c

Pistlar:

15. mars 2019 kl. 12:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kína: Þar sem allt miðast við þarfir fjöldans

Það er stundum erfitt að skilja þann uppgang sem hefur átt sér stað í Kína undanfarna áratugi. Á síðasta ári munu 40 milljónir Kínverja hafa færst úr fátækt til bjargálna. Þetta er búið að gerast ár eftir ár enda hefur efnahagir Kína vaxið svo undrum sætir og talið er að 800 milljónir manna hafi hafist upp úr fátækt þar síðan uppgangurinn hófst upp úr 1980. Helsta auðlegð landsins er vinnuaflið og með því að taka að sér að vera vinnustofa heimsins hafa Kínverjar sigrast á hverri hindruninni á fætur annarri og eru nú efnahagslegt stórveldi. Um leið hefur atvinnulíf landsins breyst og Kínverjar bjóða ekki lengur upp á ódýrasta vinnuafl heims. Þeir sem þurfa að láta sauma ódýr föt fara til Bangladess sem einnig hefur verið á efnahagslegri hraðferð eins og hefur verið fjallað um hér áður.kína

Ekki talað um stjórnmál í Kína

En Kína er auðvitað líka merkilegt fyrir þær sakir að þar er ekki talað um stjórnmál og ljóst er að lýðræðið er ekki ástundað eins og við þekkjum það. Í eina tíð sagði forseti Íslands af þessu tilefni að lýðræði væri afstætt og hlaut ákúrur fyrir en það ríkir aðeins einn flokkur, hinn kapítalíski Kommúnistaflokkur Kína. Hann keyrir áfram efnahagsuppganginn með ákvörðunum sem teknar eru af toppunum og þeim einum. Ekki þýðir að skora þessar ákvarðanir á hólm og tjáningarfrelsi eins og við þekkjum það er Kínverjum framandi. Fjölmiðlar og samfélagsmiðlar eru ritskoðaðir í einhverri víðtækustu tilraun heimssögunar til að hafa áhrif á hugsun og gerðir fólks. Öðru hvoru heyrast hjáróma raddir kínverskra andhófsmanna en það virðist ekkert bíta á stjórnvöld. Þrátt fyrir smá andhóf virðist þorri Kínverja sætta sig við kerfið. Stundum virðist manni að kínverska samfélagið starfi eins og maurabú þar sem allir sætta sig við hlutskipti sitt. Þetta er ekki sagt til að móðga Kínverja en manni dettur varla önnur líking í hug.

Þarfir fjöldans

Það er augljóst að hugsunin er sú að allar ákvarðanir miðist við þarfir fjöldans. Framan af virtist sem svo að efnahagsuppgangurinn væri mjög á kostnað náttúrunnar og umhverfisins alls og sannarlega bárust margvíslegar upplýsingar um fádæma mengun og vond lífsskilyrði fyrir almenning í borgum Kína. Loftið var stundum svo mengað að fólk átti erfitt með að vera úti við og kvað mjög rammt að þessu í höfuðborginni Bejing. En svo virðist sem ráðist hafi verið í alvöru átak til að snúa þróuninni við. Topparnir ákváðu að breyta þessu og nú hafa verið innleiddar mjög stífar reglur sem þegar hafa valdið miklum breytingum. Reyndar var athyglisvert að nýlegar gervitunglamyndir sem sýndu að Kína væri að grænka verulega. Landið hefur ráðist í gríðarleg uppgræðsluverkefni í norðurhéruðunum þar sem eyðimerkur virtust vera að ógna bygg. Þessi breyting sýnir að Kínverjar geta gert ansi margt beini þeir athygli sinni þangað. Samhliða þessu hefur landið reynt að innleiða umhverfisvæna orku í ríkara mæli en kolakynntur iðnaður Kína virtist einn og sér ætla að rugla kolefnisbúskap jarðarinnar. Það er mikið verk að breyta þessu í Kína þar sem kol hafa löngum verið talin til helstu náttúruauðlinda.

Auðmenn sósíalismans

En samfara efnahagsuppganginum hefur gríðarlegu fjöldi Kínverja auðgast og mikil fjöldi auðmanna orðið til. Þeir eru margir hverjir stjarnfræðilega ríkir og vestrænar lúxusvörur seljast á áður óþekktum hraða. Kína virðist stundum soga til sín lúxus jarðarinnar. En hvernig getur alþýðan sætt sig við þetta? Jú, hún virðist ekki kvarta og getur það svo sannarlega ekki upphátt. En kunnugir segja að Kínverjar séu furðu sáttir við þetta fyrirkomulag þar sem allir upplifa sig hafandi tækifæri til að auðgast. Því má spyrja - er hið kommúníska Kína orðið land tækifæranna um leið og sósíalismi undir nýjum slagorðum er að festa rætur í Bandaríkjunum, sem lengt af hafa verið talin land tækifæranna?kina2

En vitaskuld eru efnahagslögmálin stundum sérkennileg í Kína og margir hafa spáð því í alllangan tíma að kreppa muni banka á dyrnar hjá Kínverjum. Byggingariðnaðurinn er talin sérlega viðkvæmur enda þekkt staðreynd að í Kína rísa heilu borgirnar á undraskömmum tíma. En Kínverjar virðast líta á steinsteypu sem trygga fjárfestingu og fjárfesta óhikað í nýjum byggingum. Þannig heyrði undirritaður af einum kínverskum fjárfesti sem átti hvorki fleiri né færri 3000 íbúðir. Sannarlega eitthvað til að hugsa um en kannski ekki síður sú staðreynd að þær voru allar auðar! Eigi að síður var fjárfestirinn sannfærður um að hann vaknaði ríkari að morgni en þegar hann fór að sofa!

En þetta er auðvitað skrítin fjárfesting og skilar engri arðsemi sem slík. Getur þetta gengið? Aðrir hafa orðið til að benda á að hagvöxtur í Kína hafi verið ofmetin en það virðist ekki hafa truflað þá til þessa þó ómögulegt sé að segja hvort þeim takist að sigla í gegnum þau áföll sem gjarnan fylgja hinu kapítalíska kerfi og verða oft ekki séð fyrir.