c

Pistlar:

19. mars 2019 kl. 21:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Venesúela: Sósíalistar á heimavelli

Þrátt fyrir að margir sósíalistar á Íslandi hefi reynst ófærir um að sýna nokkra samúð með alþýðu manna í Venesúela þá versnar ástandið í landinu stöðugt og við erum daglega minnt á það. Ekki bætir úr skák að Maduro-stjórnin virðist ætla að standa gegn öllum tilraunum til að lina þjáningar fólks og hefur hafnað erlendri aðstoð. Andstaðan við aðstoð gengur svo langt að kveikt hefur verið í birgðum af nauðsynjum sem reynt hefur verið að flytja til Venesúela þar sem alger skortur ríkir, jafnt á mat, lækningavörum og öðrum neysluvörum.

Í DV um helgina var forvitnilegt viðtal sem Ágúst Borgþór Sverrisson blaðamaður tók við Caryna Gladys Bolivar Serge en hún er frá Venesúela og hefur búið á Íslandi frá árinu 2002. Hluti af fjölskyldu hennar býr enn í föðurlandinu. Að sögn Carynu er ástandið skelfilegt í Venesúela og fer dagversnandi. Í viðtalinu segir hún meðal annars: „Af tvennu illu myndi fólk frekar velja erlend afskipti en að þessi ríkisstjórn sé áfram við völd. Það kann að hljóma brjálæðislega, en flestir myndu fagna því ef Bandaríkjaher myndi ráðast inn í landið á morgun. Fólk hugsar með sér að þeir gætu aldrei verið verri en núverandi valdhafar.“ Þegar þessi orð eru lesin rifjast upp orð ýmissa sósíalista hér á landi sem héldu því fram að aðgerðir Bandaríkjamanna - meðal annars að flytja neyðarhjálp að landamærum Venesúela - væru til þess að réttlæta hernaðaraðgerðir í landinu. Ekkert rennir stoðum undir slíkar fullyrðingar. Það er hins vegar ástæða til þess fyrir þá sem vilja fá nákvæmar upplýsingar um Venesúela að lesa þetta viðtal við Caryna Gladys Bolivar Serge í DV. Áður höfðu birst upplýsandi viðtöl við fólk frá Venesúela, þau Maríu Carolinu Osorio, sem var læknir í Caracas í Venesúela og Juan E. Martín­ez Badillo, kvik­mynda­gerðarmann í Venesúela og fyrr­ver­andi nem­anda við Mennta­skól­ann á Eg­ils­stöðum.maduro1

Pólitískar sjónhverfingar

En þessi fullkomna afneitun sósíalista hér á landi og annars staðar sýnir glögglega hve pólitískar sjónhverfingar eru samofnar alræðinu. Á þessum vettvangi hefur verið fjallað um marxisma alloft enda nauðsyn að benda á afleiðingar þess ef honum er beitt við stjórnun heilu þjóðfélaga. Því miður er Venesúela ekki eina dæmið. Fróðlegt var þannig að lesa grein eftir prófessor Richard M. Ebeling í tímaritinu Þjóðmálum á síðasta ári. Ebeling hefur meðal annars lagt sig eftir að greina ástandið eins og það var í Sovétríkjunum. Um leið hefur hann rifjað upp að ekki aðeins þar, heldur einnig í mörgum ríkjum Austur-Evrópu, Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku hefur birst hörð lexía um þá pólitísku harðstjórn og efnahagslega öngþveiti sem fylgja sósíalískum samfélögum. Ebeling telur að þessu hafi loksins lokið árið 1991 þegar fríðindi, arðrán og fátækt „raunverulegs sósíalisma“ urðu til þess að sovétkerfið stóð ekki lengur undir sér. „Þegar þar var komið var erfitt að finna einhvern hvar sem leitað var í Sovétríkjunum sem trúði á hina „fölsku stéttarvitund“ kommúnísks áróðurs. Sovétríkin voru komin í öngstræti hugmyndafræðilegs gjaldþrots og samfélagslegs ólögmætis. Ofurbygging“ sovésks valds hrundi.”

En nú má spyrja sig hvort sé verið að blása nýju lífi í það sem aldrei hefur virkað með því að kenna sósíalisma við lýðræði. „Lýðræðislegur sósíalismi,“ er nýjasta áróðursklisjan úr herbúðum sósíalista án þess hægt sé að sjá nokkra skýringu á hvað í því fellst eða var þetta ekki einu sinni skilgreining á sósíaldemókrötum sem hafa nú ekki átt upp á pallborðið hjá sósíalistum? Þegar svo sósíalistar eru minntir á að hvergi hefur þetta stjórnkerfi virkað þá bíta þeir höfuðið af skömminni og benda á Noreg! Líklega myndi andlitið detta af Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, ef henni væri sagt að hún stýrði sósíalísku þjóðfélagi!maduro2

Sósíalistar á heimavelli

En auðvitað er haldlítið að skeyta orðinu lýðræði framan við sósíalisma. Við skulum gefa Caryna Gladys Bolivar Serge aftur orðið og enn á ný er vitnað til viðtals DV við hana. Þar segir hún að reglulega séu haldnar kosningar í Venesúela, en ekkert sé að marka þær. „Því er haldið fram að kosningarnar séu leynilegar en þú þarft að gefa upp kennitöluna þína og svo þegar það gerist að til dæmis opinberir starfsmenn greiði atkvæði gegn stjórnvöldum þá eru þeir reknir fyrirvaralaust.“

Caryna segir í viðtalinu við DV að stjórnvöld beiti ýmsum fantabrögðum gegn friðsamlegum mótmælum sem færast mjög í vöxt í landinu. „Námsmenn hafa verið í fararbroddi í mótmælum en þeir hafa margir verið fangelsaðir, pyntaðir og myrtir. Herinn sprautar oft táragasi á mótmælendur og svo hafa stjórnvöld tíðkað að hleypa föngum úr fangelsi, vopna þá og segja þeim að skjóta á mótmælendur. Þá lítur þetta út í fréttum eins og almennir borgarar séu að berjast sín á milli þegar í raun það eru vopnaðir útsendarar stjórnvalda sem eru að myrða vopnlausa mótmælendur.“ Svo mörg voru þau orð en þau Caryna Gladys Bolivar Serge, María Carolinu Osorio og Juan E. Martín­ez Badillo eiga heiður skilið fyrir að upplýsa okkur um hið sanna ástand í Venesúela.