Hvernig er hægt að líta á þá niðurstöðu kjarasamningaviðræðna sem nú blasir við öðru vísi en sameiginlegt skipbrot? Og það gerist þrátt fyrir að undanfarin misseri hafi kaupmáttur launa aukist, regluverk í kringum samningaviðræður verið bætt til að gera þær skilvirkari og markvissari og um leið hafa samningsaðilar aðgengi að miklum og nákvæmum upplýsingum um hvað eina er varðar landshag. Við skulum hafa í huga, að í þá tíð er verstu samningarnir - verðbólgusamningar - voru gerðir þá voru upplýsingar um stöðu efnahagsmála takmarkaðar. En nú liggur flest á borðinu. Hvað er þá til ráða? Jú, allt er dregið í efa - áróðurstríðið er mikilvægast af öllu. Afstæðishyggjan hefur haldið innreið sína og sjálfskipaðir talnafakírar ráða ríkjum og skiptir engu þó þeir geti ekki farið með neina tölu rétt. Í heimi falsfrétta og falsupplýsinga virðast lýðskrumarar þrífast.
Þegar formaður Eflingar birtist í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi sáu menn í fyrsta sinn bros á vanga þegar hún greindi frá því að stefnt væri á verkfall. - Og það frá manneskju sem er fræg fyrir að leggja ekkert til á þeim samningafundum sem hún situr og þegja þangað til sjónvarpsvélarnar mæta. Það má því kannski bæta við fyrirsögnina; sælt er sameiginlegt skipbrot. Formaðurinn bætti við að í hruninu hefði kapítalisminn klúðrað málum og mátti helst skilja hana þannig að nú væri komið að verkalýðshreyfingunni, undir hennar stjórn, að skapa nýtt hrun. Augljóslega snýst stefnan um að tryggja jafna útdeilingu fátæktarinnar frekar en að skapa meiri verðmæti til skiptanna eða er hugsanlega lokamarkmiðið einfaldlega að skapa óróa og upplausn? Þetta er hugmyndafræði sem skilur eftir sig sviðna jörð enda getur engin sósíalisti bent á ríki undir þeirra hugmyndafræði sem hefur gengið upp.
Verkföll hitta verst þá sem verst standa
Auðvitað vona menn að verkföllum verði í lengstu lög forðað. Þau munu valda miklu tjóni og geta ekkert haft annað í för með sér en kjarasamninga sem skapa verðbólgu og kjararýrnun til lengri tíma. Verkföll ramma inn ósigur hinnar skynsamlegu rökræðu og munu hitta þá verst fyrir sem verst standa. Eins og vanalega þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim sem betur meiga sín, þeir verst settu verða alltaf verst úti þegar bjátar á, til dæmis vegna aukinnar verðbólgu eða aukins atvinnuleysis. Kaupmátturinn fer þá fljótt út um gluggann
Rifjum upp söguna. Frá 1970 til 1990 hækkaði verðlag á Íslandi um ríflega þrjátíuþúsund prósent (31479% Heimild: Hagstofa) en kaupmáttur lítið. Árið 1990 var kaupmáttur dagvinnulauna verkakarla í Reykjavík til dæmis 10% lakari en hann hafði verið 1955. Hvernig má þetta vera? Jú, kjarasamningar voru iðulega án innistæðu og til að koma í veg fyrir atvinnuleysi þegar þrengdi að afkomu fyrirtækja var gengið reglulega fellt. Það var gert einfaldlega til að lækka raunlaun á Íslandi ef verð á fiskmörkuðum stóð ekki undir launakostnaði fyrirtækja. Þetta var vítahringur sem var ekki rofinn fyrr en upp úr 1990 þegar þjóðarsamningarnir voru gerðir en þeir snérust fyrst og fremst um að semja um alvöru kaupmáttaraukningu.
Óvissa með hagvöxt og fjárlög
Þrátt fyrir að ótrúlega vel hafi tekist til við að endurreisa fjárhag fyrirtækja, heimila, ríkis og sveitarfélaga undanfarin ár þá er ástandið fljótt að breytast. Við þegar sjáum nú að ýmis teikn eru á lofti um að hagvaxtarforsendur fjárlaga séu brostnar, ferðamönnum mun fækka og viðsjárverð staða er meðal tveggja stærstu flugfélaga landsins. Ef útaf bregður hjá WOW þegar nálgast vorið er hætt við að íslenskt ferðaþjónusta verði fyrir miklu áfalli. Hér hefur verið bent á að loðnuvertíðin sé við það að bregðast sem hefur í för með sér 20 til 30 milljarða minna útflutningsverðmæti. Verðbólguvæntingar virðast vera að aukast sem eru mikil vonbrigði þar sem við sjáum að langtímavextir hafa verið að lækka. Um leið eru mörg fyrirtæki augljóslega að sligast undan launakostnaði.
Sú aðgerð ein og sér að boða atkvæðagreiðslu um verkfall veldur umsvifalaust tjóni í atvinnulífinu, kostnaðarsömu tjóni sem dregur úr getu þess til að standa undir launahækkunum til framtíðar. Er nokkuð sem réttlætir það að stefna stöðugleika hagkerfisins í tvísýnu, hvað á þegar allir eru sammála um að vinna markvisst að því að bæta stöðu þeirra lægst launuðu og styðja við þá hópa sem eiga undir högg að sækja? Hvað vakir fyrir mönnum?