Vitaskuld hlýtur það að skipta máli þar sem umtalsverður hluti af starfsemi íslensku bankanna for fram innan eftirlitssvæðis FSA. Það hlýtur að vekja athygli ef niðurstöður FSA eru svona ólíkar niðurstöðum íslenskra yfirvalda.
Þess má geta að FSA rannsakaði að sjálfsögðu íslenska starfsemi í Bretlandi. Í opnu bréfi til forsætisráðherra í september 2010 vakti fyrrum bankastjóri Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, athygli á að frá falli Kaupthing Singer & Friedlander á haustmánuðum 2008 hefði staðið yfir rannsókn FSA á starfsemi bankans. Rannsóknin náði yfir alla starfsemi bankans síðustu misserin fyrir þrot hans. Þegar þarna var komið sögu hafði breska fjármálaeftirlitið tilkynnt Hreiðari að rannsókn þess á starfsemi Kaupthing Singer & Friedlander væri lokið. Ekki var er talið að hann eða aðrir stjórnendur Kaupthing Singer & Friedlander hefðu gerst brotlegir við lög.