Það var vel til fundið hjá þáttastjórnanda Silfursins í dag að kalla til Gylfa Zöega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Gylfi situr einnig í peningastefnunefnd Seðlabankans og hefur eðli málsins samkvæmt mikinn og djúpan skilning á hagfræði og þeim öflum sem umlykja hagkerfi okkar Íslendinga um þessar mundir. Ummæli hans voru því athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Þó að íslenska hagkerfið sé örsmátt og auðvelt ætti að vera að fá yfirsýn yfir það getur slíkt vafist fyrir mörgum eins og dæmin sanna. Undanfarið höfum við séð smitast inn í umræðuna hér á landi einhverskonar 19. aldar marxísk greiningarfræði sem meðal annars hefur leitt til aukinna öfga í verkalýðsbaráttu hér á landi. Gylfi hefur harðlega gagnrýnt þá stéttabaráttu sem þessi greining byggir á enda erfitt að sjá að hún sé í tengslum við efnahagslegan raunveruleika hér á landi en hann var einmitt til umræðu hér í síðasta pistli.
Staðreyndin er sú að laun eru há á Íslandi í alþjóðlegum samanburði sem meðal annars sést af því að launakostnaður sem hlutfall af landsframleiðslu er mjög hár hér. Margt annað sem hefur verið hent á loft í þessari marxísku orðræðu er einnig rangt. Hér er ekki mikil fátækt og stéttaskiptin er blessunarlega lítil. Þetta vita flestir sem rýna í tölulegan samanburð og margoft hefur verið bent á það í pistlum hér áður. Því miður virðast þeir vera til sem telja sig hafa hag af því að rugla og afvegaleiða þessa umræðu og því mikilvægara að leggja við hlustir þegar menn eins og Gylfi Zöega taka til máls. Hann er svo sem ekki einn um að halda slíkum rökum fram, flestir hagfræðingar og greiningaraðilar sem mark má taka á hafa verið að benda á þetta samhengi en stundum er eins og þeim sé ýtt úr umræðunni.
Einstök staða
Gylfi benti á merkilegt samhengi í stöðunni nú. Ríkisfjármál, skuldastaða heimilanna, gjaldeyrisvarasjóður og vaxtastaðan í landinu gefa okkur færi á að takast á við sveifluvandamál sem geta skapast, svo fremi sem menn eyðaleggja ekki jafnvægið með óraunsæjum kjarasamningum. Við erum í fyrsta skipti í sögunni í stöðu til að beita vaxtalækkunum til þess að takast á við samdrátt í hagkerfinu og efla atvinnustigið. Á þetta sama benti Már Guðmundsson seðlabankastjóri í ræðu sinni á aðalfundi bankans á fimmtudaginn.
Már vakti athygli á því að á síðustu árum hafa tekjur landsmanna farið töluvert upp fyrir það sem þær fóru hæst fyrir fjármálakreppuna og á þar hlut að máli bæði hagvöxtur og bætt viðskiptakjör þjóðarinnar. Kaupmáttur launa var á síðasta ári 24% hærri en árið 2007 og þjóðartekjur á mann voru að raunvirði 12% hærri. Árið 2007 vorum við í ellefta sæti meðal OECD-ríkja varðandi þjóðartekjur á mann samkvæmt alþjóðlegri tölfræði. Við féllum niður í það nítjánda árið 2010 en árið 2017 vorum við komin upp í sjötta sæti. Allt hefur stefnt til betri vegar. Fyrir hvað eru menn að stefna þessum ávinningi í hættu?
Vaxtalækkun en stöðugt verðlag
Flestum ætti að vera kunnugt að samkvæmt lögum er meginmarkmið Seðlabanka Íslands að stuðla að stöðugu verðlagi. Jafnframt skal Seðlabankinn stuðla að fjármálastöðugleika. Verðbólga var nálægt verðbólgumarkmiðinu, 2,5 prósentum, í upphafi síðasta árs, en fór svo vaxandi, var að meðaltali 2,7 prósent og 3,7 prósent í lok ársins, sem er þó undir þeim fjórum prósentum sem kalla á skýrslugerð til ríkisstjórnar. Peningastefnunefnd hélt meginvöxtum bankans óbreyttum meginhluta ársins, allt þar til í nóvember, þegar vextir voru hækkaðir um 0,25 prósentur. Nú tala bæði Már og Gylfi um að hægt sé að lækka vexti til að vinna á móti niðursveiflunni nú. En til þess að það sé unnt þarf að semja af skynsemi. Er til of mikils mælst að menn horfi til þess?