Líklega munu allir umræðuþættir helgarinnar hefjast á umræðu um laun bankastjóra í landinu. Það er kannski til marks um það hvaða áherslur eru nú í samfélagsumræðunni. Atvik í samskiptum fólks er annar áherslupunktur þar sem það getur orðið að stórfrétt ef fólk hittist fyrir utan bar og sendir hvert öðru tóninn. Hálfan veturinn hefur þjóðin lagt það á sig að býsnast yfir upptökum af rausi á öðrum bar.
Í því ljósi er heldur fátæklegt að spyrja eftir því hver muni eftir loðnunni? Litlum fiski sem birtist hér við strendur landsins og skilar að jafnaði 20 til 40 milljörðum í útflutningsverðmæti, ef vel gengur. Loðnan er jú næstmikilvægasta nytjategund landsmanna, á eftir þorsknum. Og nú finnst loðnan ekki og margir orðnir úrkula vonar. Um það eru sagðar litlar fréttir og fáir efna til umræðu um slíkt. Mikilvægara að skrýðast gulu vesti og huga að skiptingu kökunnar sem þó virðist vera að minnka um sem svarar einni loðnuvertíð. Hefur einhver áhyggjur af því?
Öllu til tjaldað við leitina
En svo haldið sé til haga þá voru bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið með frásagnir um loðnuleitina í morgun. Þar kom fram að öllu er nú til tjaldað við loðnuleit suðaustur af landi. Fimm skip eru við leitina, þar af tvö norsk og eitt grænlenskt. Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson var við loðnuleit úti fyrir Vestfjörðum í gær, en meginverkefni skipsins í hringferð um landið eru þó ekki mælingar á loðnu. Ekki hefur nægilega mikið af loðnu fundist til að hægt sé að gefa út kvóta til veiða. Í janúar í fyrra höfðu veiðst um 68 þúsund tonn af loðnu. Heildarloðnukvótinn á þeirri vertíð var 285 þúsund tonn.
Til þessa hefur árgangurinn sem ber uppi veiðistofn ársins ekki náð viðmiði Hafrannsóknastofnunar og Alþjóðahafrannsóknaráðsins til að gefa út upphafskvóta eins og kemur fram í Morgunblaðinu. Útlitið er því dökkt. Fréttablaðið bendir réttilega á að ekki sé nóg með að útgerðirnar verði af tekjum heldur eru einnig starfsmenn í landi sem missa spón úr aski sínum. Það er ekki lengra síðan en 2015 sem loðnan skilaði um 30 milljörðum króna í útflutningsverðmæti og munar um minna. Loðnan skapar uppgrip og er gríðarlega mikilvæg á þeim stöðum þar sem vinna við hana fer fram. Það er því ekki nema von að margir vinnandi menn séu óþreyjufullir eftir að loðnan finnist. Við vonum enn hið besta.